Ný hugsun og auknar kröfur til ríkisrekstrar
'}}

Óli Björn Kárason, alþingismaður:

Gangi fjár­laga­frum­varp rík­is­stjórn­ar­inn­ar eft­ir verða út­gjöld rík­is­sjóðs (fyr­ir utan vexti og vara­sjóð) tæp­um 260 millj­örðum hærri að raun­v­irði á kom­andi ári en 2010. Þetta er 48% raun­hækk­un. Það er með ólík­ind­um að þessi mikla aukn­ing út­gjalda hafi ekki valdið kollsteypu í efna­hags­líf­inu. Mér er til efs að nokk­ur þjóð hafi náð að auka út­gjöld með sama hætti en tryggja á sama tíma stöðugt verðlag og yfir 40% hækk­un kaup­mátt­ar launa. Staða rík­is­sjóðs er sterk eft­ir um­fangs­mikla niður­greiðslu skulda.

Þrátt fyr­ir mik­inn vöxt út­gjalda hef­ur af­koma rík­is­sjóðs verið já­kvæð á síðustu árum og í fjár­laga­frum­varpi er gert ráð fyr­ir að af­gang­ur­inn verði um 29 millj­arðar eða 1% af vergri lands­fram­leiðslu. Að þessu leyti er staðan allt önn­ur og betri en þeirra þjóða sem Íslend­ing­ar bera sig gjarn­an sam­an við.

Öllum má vera ljóst að út­gjalda­aukn­ing síðustu ára get­ur ekki haldið áfram. Við keyr­um, fyrr frem­ur en síðar, á vegg. Á kom­andi ári reyn­ir raun­veru­lega á af­komu­mark­mið rík­is­ins og verður það í fyrsta skipti frá því að lög um op­in­ber fjár­mál tóku gildi.

End­ur­skoðun á rekstri rík­is­ins

Útgjalda­bog­inn hef­ur verið spennt­ur og tíma­bil hæg­ari hag­vaxt­ar er að ganga í garð. Í stað út­gjalda­aukn­ing­ar verður ný hugs­un að taka við. Mæli­kv­arði á op­in­bera þjón­ustu get­ur ekki leng­ur verið í krón­um og aur­um. Við stönd­um frammi fyr­ir því verk­efni að end­ur­skoða rekst­ur rík­is­ins – straum­línu­laga hann án þess að draga úr þjón­ust­unni. Við þurf­um að tryggja betri nýt­ingu sam­eig­in­legra fjár­muna og stand­ast þá freist­ingu að reyna að leysa all­an vanda með því að auka út­gjöld­in.

Hin nýja hugs­un krefst þess að kjörn­ir full­trú­ar – í nafni al­menn­ings – geri aukn­ar kröf­ur til for­stöðumanna rík­is­stofn­ana og –rík­is­fyr­ir­tækja um hag­kvæm­an rekst­ur, skil­virka og góða þjón­ustu. Mark­miðið er ekki að draga úr op­in­berri þjón­ustu held­ur þvert á móti auka gæðin. Skýr­ari og aukn­ar kröf­ur tryggja gæði heil­brigðisþjón­ustu, mennt­un­ar og annarr­ar op­in­berr­ar þjón­ustu.

Mik­il hækk­un út­gjalda á síðustu árum ger­ir verk­efnið á marg­an hátt auðveld­ara, ekki síst vegna þess að þokka­lega hef­ur tek­ist að for­gangsraða.

Vel­ferðar­mál í for­gang

Vel­ferðar­mál­in (heil­brigðismál og fé­lags-, hús­næðis- og trygg­inga­mál) hafa verið í for­gangi síðustu ár. Um það get­ur eng­inn gert ágrein­ing nema sá sem deil­ir um all­ar staðreynd­ir. Raun­aukn­ing til vel­ferðar­mála frá ár­inu 2010 til fjár­laga kom­andi árs er 55% eða liðlega 158 millj­arðar króna. Fyr­ir þá fjár­hæð væri hægt að reka alla fram­halds­skóla lands­ins í fimm ár.

Yfir helm­ing­ur út­gjalda rík­is­ins til mál­efna­sviða fer í vel­ferðar­mál eða um 447 millj­arðar á næsta ári. Útgjöld til heil­brigðismála jafn­gilda um 650 þúsund krón­um á hvern Íslend­ing. Til mál­efna aldraðra fara 230 þúsund á hvern íbúa og 181 þúsund í ör­orku­greiðslur í al­manna­trygg­inga­kerf­inu.

Sam­kvæmt fjár­laga­frum­varp­inu verða fram­lög til mál­efna ör­yrkja og fatlaðra um 70 millj­arðar króna. Þetta er um 30 millj­örðum króna hærri fjár­hæð að raun­gildi en 2010 – hækk­un um 75%. Aukn­ing­in á mann er um 1.098 þúsund krón­ur eða 42% og er stuðst við fjölda þeirra sem fá greiðslur ör­orku­líf­eyr­is frá Trygg­inga­stofn­un. Þessi mikla aukn­ing breyt­ir því ekki að trygg­inga­kerfi ör­yrkja er meingallað, órétt­látt og krefst upp­stokk­un­ar, eins og sá er hér skrif­ar hef­ur ít­rekað haldið fram í ræðu og riti.

Fram­lög til mál­efna aldraðra hafa 2,5-fald­ast að raun­gildi frá 2010. Um 49 millj­arða hækk­un er nokkru hærri fjár­hæð en rann til þessa mála­flokks í heild árið 2014. Á kom­andi ári er stefnt að því að fram­lög­in verði liðlega 81 millj­arður króna. Fjölg­un eldri borg­ara skýr­ir þessa miklu hækk­un ekki nema að litlu leyti. Rót­tæk kerf­is­breyt­ing á elli­líf­eyr­is­greiðslum al­manna­trygg­inga sem tók gildi í árs­byrj­un 2017 skipt­ir þar sköp­um.

Á kom­andi ári verða út­gjöld til mál­efna aldraðra um 98% hærri á hvern eldri borg­ara en árið 2010. Þetta er hækk­un um 1.134 þúsund á mann miðað við fjölda þeirra sem eru 67 ára og eldri og fá greiðslur frá Trygg­inga­stofn­un.

Ekki til­vilj­un

For­gangs­röðun rík­is­út­gjalda síðustu ár var og er ekki til­vilj­un. Það var nauðsyn­legt að byggja upp heil­brigðis­kerfið eft­ir áföll í kjöl­far hruns­ins, þar sem skorið var inn að beini. Með sama hætti var brýnt að styrkja hag ör­yrkja og eldri borg­ara sem treysta á greiðslur líf­eyr­is frá al­manna­trygg­ing­um. Verk­inu er ekki lokið.

Stefnt að því að hefja aðra umræðu um fjár­lög á morg­un – fimmtu­dag. Kraf­an um enn meiri út­gjöld mun hljóma. Ekki er ólík­legt að úr ræðustól Alþing­is hljómi full­yrðing um að rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir gangi um með niður­skurðar­hníf­inn á lofti. Staðreynd­ir þvæl­ast ekki fyr­ir öll­um.

Ég ótt­ast að lítt verði hlustað á þá sem vara við og benda á að sú hraða aukn­ing rík­is­út­gjalda sem átt hef­ur sér stað síðustu ár, er ekki sjálf­bær til lengri tíma. Þetta á ekki síst við þegar horft er til þess að skatt­byrði hér á landi, sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu, er ein sú þyngsta í Evr­ópu að teknu til­liti til líf­eyr­is- og al­manna­trygg­inga.

Inni­halds­laus lof­orð um að gera allt fyr­ir alla ókeyp­is eru lík­legri til að ná eyr­um fjöl­miðlunga en hvatn­ing til að draga úr hraðanum og huga að skipu­lagi rík­is­rekstr­ar­ins – gera hann skil­virk­ari og hag­kvæm­ari.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. nóvember 2018.