„Við eigum öll að geta fundið okkur stað í tilverunni í Reykjavík“ Þannig er yfirskrift samkomulags þeirra fjögurra flokka sem eru við völd í borginni. Margir hafa misst sinn stað á síðustu árum. Jafnvel í bókstaflegri merkingu. Heimilislausum hefur fjölgað á síðustu árum á sama tíma og leiguverð hefur snarhækkað. Utangarðsfólki hefur fjölgað um 95% frá 2012-2017. „Við eigum öll að geta fundið okkur stað í tilverunni í Reykjavík“. Ungt fólk dvelur lengur heima en það kýs. Aldrei hafa fleiri flutt annað í góðæri. Engin þétting íbúabyggðar hefur átt sér stað í reynd þar sem Reykvíkingar flytja í önnur sveitarfélög vegna húsnæðisverðs.
Má ekki benda á það sem er að?
Í ríkisútvarpinu talar borgarstjóri um; „upphlaup eða hávaði eða óróa“ okkar í stjórnarandstöðunni sem höfum bent á þennan brýna vanda og segir að umræðan snúist um „einhver formsatriði og svona týpískar lýðskrumslegar upphrópanir“. Hvað meinar borgarstjóri með því? Er staða húsnæðislausra formsatriði? Eru tillögur um úrræði fyrir húsnæðislausa „lýðskrumslegar upphrópanir“? Eða er óþarfi, að hans mati, að ræða um málefni húsnæðislausra? Er það bara „upphlaup“? Tillögur Sjálfstæðisflokksins um að skipuleggja húsnæði á hagstæðum svæðum er málefnalegt innlegg sem var lagt fyrir fyrsta fund borgarstjórnar. Hvort flokkast slík tillaga um að þúsundir íbúða á hagstæðum og skynsamlegum svæðum undir „formsatriði“ eða „svona týpískar lýðskrumlegar upphrópanir“ að mati borgarstjórans?
Hvað um skólamálin?
Í vor var foreldrum barna í borginni lofað leikskólaplássum frá 12 mánaða, en samt fá ekki öll 18 mánaða börn pláss. Hvernig rímar þetta? Mannekla er á frístundaheimilum borgarinnar en fólki sagt að „ástandið hafi batnað“. Það er ekki góð lenska að bæta böl með því að benda á annað verra.Foreldrum 18 mánaða barna var lofað leikskólaplássi árið 2002 sama ár og Dagur B. Eggertsson tók sæti í borgarstjórn. Síðan eru liðin 16 ár. Og nú eru fjögur ár framundan.
Börn hafa mismunandi þarfir en einmitt þess vegna er sveigjanleiki svo mikilvægur. Og þess vegna eru sjálfstæðir skólar lykilatriði. Koma þarf til móts við þarfir barna með sérþarfir, líka þau sem skara fram úr. Þetta er sérstaklega mikilvægt á tölvuöld. Barn sem hefur nám í dag útskrifast tuttugu árum síðar. Hvernig búum við börnin okkar undir árið 2038? Hvernig undirbýr borgin börnin undir þær breytingar sem eru fyrirséðar?
Börn af erlendum uppruna eru yfir 10%. Samkvæmt PISA er mesti munur í OECD á milli barna á Íslandi. Útkoma þeirra er fjórðungi lakari en barna innfæddra. Í þessu fær borgin falleiknum. Já; „við eigum öll að geta fundið okkur stað í tilverunni í Reykjavík“.
Greinin biritist í Morgunblaðinu 6. september 2018.