Borgfirðingar og Mýramenn mættu til fundar við þingflokk Sjálfstæðisflokksins í Borgarnesi í kvöld á Icelandair Hótel Hamri.
Fundurinn var góður og málefnalegur – enda voru fjölmörg mál sem brunnu á og fundarmenn vildu ræða við þingmennina. Eins og fyrr í hringferðinni fór fundurinn fram með þeim hætti að fundarmenn dreifðu sér á borð og þingmenn fóru á milli borða og tóku spjall um það sem skipti máli við hvert borð. Með því má segja að nokkrir fundir hafi átt sér stað í einu.
Þau mál sem helst voru rædd voru; kjaramál, skattamál, lífeyrismál, bætur almannatrygginga, húsnæðismál, landbúnaðarmál, nýfallinn dómur Mannréttindadómstóls Evrópu, atvinnumál og nýsköpun.
Borgarnes er 41. viðkomustaður þingflokksins í hringferðinni sem hófst með fundi á Laugarbakka í Húnaþingi vestra laugardaginn 10. febrúar sl. Alls mun þingflokkurinn sækja heim rúmlega 50 staði á landinu, ýmist með opna fundi eða vinnustaðaheimsóknir.
Nánari dagskrá ferðarinnar má finna á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins hér þar sem einnig verða birtar fréttir úr hringferðinni sem og á samfélagsmiðlum.