Við stefnum áfram
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Það er hægt að færa mál­efna­leg rök fyr­ir því að þingið eigi að gera sem minnst, hafa sem minnst af­skipti af al­menn­ingi og fyr­ir­tækj­um, setja lítið af lög­um og reglu­gerðum (sem flest hver eru íþyngj­andi) og gæta þess aðeins að sinna nauðsyn­leg­um verk­efn­um. Það er líka hægt að færa mál­efna­leg rök fyr­ir því að þingið eigi að grípa inn í ákveðin atriði, móta stefnu um ákveðin mál, létta byrðum, ein­falda kerfi og þannig mætti áfram telja.

Það er hins veg­ar ein­kenni­legt að lesa skrif þing­manna um að vinna þeirra snú­ist um að gera ekki neitt, þeir nái litl­um ár­angri og að mál­in þeirra fari ekki í gegn­um þingið. Fyr­ir utan það að vera ekki rétt þá er þetta und­ar­legt viðhorf kjör­inna full­trúa til þess hlut­verks sem þeim er ætlað. Það er dá­lítið eins og menn ætli sér að út­skýra fyr­ir­fram skort á dugnaði eða annað ár­ang­urs­leysi. Eitt er ljóst að ár­ang­ur þing­manna er ekki mæld­ur í fjölda fyr­ir­spurna.

Á und­an­förn­um árum hafa mörg þing­manna­mál farið í gegn­um þingið. Um sum þeirra rík­ir póli­tísk sátt en fyr­ir öðrum þurfa þing­menn að berj­ast. Á þessu er all­ur gang­ur eins og eðli­legt er. Frum­varp mitt um breyt­ing­ar á lög­um um nálg­un­ar­bann er á loka­metr­un­um í þing­inu og það mun að öllu óbreyttu verða samþykkt í dag af því að hér er um að ræða mik­il­vægt mál sem þing­menn voru all­ir sam­mála um að af­greiða.

Þeir þing­menn eru til sem verja, eða eyða eft­ir því hvernig á það er litið, megn­inu af starfs­tíma sín­um í það að ætla öðrum illt. Þeir telja alla aðra en sig sjálfa vera spillta, all­ir aðrir en þeir sjálf­ir séu með ann­ar­leg­an til­gang í störf­um sín­um og svo fram­veg­is. Þá er svo sem ekki skrýtið að þeir nái ekki ár­angri í störf­um sín­um, því mark­miðin eru óljós og stefn­an er eng­in. Staðreynd­in er sú að jafn­vel þó svo að stjórn­mála­menn greini á um mörg stefnu­mál er meg­inþorri þeirra að vinna starf sitt af heil­ind­um og í góðum til­gangi.

Mik­il­vægt er fyr­ir stjórn­mála­menn er að hlusta á og skilja fólkið í land­inu. Af þeirri ástæðu hef­ur þing­flokk­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins hafið hring­ferð um landið þar sem al­menn­ing­ur á milliliðalaus sam­skipti við þing­menn og varp­ar fram sjón­ar­miðum sín­um um hin ýmsu mál. Með þau sam­töl í fartesk­inu snúa þing­menn aft­ur til starfa sinna vit­andi hvað það er sem brenn­ur helst á fólki. Þannig höld­um við fókus á þau mál­efni sem skipta raun­veru­lega máli.

Það skipt­ir máli að heyra og skilja hvað brenn­ur á þeim sem reka fyr­ir­tæki, stór og smá, hvort sem er á lands­byggðinni eða á höfuðborg­ar­svæðinu. Það skipt­ir máli að vita hvað brenn­ur á þeim sem búa við skert­ar sam­göng­ur. Það skipt­ir máli að vita hvað það er sem bæt­ir líf fólks, bæði í fé­lags­legu og efna­hags­legu til­liti.

Við hlust­um á fólkið í land­inu. Þess vegna vit­um við hvert við stefn­um, áfram veg­inn og upp á við.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. febrúar 2019.