Rafrænar þinglýsingar bylting fyrir almenna borgara
'}}

50 milljónir verða settar í undirbúning á innleiðingu á rafrænum þinglýsingum á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem bíður þriðju umræðu á Alþingi.

Rafrænar þinglýsingar hafa verið forgangsmál hjá dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, en hún lagði fram nýtt frumvarp þess efnis í haust. Frumvarpið felur í sér byltingu fyrir hinn almenna borgara en með nýju kerfi verður biðin eftir þinglýsingum stytt niður í nokkur sekúndubrot. Í dag tekur allt að tvær vikur að bíða þinglýsingar hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

„Breytingarnar munu flýta fyrir þinglýsingu skjala enda verður ferlið nánast sjálfkrafa þegar tölvukerfið verður komið í gagnið,“ segir Sigríður í samtali við Fréttablaðið í sumar. „Þannig náum við að draga verulega úr umstangi fólks í kringum þinglýsingar og létta á vinnuálagi hjá sýslumannsembættunum.“

Núverandi þinglýsingakerfi byggir á 40 ára gamalli löggjöf og er kerfið nokkuð seinvirkt, en þinglýsingar eru þó afar mikilvægar enda er skilvirk eignarskráning talin ein mikilvægasta forsenda velmegunar í hverju samfélagi.

Þetta mál hefur verið til umræðu í dómsmálaráðuneytinu í um 10 ár og segir ráðherra að nú þurfi einfaldlega að taka skrefið.

Frumvarpið til breytinga á lögum um þinglýsingar má finna hér, en frumvarpið hefur þegar verið lagt fram á Alþingi og farið í gegnum 1. umræðu. Það er nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd þingsins.