Óli Björn Kárason alþingismaður:
Hægt er að nálgast hlutina með ýmsum hætti. Sumir sjá alltaf hálftómt glas en aðrir horfa á hálffullt glasið og líta til tækifæranna. Svo eru þeir til sem þurfa aðeins nokkrar klukkustundir til að leggja mat á yfir 470 blaðsíður – með þéttum texta, töflum og grafík – til að átta sig á að þar standi ekki neitt. Við hinir þurfum lengri tíma og á stundum lesa texta oftar yfir en einu sinni og liggja yfir töflum, línuritum, súlum og skífum.
Ég hef ákveðinn skilning á því að liðsmenn stjórnarandstöðunnar (sem hraðast lesa) beini athyglinni fyrst og síðast að því sem þeir telja neikvætt í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2020 til 2024. Það er öruggt að fjármálaáætlun stjórnarandstöðunnar liti allt öðru vísi út en sú sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti um helgina. Á tekjuhliðinni væri örugglega fylgt þeirri hugmyndafræði að ríkissjóður eigi aldrei að „afsala sér tekjum“ og að lækkun skatta sé aðeins til þess fallin að „veikja“ tekjustofna. Fyrirmyndina sækir stjórnarandstaðan til pólitískra bræðra og systra í Ráðhúsinu við Tjörnina. Með hugmyndafræði stjórnarandstöðunnar væri ríkissjóður ekki vel í stakk búinn til að mæta hugsanlegum áföllum.
Framtíðin er alltaf óviss
Fjármálaáætlunin er ekki hafin yfir gagnrýni. Það er augljóst að óvissa er um efnahagslegar forsendur. Áætlunin styðst hins vegar við fyrirliggjandi hagspá enda ekki hægt að byggja á öðru. Hagþróun á næstunni er háð mikilli óvissu vegna bæði innri og ytri þátta. „Alþjóðlega ríkir óvissa til skemmri tíma vegna pólitískra umbreytinga og átaka um umgjörð alþjóðaviðskipta,“ segir meðal annars í fjármálaáætluninni. Bent er á óvissu sem hefur skapast vegna rekstrarerfiðleika WOW air en einnig vegna mikillar samkeppni á flugi yfir Norður-Atlantshaf. „Flugfargjöld eru lág og þyrftu líklega að hækka til að styðja við rekstur félaganna. Hætt er við að hærri fargjöld hafi neikvæð áhrif á eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu, enda er verðteygni fargjalda yfir Atlantshafið há.“
Loðnubrestur setur einnig strik í reikninginn. Órói á vinnumarkaði og kjaradeilur hjálpa ekki til við að meta hagþróun komandi mánaða og missera. Þar með er óvissa meiri um verðbólgu, gengi krónunnar, þróun vaxta og einkaneyslu – raunar flestar hagstærðir. Slaki í hagkerfinu er að myndast. Vísbendingar eru um að innlend framleiðsla sé í harðari samkeppni við erlenda framleiðslu en áður. Taki kjarasamningar ekki mið af þessum veruleika má reikna með að störfum fækki – atvinnuleysi aukist.
Þeir sem sjá aldrei annað en hálftómt glas eru uppteknir af því að benda á hugsanlegan „forsendubrest“ en forðast að leggja fram hugmyndir um hvernig bregðast skuli við. Vilja þeir lækka ríkisútgjöld (hvaða útgjöld, til hvaða málaflokka og hversu mikið)? Eða eru þeir á því að grípa til skattahækkana? (Við vitum hvaða áhrif hærri skattar hafa á efnahagslífið, ekki síst þegar það blæs á móti).
Sterk staða
Eitt meginmarkmið hagstjórnar á hverjum tíma er að búa svo um hnútana að hagkerfið sé tilbúið til að takast á við það óvænta, ekki síst efnahagslega erfiðleika. Íslenskt þjóðarbú og ríkissjóður sérstaklega hefur ágætt bolmagn til að glíma við áföll. Segja má að allt frá 2013 hafi bóndinn í fjármálaráðuneytinu verið duglegur við að safna korni í hlöður til að mæta mögrum árum. Hann hefur ekki fallið í þá freistingu að eyða búhnykk og hvalrekum í stundargaman.
Staða ríkissjóðs hefur gjörbreyst á nokkrum árum. Í lok árs 2011 námu skuldir ríkissjóðs um 86% af vergri landsframleiðslu. Við lok síðasta árs var hlutfallið komið niður í 28%. Í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir að heildarskuldir ríkissjóðs verði komnar undir 20% af landsframleiðslu í árslok 2020 og 12,1% árið 2024.
Hreinn vaxtakostnaður ríkissjóðs var 3,1% af vergri landsframleiðslu árið 2013. Þetta sama hlutfall verður um 1,7% á þessu ári. Með öðrum orðum: Ríkið hefði þurft að greiða um 43 milljörðum meira í vaxtakostnað á yfirstandandi ári en það gerir ef hlutfall vaxtakostnaðar væri það sama af landsframleiðslu og 2013. Lægri vaxtakostnaður jafngildir um 480 þúsund krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Sparnaðurinn er átta milljörðum meiri en nemur framlögum til allra framhaldsskóla á landinu.
Mikill vöxtur útgjalda
Flest hefur verið okkur Íslendingum hagfellt á síðustu árum. Gríðarleg lækkun skulda ríkisins – þar sem búið er í haginn fyrir framtíðina og dregið er úr vaxtagjöldum – hefur gert það kleift að auka útgjöld, ekki síst til velferðarmála, lækka skatta en um leið halda ágætum stöðugleika.
Á síðustu fimm árum hafa rammasett útgjöld aukist um rúmlega 206 milljarða króna að raunvirði eða um 36% frá árinu 2014. Framlög til heilbrigðismála hafa hækkað um 65 milljarða (37%) og til félags-, húsnæðis- og tryggingamála um 66,5 milljarða (48%). Áherslan hefur verið á velferðarmál.
Öllum hefur mátt vera ljóst að gríðarleg raunaukning útgjalda ríkisins til allra málaflokka getur ekki haldið endalaust áfram. Aukningin er ekki sjálfbær til lengri tíma litið. Fjármálaáætlunin til 2024 ber þess merki. Gengið er út frá því að vöxtur útgjalda verði minni á komandi árum og á síðari hluta tímabilsins verði aukning frumútgjalda minni en áætlaður hagvöxtur.
Þótt ætlunin sé að hægja á vexti útgjalda munu framlög til velferðarmála halda áfram að vaxa. Samkvæmt fjármálaáætlun verða útgjöldin tæplega 57 milljörðum hærri árið 2024 en fjárlög yfirstandandi árs gera ráð fyrir. Mest verður raunaukningin til heilbrigðismála eða nær 27 milljarðar króna. Útgjöld til velferðarmála verða í lok tímabilsins um 60% af rammasettum útgjöldum ríkisins að frádregnum varasjóði.
Útgjöldin halda því áfram að hækka á komandi árum. Rammasett útgjöld til málefnasviða verða um 94 milljörðum króna hærri í lok tímabilsins en á þessu ári, á föstu verðlagi. Þá eru ótalin útgjöld utan rammans; lífeyrisskuldbindingar, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs, ríkisábyrgðir, tapaðar kröfur og tjónagreiðslur. Og ekki má gleyma vaxtagreiðslum.
Í höndum þingsins
Ríkisstjórnin hefur lagt fram fjármálaáætlun til ársins 2024. Þingið hefst nú handa við að fjalla um áætlunina og setja sitt mark á hana. Þeir þingmenn sem hafa mestar áhyggjur af þeim forsendum sem liggja að baki áætluninni hljóta að leggja fram ítarlegar tillögur um hvernig þeir telja best að standa að verki við stjórnun ríkisfjármála á komandi árum.
Fjármálaáætlunin er viðamikið plagg og þar eru miklar tölulegar upplýsingar. Þar eru einnig útlistuð áform í einstökum málaflokkum – stefnan mörkuð eins skýrt og aðstæður leyfa. Útgjöldin eru eitt en tekjuöflunin er annað. Fyrirhugaðar eru ýmsar breytingar á sköttum og gjöldum. Flest af því er til bóta en ekki allt. Sumt getur sá sem þetta skrifar ekki stutt en meira um það síðar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. mars 2019.