Þess vegna erum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins nú að leggja í sameiginlega hringferð um landið, sem standa mun yfir næstu vikur. Við ætlum að heimsækja um 50 bæi og byggðakjarna um allt land, hitta fólk á heimavelli og tala við það um stjórnmálin, atvinnulíf og mannlíf. Í því spjalli er ekkert undanskilið og þar verður bæði horft til þess sem stendur fólki næst og hins sem varðar landið allt.
Það er auðvitað ekki nýtt að fólk eigi greiðan aðgang að þingmönnum sínum, í störfum okkar í þinginu og ráðuneytum hittum við auðvitað ákaflega marga. Þingmenn hafa viðtalstíma og eru duglegir við að sinna kjördæminu með margvíslegum hætti. En betur má ef duga skal, því það er ekki þannig að á þingi séum við, hvert og eitt, aðeins að fást við málefni okkar kjördæmis.
Þrátt fyrir að við séum kjörin á þing fyrir tiltekin kjördæmi, þá erum við oftast að fást við mál, sem varða landið allt. Málefni höfuðborgarsvæðisins varða líka fólk úti á landi, rétt eins og borgarbúana skiptir máli hvað er að gerast á landsbyggðinni. Hagsmunirnir fara, og eiga að fara, saman. Á Alþingi þarf þingmaður úr Reykjavík norður að vita og skilja hvað er á döfinni á Austurlandi og þingmaður Norðvesturkjördæmis þarf að bera skynbragð á málefni Suðurkjördæmis.
Saman til spjalls á heimavelli
Þess vegna ætlum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins að fara öll saman í þessa hringferð um landið og leggja þannig áherslu á að þótt við séum þingmenn einstakra kjördæma, þá erum við líka og ekki síður þingmenn landsins alls.Þannig náum við öll betur saman, fáum betri skilning á því sem er að gerast á hverjum stað og landinu öllu. Það snýr bæði að þörfum og metnaði hvers byggðarlags, en ekki þó síður hvernig það styrkir land og þjóð sem heild. Íslendingar eru og eiga að vera ein þjóð í einu landi, þar sem menn eiga að njóta jafnræðis, jafnréttis og jafnra tækifæra til þess að efla hag sinn og hamingju, óháð búsetu, uppruna og öðrum aðstæðum.
Á næstu dögum munu birtast auglýsingar um hvenær við komum á hvern stað og við viljum hvetja alla til þess að koma, hvort sem þeir nú fylgja Sjálfstæðisflokknum að málum eða ekki. Þetta verða óformlegir spjallfundir, þar sem okkur langar til að sem flestar raddir og ólík sjónarmið komi fram, því til þess er nú leikurinn gerður: Að hitta fólk á heimavelli og ræða það sem skiptir máli.
Höfundar: Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. febrúar 2019.
Nánari upplýsingar um ferðina má finna hér.