Óli Björn Kárason, alþingismaður:
Í gegnum söguna hafa margir stjórnmálamenn átt sér þann draum að hægt sé að breyta lögmáli framboðs og eftirspurnar. Í hvert einasta skipti sem stjórnvöld hafa sett verðlagshöft – þak á verð vöru og þjónustu – hefur það leitt til skorts. Framboðið dregst saman en eftirspurn eykst. Í ofstjórnarlöndum sósíalista hefur skorturinn verið leystur með biðröðum og skömmtunum (en alltaf er séð fyrir þörfum yfirstéttarinnar).
Kaldhæðin skilgreining á sósíalisma og markaðsbúskap er einföld: Undir skipulagi sósíalismans þarft þú að bíða eftir brauðinu. Undir skipulagi markaðsbúskapar – frjálsrar samkeppni – bíður brauðið eftir þér.
Fyrir einhverja kann það að vera erfitt að sætta sig við að lögmáli framboðs og eftirspurnar verður ekki breytt í sölum Alþingis með löggjöf. Ekki frekar en þyngdarlögmálinu.
Góður ásetningur – alvarlegar afleiðingar
Ekki skal efast um góðan ásetning þeirra sem telja rétt að setja þak á leigu íbúðarhúsnæðis. Með því vilja þeir standa þétt við bakið á þeim sem lakast standa. Niðurstaðan verður hins vegar þvert á það sem ætlunin er að gera:
- Eigendur leiguhúsnæðis hætta að leigja út, þar sem það svarar ekki kostnaði. – Framboð dregst saman.
- Fjárfestar verða afhuga því að leggja fé í byggingu leiguíbúða. – Framboð verður minna.
- Viðhald íbúða í útleigu situr á hakanum. – Gæðum húsnæðis hrakar.
- Hálaunafólk á leigumarkaði nýtur þess að verðþak sé í gildi á sama tíma og láglaunafólk á í erfiðleikum með að finna hentugar íbúðir. – „Ávinningurinn“ lendir fremur hjá þeim sem betur eru settir en hjá þeim sem verr standa.
- Hreyfanleiki á húsnæðismarkaði minnkar. – Hvatinn til að eignast eigið húsnæði minnkar ekki síst hjá þeim sem hæstu tekjurnar hafa.
Hagfræðinga greinir á um margt en þeir eru þó flestir sammála um eitt: Þak á leiguverð er afleit hugmynd, sem snýst upp í andhverfu sína; dregur úr gæðum íbúðarhúsnæðis, minnkar framboð, ýtir undir eftirspurn og eykur skortinn. En þrátt fyrir þetta eru þeir enn til sem halda að hægt sé að breyta lögmálum framboðs og eftirspurnar.
Alan Blinder, hagfræðiprófessor við Princton-háskóla og fyrrverandi efnahagsráðgjafi Bills Clintons og áður aðstoðarseðlabankastjóri, hefur líklega rétt fyrir sér í því sem hann kallar lögmál Murphys í hagfræði: Hagfræðingar hafa minnst áhrif á þeim sviðum þar sem þeir hafa mesta þekkingu og eru flestir samstiga. Áhrif hagfræðinga eru mest þar sem þeir vita minnst og eru ósammála um flest.
Gegnsýrð umræða
Það hefur lengi verið draumur samfélagsverkfræðinga að breyta þjóðfélaginu. Í framtíðarheimi þeirra heyrir séreignarstefnan sögunni til. Allir eiga að búa í leiguhúsnæði. Opinber umræða um húsnæðismál er gegnsýrð af draumsýn samfélagsverkfræðinganna. Allt miðast við að byggja leiguhúsnæði, koma „skikki“ á leigumarkaðinn, stofna „óhagnaðardrifin leigufélög“ (hvað svo sem það nú þýðir – vonandi ekki að reka eigi þau með tapi), og tryggja aðrar félagslegar lausnir. Það glittir í ríkisrekið leigufélag.
Draumurinn um land leiguliða er martröð almennings. Í nýrri könnun Íbúðalánasjóðs kemur fram að aðeins 8% leigjenda eru á leigumarkaði vegna þess að þeir vilja vera þar og 64% segjast leigja af nauðsyn, ekki löngun. Samkvæmt upplýsingum Íbúðalánasjóðs hafa aldrei jafn fáir verið á leigumarkaði af fúsum og frjálsum vilja.
Húsnæðisöryggi
Að eiga þak yfir höfuðið er ein af grunnþörfum okkar allra. Húsnæðisöryggi skiptir því ekki minna máli en að hafa sæmilega vinnu. Samkvæmt könnun Íbúðalánasjóðs segjast 85% landsmanna búa við húsnæðisöryggi. Þetta er nokkru hærra hlutfall en fyrir ári – 80%. Nær allir húsnæðiseigendur segjast búa við öryggi en 57% leigjenda. Þó hefur þeim leigjendum fjölgað töluvert sem segjast búa við húsnæðisöryggi eða um 12% frá síðasta ári. Að sama skapi hefur þeim leigjendum sem ekki búa við húsnæðisöryggi fækkað úr 37% í 29%.
Með öðrum orðum: Staðan á leigumarkaði hefur batnað, þótt annað megi halda miðað við opinbera umræðu. Þessi staðreynd breytir þó í engu að staða margra er erfið, eftirspurnarþrýstingur á leigumarkaði er mikill og leigjendum hefur fjölgað á síðustu árum. Um 16-18% landsmanna 18 ára og eldri eru á leigumarkaði samkvæmt könnum Íbúðalánasjóðs. Um 35% leigja af einstaklingum á almennum markaði, 22% leigja af ættingjum og vinum, 16% af einkareknu leigufélagi, 12% leigjenda búa á stúdentagörðum og 9% í leiguhúsnæði í eigu sveitarfélags. Aðrir leigjendur leigja meðal annars af félagasamtökum og vinnuveitendum.
Kjörorðið er: Leiga, ekki eign
Öll áhersla í opinberri umræðu er að mæta eftirspurn eftir leiguhúsnæði með því að auka framboð á íbúðum til leigu. Minna fer fyrir hugmyndum um að koma til móts við óskir þeirra sem eru á leigumarkaði: Nær allir vilja eignast sitt eigið húsnæði og auka öryggi sitt og sinna. Aðeins 8% leigjenda búa í leiguhúsnæði vegna þess að þeir vilja það!
Auðvitað hafa ekki allir áhuga á að eignast eigið húsnæði. Af ýmsum ástæðum kjósa sumir fremur að leigja en kaupa og flestir leigja einhvern tíma á ævinni, ekki síst á námsárunum. Hvorki hið opinbera né nokkur annar hefur rétt til þess að neyða þá sem kjósa að leigja til að ráðast í kaup á íbúð. Með sama hætti getur enginn tekið sér það vald að ákveða að beina einstaklingum og fjölskyldum inn á leigumarkaðinn þvert gegn vilja þeirra, með fjárhagslegum þvingunum eða tilbúnum skorti á lóðum og íbúðum. Það er hlutverk ríkis og sveitarfélaga að tryggja raunverulegt valfrelsi í húsnæðismálum.
En þrátt fyrir skýran vilja mikils meirihluta landsmanna, og þá ekki síst þeirra sem nú eru á leigumarkaði, er verið að ryðja braut leigustefnu félagshyggjunnar. Sameiginlega fjármuni borgaranna skal nota til að byggja upp félagslegt íbúðakerfi. Með góðu og illu, fjárhagslegum hvötum og þvingunum, skal almenningi beint inn á leigumarkaðinn. Kjörorðið er: Leiga, ekki eign.
Vegna þessa á séreignarstefnan undir högg að sækja. Og þess vegna er lítið hugað að leiðum til að lækka byggingarkostnað, s.s. með breytingum á byggingarreglugerðum, lækka margvísleg gjöld sveitarfélaga, breyta lögum um neytendalán eða beita nýjum aðferðum við að aðstoða fólk að eignast eigið húsnæði.
Andúðin á séreignarstefnunni er hugmyndafræðilegur grunnur að stefnu Reykjavíkurborgar í skipulagsmálum. Nú er það ekki talin ein grunnskylda borgaryfirvalda að tryggja nægilegt framboð á byggingarlóðum á hagstæðu verði. Með lóðaskorti er verið að breyta samfélaginu – samfélagsverkfræðingarnir hafa tekið völdin.
Draumurinn um land leiguliðanna kann að vera handan við hornið. Kostnaðurinn verður fyrst og síðast borinn af millistéttinni og láglaunafólki. Grafið er undan annarri meginstoð eignamyndunar launafólks – verðmæti eigin húsnæðis.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. nóvember 2018.