Nokkur orð til hægri manna
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Íslend­ing­ar hefðu seint brot­ist út úr haftaþjóðfé­lagi til vel­meg­un­ar ef hug­mynda­fræði sósí­al­ism­ans hefði fengið að ráða. Op­in­ber inn­flutn­ings­skrif­stofa sem út­deildi inn­flutn­ings­leyf­um hefði lifað góðu lífi og Raf­tækja­versl­un rík­is­ins væri enn starf­andi. Epli, app­el­sín­ur, er­lent sæl­gæti, fjöl­breyti­leg­ur fatnaður og annað sem við göng­um að sem sjálf­sögðum hlut­um, væri litið á sem sóun og munað sem ekki ætti að leyfa nema þá helst á jól­un­um. Al­menn­ing­ur gæti aðeins látið sig dreyma um bíla, mótor­hjól, tölv­ur, snjallsím­ar og ferðalög til annarra landa.

Sósí­al­ist­ar hefðu tryggt að ríkið sæti eitt að ljósvaka­markaðinum – eng­ar frjáls­ar út­varps- eða sjón­varps­stöðvar væru starf­rækt­ar. Gamli rík­is­rekni Lands­s­ím­inn sæti einn að markaðinum með til­heyr­andi fá­breytni og lé­legri þjón­ustu. Nova, Voda­fo­ne? Ekki láta ykk­ur dreyma. Leik- og grunn­skóli und­ir merkj­um Hjalla­stefn­unn­ar væri aðeins til í hug­skoti Mar­grét­ar Pálu Ólafs­dótt­ur. Einka­rekn­ir skól­ar eru eit­ur í bein­um sósí­al­ista. Há­skól­inn í Reykja­vík? Nei takk. Versl­un­ar­skól­inn, Tækni­skól­inn, Ísaks­skóli og Landa­kots­skóli. Ekk­ert rugl. Mennt­un og tæki­færi til mennt­un­ar eiga að vera rík­is­rek­in í fyr­ir­mynd­ar­ríki sósí­al­ista.

Fá­tækt, eymd og mis­rétti

Hug­mynda­fræði sósí­al­ism­ans hef­ur hvergi gengið upp – hvergi staðið und­ir þeim fögru lof­orðum og fyr­ir­heit­um sem gef­in hafa verið og marg­ir heill­ast af. Skipt­ir engu hvort litið er til blóði drif­inn­ar sögu Sov­ét­ríkj­anna sál­ugu, eða þeirr­ar martraðar sem al­menn­ing­ur býr við í dag í Norður-Kór­eu, á Kúbu eða í Venesúela.

Sósí­al­ism­inn lof­ar öll­um vel­meg­un, jafn­rétti og ör­yggi. Hug­mynda­fræðin hef­ur skilað fá­tækt, eymd, mis­rétti og of­beldi. Í nafni jöfnuðar er per­sónu­frelsi tekið yfir af stjórn­völd­um fyr­ir hönd „fólks­ins“. Hlut­verk stjórn­valda und­ir gunn­fána sósí­al­ism­ans er ekki að tryggja rétt­indi ein­stak­linga eða standa vörð um rétt­ar­ríkið, held­ur að fara með völd­in í nafni „alþýðunn­ar“.

Saga hef­ur ekki reynst sósí­al­ism­an­um hliðholl. Hvert af öðru breyt­ast draumarík­in í mar­tröð al­menn­ings – auðlegð verður að ör­birgð alþýðunn­ar. Enn eitt „til­rauna­land“ sósí­al­ism­ans er komið að hruni. Venesúela, sem um miðja síðustu öld var í hópi rík­ustu landa heims, er á barmi gjaldþrots. Skort­ur er á flest­um nauðsynj­um; mat, neyslu­vatni, lyfj­um og raf­magni. Verðbólga er yfir millj­ón pró­sent og einn af hverj­um tíu lands­manna hafa flúið land.

Sann­trúaðir sósí­al­ist­ar á Vest­ur­lönd­um kenna öllu öðru en hug­mynda­fræðinni um hrun sam­fé­lags­ins í Venesúela. Fall Sov­ét­ríkj­anna var ekki vegna hug­mynda­fræðinn­ar held­ur miklu frem­ur að hug­mynda­fræðin var ekki „fram­kvæmd rétt“.

Fyr­ir hvern millj­arð doll­ara í lands­fram­leiðslu þurftu gömlu Sov­ét­rík­in að nota tvisvar sinn­um meira af málm­um og 23% meira af eldsneyti en Banda­rík­in. Þannig leiðir sósí­al­ism­inn ekki aðeins til sóun­ar held­ur er hann versti óvin­ur nátt­úr­unn­ar. Yfir 25% af vinnu­afli í Sov­ét­ríkj­un­um voru í land­búnaði. Hlut­fallið var um 3% í Banda­ríkj­un­um. Á sama tíma fluttu Banda­rík­in út meira af land­búnaðar­af­urðum en þau fluttu inn. Sov­ét­rík­in neydd­ust til að flytja inn land­búnaðar­vör­ur og notuðu 30% meira hrá­efni til að fram­leiða hvert tonn af mat­væl­um.

Göm­ul ádeilu­saga frá tíma Sov­ét­ríkj­anna lýs­ir þessu ágæt­lega.

Pavel grátbað komm­iss­ar komm­ún­ista­flokks­ins á sam­yrkju­bú­inu um að fá sína eig­in mjólk­ur­kú. Hann lofaði að með góðri um­sjón myndi nyt­in í kúnni stór­aukast. Pavel vildi fá að selja sjálf­ur helm­ing af því sem kýr­in gæfi af sér um­fram sett viðmið komm­ún­ista­flokks­ins. Eft­ir nokk­urn eft­ir­gang fékk Pavel sínu fram­gengt og hann stóð við sitt. Hann seldi um­frammjólk­ina sjálf­ur og hafði því efni á ýms­um varn­ingi sem aðrir á sam­yrkju­bú­inu gátu ekki leyft sér. Líf fjöl­skyld­unn­ar batnaði veru­lega og það olli öf­und. Ser­gey var ekki sátt­ur og fór á fund komm­iss­ars­ins og kvartaði fyr­ir órétt­læt­inu. Pavel og fjöl­skylda hans hefði það miklu betra en aðrir. Ser­gey krafðist þess í nafni sósíal­ísks rétt­læt­is að komm­iss­ar­inn leiðrétti þetta rang­læti. „Allt í lagi, þú get­ur fengið þína eig­in kú,“ svaraði komm­iss­ar­inn. Ser­gey varð reiður og hreytti út úr sér: „Ég vil ekki mína eig­in kú, bján­inn þinn. Ég vil að þú skjót­ir kúna hans Pavels.“

Verðum að skilja tor­tryggn­ina

Það er sótt að hug­mynda­fræði frjálsra markaðsviðskipta. Sósí­al­ist­ar virðast hafa fengið byr að nýju í segl­in víða á Vest­ur­lönd­um sem og po­púlí­sk­ir ein­angr­un­ar- og þjóðern­is­sinn­ar sem berj­ast gegn frjáls­um viðskipt­um.

Við hægri menn get­um haldið áfram að gagn­rýni sósí­al­ismann og draga fram jafnt sögu­leg­ar sem sam­tíma staðreynd­ir. Og um leið lagt til at­lögu við öfga­fulla ein­angr­un­ar­sinna. Slíkt er nauðsyn­legt en dug­ar skammt. Við þurf­um að vera til­bún­ir til að verja markaðshag­kerfið – kapí­tal­ismann sem þrátt fyr­ir ófull­kom­leika hef­ur tryggt aukna vel­meg­un og frelsi til orða og æðis.

Til að ná ár­angri verðum við að vera til­bún­ir til að horf­ast í augu við kapí­tal­ism­inn er ekki full­kom­inn og reyna að skilja þá tor­tryggni sem gæt­ir í garð markaðsbú­skap­ar. Við get­um ekki leyft okk­ur að skella skolla­eyr­um við kröf­um þeirra sem lægstu laun­in hafa eða gert lítið úr dag­leg­um áhyggj­um þeirra sem berj­ast við að láta enda ná sam­an.

Við sem sitj­um á Alþingi og erum tals­menn frels­is og tak­markaðra rík­is­af­skipta, verðum að viður­kenna að á okk­ar vakt hef­ur ríkið þan­ist út. Ekki aðeins í fjölda starfs­manna eða í millj­örðum talið, held­ur ekki síður með því að mynda frjó­an jarðveg fyr­ir frum­skóg reglu­gerða og laga. Í stað þess að ein­falda líf ein­stak­linga og gera það þægi­legra hef­ur það verið flækt.

Hægt og bít­andi hef­ur hið op­in­bera orðið leiðandi í launaþróun. Það er búið að hafa enda­skipti á hlut­un­um og rjúfa tengsl­in milli launa og verðmæta­sköp­un­ar. Fáir bera rík­ari skyld­ur en þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins að tryggja jafn­vægi í sam­fé­lag­inu og koma í veg fyr­ir að ríki og rík­is­stofn­an­ir taki yfir þróun vinnu­markaðar­ins. Það á að vera ófrá­víkj­an­leg regla að al­menni vinnu­markaður­inn marki stefn­una. Hið op­in­bera get­ur fylgt í humátt á eft­ir.

Illskilj­an­leg­ur hrærigraut­ur

Tals­menn markaðskerf­is­ins gleyma því oft hve nauðsyn­legt það er að koma í veg fyr­ir að venju­legt launa­fólk beri byrðar vegna hugs­an­legra markaðsbresta. Ef tryggja á stuðning við frjáls­lyndi markaðshyggj­unn­ar verður al­menn­ing­ur að geta treyst því að leik­regl­urn­ar séu rétt­lát­ar – að þær taki ekki mið af þeim sem best standa eða völd­in hafa.

Vand­inn er að leik­regl­urn­ar – lög og regl­ur markaðar­ins eru að verða illskilj­an­leg­ur hrærigraut­ur sem tekn­ó­krat­ar hræra reglu­lega í. Af­leiðing­in er minna efna­hags­legt frelsi venju­legs fólks á sama tíma og hinir sterku njóta. Þvert á það sem marg­ir halda þjóna flókn­ar regl­ur rík­is­ins fyrst og fremst stór­fyr­ir­tækj­um og öfl­ug­um hags­muna­sam­tök­um, en hamla sjálf­stæða at­vinnu­rek­end­an­um og launa­mann­in­um. Bar­áttu­menn markaðshag­kerf­is­ins gleyma of oft því sem Adam Smith varaði við fyr­ir 243 árum í Auðlegð þjóðanna:

„Fólk, sem stund­ar sömu at­vinnu­grein, fer sjald­an hvert á ann­ars fund, jafn­vel sér til skemmt­un­ar og afþrey­ing­ar, svo að sam­ræður þess endi ekki í sam­særi gegn al­menn­ingi eða ein­hverju ráðabruggi um að hækka verð.“

Við þurf­um markaðsöfl­in og sam­keppn­ina til að ýta und­ir nýj­ung­ar, aukna skil­virkni og þar með betri lífs­kjör. Markaður­inn leys­ir hug­mynda­auðgi og fram­taks­semi ein­stak­linga úr læðingi – ekki ríkið. Markaður­inn er besta verk­færið sem við eig­um til að gera þjóðfé­lagið auðugra – bæta lífs­kjör allra, ekki aðeins fá­menns hóps. Þessi ein­földu sann­indi vefjast fyr­ir mörg­um. Hlut­verk okk­ar, sem berj­umst fyr­ir markaðshag­kerf­inu, er að auka skiln­ing á eðli frjálsra viðskipta og eyða þeirri tor­tryggni sem hef­ur grafið um sig. Það verður ekki gert án þess að horf­ast í augu við það sem miður fer. Við þurf­um að tryggja að at­hafnamaður­inn njóti eig­in hug­vits, út­sjón­ar­semi og dugnaðar en um leið búa svo um hnút­ana að all­ir, en ekki aðeins hinir stóru og sterku, upp­lifi vel­meg­un frjálsra markaðsviðskipta.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. mars 2019.