Rétt og rangt um orkupakkann

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfasdóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins:

Fátt er okkur Íslendingum mikilvægara en að standa vörð um sjálfstæði okkar og náttúruauðlindirnar sem við byggjum lífskjör okkar að verulegu leyti á. Það er því eðlilegt að það veki hörð viðbrögð þegar því er haldið fram að ógn steðji að hvoru tveggja í senn, sjálfstæði okkar og auðlindunum.

Margmeðhöndlaður pakki

Þriðji orkupakkinn hefur verið til umfjöllunar hjá stjórnvöldum og Alþingi í allmörg ár. Þáverandi utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson kynnti hann fyrir utanríkismálanefnd Alþingis árið 2014, hratt þar með innleiðingarferlinu af stað og lét ekki reyna á að við yrðum undanþegin viðkomandi tilskipun eða reglugerðum í heild sinni. Þrjár nefndir Alþingis fjölluðu um málið. Á grundvelli þeirrar umfjöllunar ákvað sameiginlega EES-nefndin í fyrra að taka þriðja orkupakkann upp í EES-samninginn.

Á þessu ári hefur aftur á móti komið fram nokkuð hörð gagnrýni á málið, sem ég hef lagt áherslu á að hlusta vandlega á. Ég deili þeirri skoðun margra að ESB hafi stundum gengið nærri því valdaframsali sem við féllumst á með EES-samningnum, þ.e.a.s. tveggja stoða kerfinu. Við verðum að vera á varðbergi gagnvart því, því að enginn annar mun gera það fyrir okkur.

Gagnrýnin á málið felur í sér að fyrrverandi utanríkisráðherra hafi brugðist í hagsmunagæslu fyrir Ísland á þeim upphafsstigum málsins þegar bestu tækifærin voru fyrir hendi til að hafa áhrif á það. En ýmsu er þar haldið fram sem á ekki við rök að styðjast.

Forræði og framsal

Því hefur verið haldið fram að þriðji orkupakkinn feli í sér afsal á forræði yfir auðlindinni. Hið rétta er að hann varðar ekki á nokkurn hátt eignarrétt á orkuauðlindum né hvort þær séu nýttar og í hvaða tilgangi.

Því hefur verið haldið fram að forræði yfir orkumarkaði verði fært til stofnana Evrópusambandsins. Hið rétta er að engin ákvarðanataka gagnvart Íslandi verður færð til stofnana ESB, enda væri það ekki tveggja stoða lausn.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu árið 2014 að innleiðingin „feli í sér framsal sem sé vel afmarkað, á takmörkuðu sviði og fyrisjáanlega ekki verulega íþyngjandi fyrir íslenska aðila“. Utanríkismálanefnd komst að þeirri niðurstöðu árið 2016 að „sú aðlögun sem samið hefur verið um byggir á tveggja stoða kerfi EES-samningsins og er sambærileg því sem samið er um vegna gerða um evrópskt fjármálaeftirlitskerfi“.

Stærsti misskilningurinn

Því hefur verið haldið fram að innleiðingin valdi því að EES-reglur (fjórfrelsið) muni gilda um orkumarkaðinn og þess vegna verði Íslendingar neyddir til að skipta upp Landsvirkjun, einkavæða búta úr henni, jafnvel selja þá til erlendra aðila, auk þess sem markaðslögmálin muni auka líkur á orkuskorti. Fyrirlestrar og blaðagreinar um þessi meintu ósköp hafa ruglað marga í ríminu.

Ekkert af þessu er rétt. Fjórfrelsið gildir nú þegar um íslenska raforkumarkaðinn og því eru allar þessar ályktanir úr lausu lofti gripnar. Markaðsvæðing raforku á grundvelli innri markaðar ESB er nú þegar staðreynd á Íslandi og er með öllu óháð þriðja orkupakkanum.

Sæstrengur – og garðyrkjan

Því hefur verið haldið fram að innleiðingin feli í sér að Íslendingar verði neyddir til að samþykkja sæstreng. Hið rétta er að málið leggur engar skyldur á herðar Íslandi um neitt slíkt. Það er alveg skýrt að Íslendingar ráða því sjálfir hvaða stjórnvald veitir leyfi fyrir streng. Að halda öðru fram er fjarstæðukennt.

Þá hefur því verið haldið fram að garðyrkja muni leggjast af í núverandi mynd vegna þess að innleiðingin muni „án nokkurs vafa leiða til lagningar sæstrengs og hækkunar á raforkuverði“. En forsendan um sæstreng er röng, eins og hér hefur verið rakið.

Ég vil trúa því að hér búi misskilningur að baki fremur en hræðsluáróður.

Skynsamleg markaðsvæðing

Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur frjálsrar samkeppni og studdi þess vegna þá auknu markaðsvæðingu orkugeirans, gagnsæi, neytendavernd og samkeppni sem fólst í fyrsta orkupakkanum fyrir 15 árum. Sá þriðji er rökrétt framhald af þeirri stefnumörkun en hefur hverfandi áhrif á okkur nema við samþykkjum að tengjast Evrópusambandsríki með streng. Það er undir okkur komið.

Fjórfrelsið og evrópskar samkeppnis- og ríkisstyrkjareglur hafa gilt um íslenskan orkumarkað árum saman. Eina leiðin til að losna undan því væri að losna við EES-samninginn. Það er einmitt yfirlýst markmið sumra þeirra sem harðast berjast gegn orkupakkanum. Ég er ósammála því markmiði. Ég tel að við eigum að verja samninginn. Rétt eins og með auðlindirnar þá byggjum við lífskjör okkar á honum að verulegu leyti.

Það blasir við að við höfum ekki þörf fyrir reglugerðir um millilandatengingar við núverandi aðstæður. Þetta hef ég áður sagt. Þess vegna finnst mér alls engin furða að fólk spyrji hvaða þörf sé fyrir þetta mál frá sjónarmiði orkumála. Sú spurning er eðlileg, en þetta mál snýst um stóra samhengið og mikilvæga hagsmuni.

Greinin birtist í Morgunblaðsins 17. nóvember 2018.