Kosningabrask
'}}

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi:

Borgarstjórnarmeirihlutinn lætur ekki deigan síga í að sjá sundlaugagestum heitu pottanna fyrir súrrealísku samræðuefni. Eftir að hafa kyrjað Braggablús og haldið pálmasunnudag óvenju snemma í ár varð kosningabrask Dags B. og Samfylkingar næsta Spaugstofa.

Lýðræðisvakning með pólitískri slagsíðu

Þegar leið að kosningum sl. vor, var ljóst að borgaryfirvöld höfðu ákveðið að blása til lýðræðisvakningar, einkum á meðal ungs fólks sem var að öðlast kosningarétt, meðal nýbúa, íbúa með erlent ríkisfang og kvenna sem orðnar eru áttræðar. Þessi lýðræðisvakning fólst í bréfaskriftum frá Reykjavíkurborg til einstaklinga í þessum hópum. Bréfin voru rækilega merkt Reykjavíkurborg og þeim sem bréfin fengu ýmist þakkað fyrir, eða hvött til, að nýta atkvæðisréttinn. Þar var m.a. haldið fram þeim ósannindum að það væri borgaraleg skylda hvers og eins að kjósa. Viðkomandi voru einnig minntir á allt það góða starf og óeigingjörnu þjónustu sem Reykjavíkurborg er stöðugt að láta í té, ekki síst fyrir markhópana. Það hefur líklega ekki hvarflað að bréfriturum að þeir sem ekki hafi grænan grun um kosningarétt sinn, geri enn síður greinarmun á borgarstjóraembættinu og starfsfólki Reykjavíkurborgar, og stjórnmálamanninum Degi B. Eggertssyni.

Lýðræðisvakningin fólst einnig í sms-skeytum til ungs fólks og tilvísun í öllum bréfunum á vefsíðuna „egkys.is“. Sú vefsíða var styrkt af borgaryfirvöldum með fjár- og vinnuframlagi en hún hafði mjög pólitíska slagsíðu. Tvö framboðanna komust ekki á síðuna fyrr en eftir dúk og disk, framboð þáverandi borgarstjórnarmeirihluta og borgarstjóri voru á aðalsíðu en leita varð að öðrum framboðum á undirsíðum með smáu letri.

Þaggað niður í pólitískri bókun

Rétt fyrir kosningar sl. vor varð okkur sjálfstæðismönnum ljóst að þetta verkefni kynni að fara úr böndum. Við vöruðum við því að farið yrði út í sértækar aðgerðir með tiltekna markhópa í huga og ég flutti tillögu í borgarstjórn 15. maí 2018 um að leitað yrði eftir áliti Persónuverndar vegna verkefnisins. Þeirri tillögu var vísað til borgarráðs. Þar bókaði þáverandi borgarfulltrúi, Kjartan Magnússon, um málið 17. maí 2018. Bókuninni var vísað í Trúnaðarbók sem þýddi að leynd ríkti yfir henni og ekki mátti ræða hana fyrr en eftir kosningar.

Klúður á klúður ofan

Persónuvernd er opinber stofnun sem fylgist með lögum, reglum og vinnslu er varða persónuupplýsingar, veitir leiðbeiningar um slíka vinnslu og er umsagnar- og úrskurðaraðili um þau málefni. Það er skemmst frá því að segja að samskipti Reykjavíkurborgar við Persónvernd vegna þessa verkefnis voru með slíkum endemum að Persónvernd sá ástæðu til að hefja frumkvæðisathugun á verkefninu. Í úttekt Persónuverndar segir m.a.: „Bréfin voru með mismunandi hvatningarskilaboðum sem voru gildishlaðin og í einu tilviki röng og voru til þess fallin að hafa áhrif á hegðun þeirra í kosningunum.“

Í ákvörðunarorðum Persónuverndar segir að vinnsla Reykjavíkurborgar og HÍ á persónuupplýsingum um alla markhópana hafi ekki samræmst Persónuverndarlögum. Auk þess telur Persónuvernd ámælisvert að Reykjavíkurborg hafi ekki upplýst stofnunina um alla þætti verkefnisins þrátt fyrir skriflega beiðni þar að lútandi. Persónuvernd sá ástæðu til að vekja athygli dómsmálaráðuneytisins og Umboðsmanns Alþingis á þessu verkefni. Í kjölfarið sendi dómsmálaráðuneytið Reykjavíkurborg bréf þar sem framkvæmd verkefnisins var gagnrýnd en þeirri gagnrýni var ekki sinnt. Allt eru þetta grafalvarlegar ávirðingar á ýmsum stigum verkefnisins og mikill áfellisdómur yfir vinnubrögðum borgarinnar.

,,Ekki benda á mig“

Eitt er að klúðra málum en annað að bregðast við þegar upp kemst um strákinn Tuma. Þar eru borgaryfirvöld alltaf með sömu viðbragðsáætlunina. Byrjað er á því að klippa á öll tengsl klúðursins við sjálfan borgarstjórann, jafnvel þó það kosti töluverða vinnu við að koma tölvupóstum í svarthol. Síðan hverfur borgarstjórinn sporlaust í nokkra daga svo fréttasnápar séu ekki að kvabba á honum út af svona smámálum. Síðan eru samin minnisblöð í gríð og erg vegna ranghugmynda um að þau geti á einhvern hátt hnekkt niðurstöðu réttbærra úrskurðaraðila.

Verkefni borgarstjóra

En hér þarf enga tölvupósta til að sanna hver eigi krógann. Þessi lýðræðisvakning hófst þann 12. október 2017 er Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lagði fram tillögu í borgarráði um að skipaður yrði starfshópur til að gera tillögur að aðgerðum til að auka kosningaþátttöku í sveitarstjórnarkosningunum. Í tillögunni er lagt til að sérstaklega verði hugað að því að auka kosningaþátttöku ungs fólks og fólks af erlendum uppruna. Í kjölfarið tilnefndi Dagur síðan í starfshópinn. Hann tilnefndi sérfræðing af sinni eigin skrifstofu sem varð formaður hópsins, verkefnisstjóra og sérfræðing af Mannréttindaskrifstofu auk verkefnastjóra af skrifstofu borgarstjórnar. Hann átti því frumkvæði að verkefninu, skipaði í starfshópinn og lagði meginlínur þess. Skrifstofa hans og hinar tvær skrifstofurnar, sem allar heyra beint undir borgarstjóra, sáu síðan um framkvæmd verkefnisins.

Það er auðvitað ólíðandi að borgarstjórinn í Reykjavík láti borgarbúa greiða fyrir kosningabæklinga til markhópa sem hann sjálfur ákveður og að hann skipi samstarfs- og undirmenn sína til að sinna slíkum verkefnum. Það er ekki lýðræðisvakning heldur aðför að lýðræðinu í Reykjavík.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 16. febrúar 2019.