Öflugara heilbrigðiskerfi með einkaaðilum
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og ritari Sjálfstæðisflokksins:

Á meðan heil­brigðis­kerfið er einn mik­il­væg­ast þátt­ur mann­lífs­ins hér á landi er það um leið eitt stærsta bit­bein póli­tískra átaka. Öll erum við sam­mála um að vilja gott og öfl­ugt heilbrigðis­kerfi en okk­ur grein­ir á um hvernig kerfið á að vera upp­byggt, hver á að veita þjón­ust­una og svo er það auðvitað hug­lægt mat hvenær heil­brigðis­kerfið nær þeirri stöðu að vera það gott að hægt sé að una því hvernig það er upp­byggt. Líklega kom­um við aldrei að þeim tíma­punkti að lyfta upp þum­al­fingri og segja að nú sé kerfið orðið full­komið. Líkt og svo marg­ir aðrir þætt­ir þró­ast heil­brigðis­kerfið með tím­an­um, m.a. vegna tækni­breyt­inga og annarra lýðheilsuþátta. Við lifum leng­ur, nýir sjúk­dóm­ar gera vart við sig á meðan aðrir líða und­ir lok og þannig mætti áfram telja.

Til ein­föld­un­ar mætti skipta heil­brigðis­kerf­inu upp í tvo þætti, ann­ars veg­ar aðgengi að heil­brigðisþjón­ustu og hins veg­ar veit­ingu þjón­ust­unn­ar. Um það verður ekki deilt að all­ir eigi að hafa aðgengi að heil­brigðisþjón­ustu, óháð efna­hag eða öðrum sam­fé­lags­leg­um þátt­um. Þó að vissu­lega megi finna van­kanta þá er mér óhætt að full­yrða að heilt yfir litið hef­ur okk­ur tek­ist vel í því að tryggja aðgengi að heil­brigðisþjón­ustu. Það eru helst land­fræðileg­ar aðstæður sem tor­velda það aðgengi. Úr því má bæta og við þurf­um að tryggja betra aðgengi landsbyggðar­inn­ar að öfl­ugri þjón­ustu. Hluti af þeirri lausn ætti að vera að efla fjar­heil­brigðisþjón­ustu þar sem þess gefst kost­ur.

Sam­hliða aðgengi að þjón­ust­unni erum við nokkuð sam­mála um að ríkið greiði meg­inþorra þjón­ust­unn­ar, líkt og það ger­ir nú þegar. Það er hins veg­ar frek­ar deilt um það hver á að veita þá þjón­ustu sem lands­mönn­um stend­ur til boða. Það verður ekki séð með góðum rök­um að ríkið eigi eitt að veita þá þjón­ustu. Við höf­um nú þegar góða reynslu af rekstri og þjón­ustu einkaaðila í heil­brigðis­kerf­inu, t.d. Í öldrun­ar­mál­um og í rekstri einka­rek­inna heilsu­gæslu­stöðva. Þessa reynslu eig­um við að nýta til að gera kerfið enn öfl­ugra.

Síðastliðið ár hef­ur mikið verið rætt um kostnað við liðskiptaaðgerðir þar sem við erum að senda lands­menn til Svíþjóðar í liðskiptaaðgerðir í stað þess að gera samn­ing við einka­rekn­ar skurðstof­ur hér á landi. Að senda sjúk­ling til Svíþjóðar í aðgerð er tvö­falt dýr­ara fyr­ir utan allt það rask sem fylg­ir ferðalag­inu. Með öðrum orðum, þjón­ust­an er hvort tveggja í senn dýr­ari fyr­ir ríkið og verri fyr­ir sjúk­ling­inn. Það get­ur ekki verið póli­tískt mark­mið að bjóða upp á lé­lega þjónustu í nafni þess að ríkið eigi eitt að veita heil­brigðisþjón­ustu.

Við þurf­um að vera opin fyr­ir því að hugsa hlut­ina upp á nýtt, líka þegar kem­ur að heil­brigðis­kerf­inu. Mark­miðið hlýt­ur að vera að bjóða upp á góða og um leið hag­kvæma þjón­ustu. Það verður ekki gert með ríkið eitt beggja meg­in borðsins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. júlí 2018.