Landssamband sjálfstæðiskvenna stendur fyrir fundarröð um heilbrigðismál á næstu vikum. Fjöldi fyrirlesara mun ræða um stöðu og aðgengi, úrræði og lausnir ýmsum málaflokkum.
Fundirnir verða fjórir talsins og þar verður m.a. reynt að svara þeim spurningum hvernig við viljum að heilbrigðiskerfi okkar sé og hvernig það eigi að virka. Hvernig við gerum það mest aðgengilegt fyrir sjúklinga og með það að leiðarljósi að kerfið veiti sem bestu þjónustu.
Þriðjudaginn 9. október munu þau Óli Björn Kárason, alþingismaður og Arna Guðmundsdóttir, lyflæknir og sérfræðingur í efnaskiptasjúkdómum fjalla um heilbrigðiskerfið og sérfræðiþjónustu.
Mánudaginn 15. október munu Gísli Páll Pálsson, forstjóri hjúkrunarheimilisins Markar og Anna Helgadóttir Frost, hagfræðingur fjalla um öldrunarmál.
Þriðjudaginn 23. október munu Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, alþingismaður og Nanna Briem, geðlæknir fjalla um geðheilbrigðismál.
Þriðjudaginn 6. nóvember munu Tryggvi Þorgeirsson, læknir og lýðheilsufræðingur og Kristín Heimisdóttir, tannlæknir, lektor við Háskóla Íslands og stjórnarformaður Lýðheilsusjóðs fjalla um lýðheilsu og forvarnir.
Fundirnir verða í Valhöll og eru öllum opnir. Sjá nánar hér.
Í tilefni af fundarherferðinni skrifaði Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, grein í Morgunblaðið um helgina undir sömu yfirskrift og herferðin:
Heilbrigði er okkar mál
Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna:
Ísland hefur val um að vera í fremstu röð þjóða um heilbrigði eða eftirbátur annarra vestrænna ríkja sem mun orsaka lakari heilsu þjóðarinnar. Hér á landi búum við að sterkum grunni í menntun heilbrigðisstétta og aðstöðu en okkur skortir framtíðarsýn um rekstur og árangur í heilbrigðismálum.
Á skömmum tíma hefur verið leyst farsællega úr erfiðri efnahagsstöðu Íslands, hagur okkar hefur vænkast og þá verður samstundis ákall um aukin fjárframlög. Það þarf hins vegar að svara spurningunni hvort framfarir heilbrigðiskerfisins felist eingöngu í auknum framlögum eða hvort rétt sé að hugsa um nýjar aðferðir með hagræðingu og betri þjónustu að leiðarljósi. Er nauðsynlegt að ríkisvaldið sé rekstraraðili þjónustunnar á sama tíma og það er einnig greiðandi hennar? Ríkisspítali mun ávallt verða til staðar og veita ákveðna þjónustu. Hann er hins vegar ekki alltaf best til þess fallinn að leysa öll verkefni eins og dæmin sanna.
Samkeppni umfram aðgerðarleysi
Stundum er mannauður ríkisspítala einfaldlega of dýr, eins og t.d. þegar sjúklingum er sinnt á bráðadeild sem frekar eiga að sækja þjónustu á heilsugæslu. En opinber heilsugæsla hefur brugðist, biðtími er allt of langur og því leita sjúklingar til dýrustu starfsmanna heilbrigðiskerfisins. Það er ljóst að ef ekki verður gert skörulegt átak til að laga aðgengi að ákveðinni grunnþjónustu eins og t.d. öldrunarþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu og að sérfræðilæknum mun sinnuleysið kosta íslenskt þjóðfélag mikið og þá ekki bara í krónum talið. Það er þungur baggi fyrir samfélagið að bera ef margir hverfa af vinnumarkaði og geta ekki tekið þátt í daglegu lífi. Spurningin er hvort fela beri eingöngu ríkinu að leysa þann vanda eða auka samkeppni og frelsi á markað til að auka aðgengi allra og þar með hag þeirra?
Villan um frelsið
Þá kemur að umræðunni sem vinstra fólk vill aldrei heyra nefnda, samkeppni í heilbrigðismálum. Sú staðreynd að blandaður rekstur sé oft á tíðum heppilegri, hagkvæmari og betri en ríkisrekstur getur ekki staðist í þeirra huga. Fyrir þeim heftir frjáls markaður aðgang eða lokar jafnvel aðgengi að þjónustu. Á meðan þær fullyrðingar dynja yfir okkur horfum við upp á biðlista, dýrari lausnir eins og að senda fólk í aðgerðir erlendis eða eins og áður segir að bráðadeild sinni verkefnum heilsugæslunnar. Kerfið, eins og það er í dag, er einmitt að útiloka aðgengi að grunnþjónustu.
Sjúklingar sem hafa sótt þjónustu einkarekinnna heilbrigðisstofnana um árabil hafa yfir fáu að kvarta, þá allra síst greiðsluþátttöku eða þjónustu. Ef eitthvað er þá vilja þeir meira af slíkum rekstri, t.d. fleiri úrræði á borð við SÁÁ, Domus Medica, Orkuhúsið og einkareknar heilsugæslustöðvar. Væri ríkið að skrúfa frá krananum ef það býður þjónustu út til einkaaðila? Hvort er betra að gera eina aðgerð erlendis eða þrjár á einkarekinni stofu hérlendis fyrir sömu upphæð? Þá er ótalið óhagræðið fyrir sjúklinginn sem þarf að ferðast til útlanda. Kerfið er í dag tvöfalt, annars vegar greiðsluþátttaka ríkis með tilheyrandi biðlista og hins vegar möguleikinn að greiða úr eigin vasa og fá þjónustu strax. Augnsteinaaðgerðir eru dæmi um slíkt og í því felst ójöfnuður, í boði vinstri fólks.
Heilbrigðismálin á oddinn
Það hlýtur að vera markmið og hlutverk heilbrigðiskerfis að vinna á hagkvæman hátt með því að sinna og útskrifa sjúklinga frekar en að raða þeim á biðlista. Ríkið hefur tækin til að stýra aðgengi einfaldlega með greiðsluþátttöku sinni og að gera þá kröfu að læknar útskrifi fólk úr kerfinu. Eru það ekki meðmæli með heilbrigðisþjónustu ef fólk fær meina sinna bót í stað þess að festast og jafnvel týnast í kerfinu?
Við höfum séð það glöggt í háskólasamfélaginu að samkeppni er af hinu góða. Það kallar á auknar kröfur um gæði kennslu, aðstöðu og samkeppni um nemendur sem þjónustuna sækja. Það sem mestu skiptir er að allir hafa aðgang og frelsi til að velja. Það gilda engin önnur lögmál í heilbrigðiskerfinu. Ísland á að vera í forystu um framfarir í heilbrigðisþjónustu. Við höfum allt til brunns að bera annað en að standa eingöngu vörð um opinberan rekstur. Við eigum að vera kerfið sem aðrir líta til og vilja læra af.
Landssamband sjálfstæðiskvenna stendur fyrir fundaröð um heilbrigðismál í október þar sem rætt verður um núverandi stöðu og horft til þess hvernig má efla heilbrigði öllum til heilla. Við hvetjum alla áhugasama til að mæta á fundarröð sambandsins. Heilbrigði er okkar mál og fyrir því á Sjálfstæðisflokkurinn að tala.
Greinin var fyrst birt í Morgunblaðinu 6. október 2018