Óli Björn Kárason alþingismaður:
Hægt er að halda því fram að það geti skipt launafólk meira máli hvaða hugmyndafræði sveitarstjórnir vinna eftir við álagningu skatta og gjalda en hvaða stefnu ríkissjóður hefur á hverjum tíma. Útsvarsprósentan skiptir láglaunafólk a.m.k. meira máli en hvað ríkið ákveður að innheimta í tekjuskatt.
Í heild greiðir íslenskt launafólk meira í útsvar en tekjuskatt. Árið 2017 fengu sveitarfélögin nær 193 milljarða í sinn hlut af launatekjum í formi útsvars en ríkissjóður 139 milljarða að teknu tilliti til barna- og vaxtabóta. Lækkun útsvars er því stærra hagsmunamál fyrir flesta en að lækka tekjuskattsprósentu ríkisins.
Launamaður með 300 þúsund krónur í mánaðarlaun greiðir helmingi meira í útsvar en í tekjuskatt til ríkisins ef hann greiðir þá nokkuð, að teknu tilliti til bóta. Þannig hefur skattastefna sveitarfélaga meiri áhrif á ráðstöfunartekjur launafólks en stefna ríkisins í álagningu tekjuskatts. Lagfæringar á tekjuskattskerfi ríkisins bera takmarkaðan árangur gagnvart þeim sem hafa lág laun.
Lægri ráðstöfunartekjur
Samkvæmt lögum getur útsvar orðið hæst 14,52% en lægst 12,44% af tekjum. Í Reykjavík er útsvarsprósentan í hámarki líkt og í 57 öðrum sveitarfélögum. Mikill meirihluti skattgreiðenda þarf að greiða hámarksútsvar og verður að sætta sig við lægri ráðstöfunartekjur en íbúar sveitarfélaga þar sem meiri hófsemdar er gætt. Allt frá árinu 2005 hefur Reykjavík lagt hámarksútsvar á íbúana. Fyrir þann tíma var útsvarið lægra og oft nokkru lægra en vegið meðaltal. Eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem leggur á hámarksútsvar er Reykjavík, en lægst er álagningin á Seltjarnarnesi og í Garðabæ.
Það skiptir venjulegan launamann verulegu máli hvar hann ákveður að halda heimili sitt. Sá sem kemur sér fyrir í sveitarfélagi þar sem lágmarksútsvar er innheimt greiðir sem jafngildir vikulaunum lægra en félagi hans sem er búsettur í Reykjavík, svo dæmi sé tekið.
Á árunum 2016 og 2017 hækkuðu útsvarstekjur sveitarfélaganna að jafnaði um 9,9% að raunvirði á ári. Fasteignaskattar hækkuðu um 8,8%. Í fjármálaáætlun 2019 til 2023 kemur fram að frá því að útsvarsprósentan var hækkuð árið 2011 vegna tilfærslu málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaganna hafi tekjur af útsvari hækkað úr 7,4% af vergri landsframleiðslu í 8,1%. Reiknað er með að tekjurnar haldi áfram að aukast á komandi árum og verði 8,3% af vergri landsframleiðslu árið 2023. Þá er reiknað með að þær verði um 72 milljörðum króna hærri en á síðasta ári.
Frá árinu 2011 til 2018 jukust tekjur sveitarfélaga um 296 milljarða króna á föstu verðlagi, en þar af var 170 milljörðum ráðastafað í aukinn launakostnað eða um 57%. Samkvæmt greiningu Samtaka atvinnulífsins fór 27% af tekjuaukanum í annan rekstrarkostnað.
Reykjavík í kjörstöðu
Ekkert sveitarfélag er í betri stöðu en Reykjavík til að leggja sitt af mörkum þegar kemur að kjarasamningum. Ekki aðeins vegna þess að í höfuðborginni er útsvar í hæstu hæðum, heldur ekki síður vegna eignarhalds á Orkuveitu Reykjavíkur.
Árið 2017 voru skatttekjur Reykjavíkur á hverja fjögurra manna fjölskyldu um 890 þúsund krónum hærri á föstu verðlagi en 2013. Heildartekjur A-hluta borgarsjóðs voru 1,3 milljónum króna hærri á hverja fjölskyldu.
Á föstu verðlagi voru útsvarstekjur í heild liðlega 16 milljörðum hærri og fasteignaskattar 3,5 milljörðum.
Á mánudag kynnti borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins tillögur um lækkun útsvars og lækkun rekstrargjalda heimilanna. Með þessu eigi höfuðborgin að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að greiða fyrir samningum á vinnumarkaði. Það er því ekki tilviljun að sjálfstæðismenn tali um „kjarapakkann“ þegar þeir kynna tillögurnar.
Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka útsvarið úr 14,52% niður í 14%. Árlega skilar lækkunin um 84 þúsund krónum í vasa fjölskyldu með tvo sem fyrirvinnu á meðallaunum. Lagt er til að aðgerðin verði fjármögnuð með bættum innkaupum sem felast í auknu aðhaldi og útboðum á öllum sviðum borgarinnar. Þrátt fyrir þessa lækkun yrði útsvarið í Reykjavík nokkru hærra en það er í Garðabæ og á Seltjarnarnesi.
Þá leggja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að árleg rekstrargjöld heimila verði lækkuð um 36 þúsund krónur með lækkun á hitunarkostnaði, raforkuverði, sorphirðugjaldi og vatnsgjaldi. (Það kemur eflaust einhverjum á óvart að í Reykjavík er hitun húsa dýrari en á Selfossi, Akureyri og Egilsstöðum. Kostnaður við að kynda hús í Reykjavík er 30% hærri en á Egilsstöðum. Í Reykjavík er raforkuverð einnig hærra.) Í tillögunum er lagt til að 13 milljarða áformaðar arðgreiðslur frá fyrirtækjum borgarinnar verði að mestu nýttar til að standa undir lækkuninni
Í tillögu borgarfulltrúanna segir orðrétt:
„Að hverfa frá arðgreiðslum og lækka rekstrargjöld heimila í Reykjavík er pólitísk ákvörðun. Sú ákvörðun mun létta byrðar heimilanna í borginni og auka kaupmáttinn. Samþykki borgin fyrsta og annan lið kjarapakkans mun það jafngilda því að fjölskylda með tvo sem fyrirvinnu á meðallaunum m.v. árið 2017 fái u.þ.b. 200 þúsund í viðbótarlaunagreiðslur á ársgrundvelli. Aðgerðirnar auka ráðstöfunartekjur þessara heimila um 120.000 kr. eftir skatta.“
Áfellisdómur
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins benda á að húsnæðisverð í Reykjavík hafi hækkað um 100% á síðustu átta árum. Þeir halda því fram með réttu að höfuðborgin eigi að vera leiðandi og aðgerðir í húsnæðismálum geti haft mikla þýðingu í kjarasamningum og á lífskjör almennt. Þess vegna eigi borgin að semja við ríkið um kaup á Keldnalandinu án skilyrða um aðrar fjárveitingar ríkisins. Skipulagning Keldnalandsins fyrir stofnanir, fyrirtæki og heimili eigi að hefjast án tafar samhliða stórátaki í vegaframkvæmdum og bættum almenningssamgöngum. Stilla eigi byggingarréttargjöldum í hóf og leggja af svokölluð innviðagjöld. Allt miðar þetta að því að lækka byggingarkostnað.
„Sum geta það, önnur ekki,“ svaraði Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, þegar blaðamaður mbl.is spurði hvort sveitarfélögin ættu almennt að koma með innlegg í kjaraviðræður. Þetta mat Eyþórs er örugglega rétt. Ef niðurstaða meirihluta borgarstjórnar verður hins vegar sú að Reykjavík geti lítið sem ekkert lagt af mörkum til að bæta kjör íbúanna, er það þungur áfellisdómur yfir stjórn og rekstri höfuðborgarinnar síðustu árin.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. mars 2019.