Óli Björn Kárason alþingismaður:
Íslendingar hefðu seint brotist út úr haftaþjóðfélagi til velmegunar ef hugmyndafræði sósíalismans hefði fengið að ráða. Opinber innflutningsskrifstofa sem útdeildi innflutningsleyfum hefði lifað góðu lífi og Raftækjaverslun ríkisins væri enn starfandi. Epli, appelsínur, erlent sælgæti, fjölbreytilegur fatnaður og annað sem við göngum að sem sjálfsögðum hlutum, væri litið á sem sóun og munað sem ekki ætti að leyfa nema þá helst á jólunum. Almenningur gæti aðeins látið sig dreyma um bíla, mótorhjól, tölvur, snjallsímar og ferðalög til annarra landa.
Sósíalistar hefðu tryggt að ríkið sæti eitt að ljósvakamarkaðinum – engar frjálsar útvarps- eða sjónvarpsstöðvar væru starfræktar. Gamli ríkisrekni Landssíminn sæti einn að markaðinum með tilheyrandi fábreytni og lélegri þjónustu. Nova, Vodafone? Ekki láta ykkur dreyma. Leik- og grunnskóli undir merkjum Hjallastefnunnar væri aðeins til í hugskoti Margrétar Pálu Ólafsdóttur. Einkareknir skólar eru eitur í beinum sósíalista. Háskólinn í Reykjavík? Nei takk. Verslunarskólinn, Tækniskólinn, Ísaksskóli og Landakotsskóli. Ekkert rugl. Menntun og tækifæri til menntunar eiga að vera ríkisrekin í fyrirmyndarríki sósíalista.
Fátækt, eymd og misrétti
Hugmyndafræði sósíalismans hefur hvergi gengið upp – hvergi staðið undir þeim fögru loforðum og fyrirheitum sem gefin hafa verið og margir heillast af. Skiptir engu hvort litið er til blóði drifinnar sögu Sovétríkjanna sálugu, eða þeirrar martraðar sem almenningur býr við í dag í Norður-Kóreu, á Kúbu eða í Venesúela.
Sósíalisminn lofar öllum velmegun, jafnrétti og öryggi. Hugmyndafræðin hefur skilað fátækt, eymd, misrétti og ofbeldi. Í nafni jöfnuðar er persónufrelsi tekið yfir af stjórnvöldum fyrir hönd „fólksins“. Hlutverk stjórnvalda undir gunnfána sósíalismans er ekki að tryggja réttindi einstaklinga eða standa vörð um réttarríkið, heldur að fara með völdin í nafni „alþýðunnar“.
Saga hefur ekki reynst sósíalismanum hliðholl. Hvert af öðru breytast draumaríkin í martröð almennings – auðlegð verður að örbirgð alþýðunnar. Enn eitt „tilraunaland“ sósíalismans er komið að hruni. Venesúela, sem um miðja síðustu öld var í hópi ríkustu landa heims, er á barmi gjaldþrots. Skortur er á flestum nauðsynjum; mat, neysluvatni, lyfjum og rafmagni. Verðbólga er yfir milljón prósent og einn af hverjum tíu landsmanna hafa flúið land.
Sanntrúaðir sósíalistar á Vesturlöndum kenna öllu öðru en hugmyndafræðinni um hrun samfélagsins í Venesúela. Fall Sovétríkjanna var ekki vegna hugmyndafræðinnar heldur miklu fremur að hugmyndafræðin var ekki „framkvæmd rétt“.
Fyrir hvern milljarð dollara í landsframleiðslu þurftu gömlu Sovétríkin að nota tvisvar sinnum meira af málmum og 23% meira af eldsneyti en Bandaríkin. Þannig leiðir sósíalisminn ekki aðeins til sóunar heldur er hann versti óvinur náttúrunnar. Yfir 25% af vinnuafli í Sovétríkjunum voru í landbúnaði. Hlutfallið var um 3% í Bandaríkjunum. Á sama tíma fluttu Bandaríkin út meira af landbúnaðarafurðum en þau fluttu inn. Sovétríkin neyddust til að flytja inn landbúnaðarvörur og notuðu 30% meira hráefni til að framleiða hvert tonn af matvælum.
Gömul ádeilusaga frá tíma Sovétríkjanna lýsir þessu ágætlega.
Pavel grátbað kommissar kommúnistaflokksins á samyrkjubúinu um að fá sína eigin mjólkurkú. Hann lofaði að með góðri umsjón myndi nytin í kúnni stóraukast. Pavel vildi fá að selja sjálfur helming af því sem kýrin gæfi af sér umfram sett viðmið kommúnistaflokksins. Eftir nokkurn eftirgang fékk Pavel sínu framgengt og hann stóð við sitt. Hann seldi umframmjólkina sjálfur og hafði því efni á ýmsum varningi sem aðrir á samyrkjubúinu gátu ekki leyft sér. Líf fjölskyldunnar batnaði verulega og það olli öfund. Sergey var ekki sáttur og fór á fund kommissarsins og kvartaði fyrir óréttlætinu. Pavel og fjölskylda hans hefði það miklu betra en aðrir. Sergey krafðist þess í nafni sósíalísks réttlætis að kommissarinn leiðrétti þetta ranglæti. „Allt í lagi, þú getur fengið þína eigin kú,“ svaraði kommissarinn. Sergey varð reiður og hreytti út úr sér: „Ég vil ekki mína eigin kú, bjáninn þinn. Ég vil að þú skjótir kúna hans Pavels.“
Verðum að skilja tortryggnina
Það er sótt að hugmyndafræði frjálsra markaðsviðskipta. Sósíalistar virðast hafa fengið byr að nýju í seglin víða á Vesturlöndum sem og popúlískir einangrunar- og þjóðernissinnar sem berjast gegn frjálsum viðskiptum.
Við hægri menn getum haldið áfram að gagnrýni sósíalismann og draga fram jafnt sögulegar sem samtíma staðreyndir. Og um leið lagt til atlögu við öfgafulla einangrunarsinna. Slíkt er nauðsynlegt en dugar skammt. Við þurfum að vera tilbúnir til að verja markaðshagkerfið – kapítalismann sem þrátt fyrir ófullkomleika hefur tryggt aukna velmegun og frelsi til orða og æðis.
Til að ná árangri verðum við að vera tilbúnir til að horfast í augu við kapítalisminn er ekki fullkominn og reyna að skilja þá tortryggni sem gætir í garð markaðsbúskapar. Við getum ekki leyft okkur að skella skollaeyrum við kröfum þeirra sem lægstu launin hafa eða gert lítið úr daglegum áhyggjum þeirra sem berjast við að láta enda ná saman.
Við sem sitjum á Alþingi og erum talsmenn frelsis og takmarkaðra ríkisafskipta, verðum að viðurkenna að á okkar vakt hefur ríkið þanist út. Ekki aðeins í fjölda starfsmanna eða í milljörðum talið, heldur ekki síður með því að mynda frjóan jarðveg fyrir frumskóg reglugerða og laga. Í stað þess að einfalda líf einstaklinga og gera það þægilegra hefur það verið flækt.
Hægt og bítandi hefur hið opinbera orðið leiðandi í launaþróun. Það er búið að hafa endaskipti á hlutunum og rjúfa tengslin milli launa og verðmætasköpunar. Fáir bera ríkari skyldur en þingmenn Sjálfstæðisflokksins að tryggja jafnvægi í samfélaginu og koma í veg fyrir að ríki og ríkisstofnanir taki yfir þróun vinnumarkaðarins. Það á að vera ófrávíkjanleg regla að almenni vinnumarkaðurinn marki stefnuna. Hið opinbera getur fylgt í humátt á eftir.
Illskiljanlegur hrærigrautur
Talsmenn markaðskerfisins gleyma því oft hve nauðsynlegt það er að koma í veg fyrir að venjulegt launafólk beri byrðar vegna hugsanlegra markaðsbresta. Ef tryggja á stuðning við frjálslyndi markaðshyggjunnar verður almenningur að geta treyst því að leikreglurnar séu réttlátar – að þær taki ekki mið af þeim sem best standa eða völdin hafa.
Vandinn er að leikreglurnar – lög og reglur markaðarins eru að verða illskiljanlegur hrærigrautur sem teknókratar hræra reglulega í. Afleiðingin er minna efnahagslegt frelsi venjulegs fólks á sama tíma og hinir sterku njóta. Þvert á það sem margir halda þjóna flóknar reglur ríkisins fyrst og fremst stórfyrirtækjum og öflugum hagsmunasamtökum, en hamla sjálfstæða atvinnurekendanum og launamanninum. Baráttumenn markaðshagkerfisins gleyma of oft því sem Adam Smith varaði við fyrir 243 árum í Auðlegð þjóðanna:
„Fólk, sem stundar sömu atvinnugrein, fer sjaldan hvert á annars fund, jafnvel sér til skemmtunar og afþreyingar, svo að samræður þess endi ekki í samsæri gegn almenningi eða einhverju ráðabruggi um að hækka verð.“
Við þurfum markaðsöflin og samkeppnina til að ýta undir nýjungar, aukna skilvirkni og þar með betri lífskjör. Markaðurinn leysir hugmyndaauðgi og framtakssemi einstaklinga úr læðingi – ekki ríkið. Markaðurinn er besta verkfærið sem við eigum til að gera þjóðfélagið auðugra – bæta lífskjör allra, ekki aðeins fámenns hóps. Þessi einföldu sannindi vefjast fyrir mörgum. Hlutverk okkar, sem berjumst fyrir markaðshagkerfinu, er að auka skilning á eðli frjálsra viðskipta og eyða þeirri tortryggni sem hefur grafið um sig. Það verður ekki gert án þess að horfast í augu við það sem miður fer. Við þurfum að tryggja að athafnamaðurinn njóti eigin hugvits, útsjónarsemi og dugnaðar en um leið búa svo um hnútana að allir, en ekki aðeins hinir stóru og sterku, upplifi velmegun frjálsra markaðsviðskipta.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. mars 2019.