Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Flestir ef ekki allir segjast styðja frjálsa fjölmiðlun. Þeir eru að minnsta kosti fáir stjórnmálamennirnir sem ekki hafa strengt þess heit að standa vörð um frelsi fjölmiðla – lagt áherslu á að frjáls fjölmiðlun sé ein grunnstoð frelsis og lýðræðis. Þeir eru hins vegar í minnihluta sem benda á þá mótsögn sem felst í því að berjast fyrir sjálfstæðum fjölmiðlum og standa vörð um ríkisrekna miðlun frétta og upplýsinga.
Í gegnum árin hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðum á Alþingi um stöðu fjölmiðla og ekki síst umræðum um fjárlög og Ríkisútvarpið. Af og til er lýst yfir áhyggjum af stöðu frjálsra fjölmiðla, en þær áhyggjur hafa aldrei rofið skarð í varnarmúrinn sem byggður hefur verið um ríkisrekstur fjölmiðla. Fáar ef nokkrar stofnanir eru kærari í hugum meirihluta þingmanna en Ríkisútvarpið.
Ríkisútvarpið hefur notið þess að vera í mjúkum og hlýjum faðmi stjórnmálamanna. Á sama tíma og frjálsir fjölmiðlar berjast flestir í bökkum hefur fjárhagslegur hagur Ríkisútvarpsins stöðugt vænkast og dagskrárvaldið orðið öflugra. Nú er svo komið að fáir stjórnmálamenn treysta sér að fara gegn ægivaldi ríkisrekinnar fjölmiðlunar. Þess vegna er leikreglunum ekki breytt til að jafna stöðuna. Stjórnmálamaður sem berst fyrir breytingum veit hversu auðvelt það er að taka gagnrýnendur út af sakramentinu og takmarka aðgang þeirra að ljósvaka ríkisins.
Listamenn og sjálfstæðir dagskrár- og kvikmyndagerðarmenn, sem öðrum fremur ættu að vera gagnrýnendur valdsins, hafa flestir valið þögnina eða tekið varðstöðu með ríkisrekstrinum. Velvilji í Efstaleiti getur skipt sköpum fyrir þá sem þurfa að koma verkum sínum á framfæri. Þá er best að styggja ekki valdið.
Afleiðing þessa alls er lítil umræða og sinnuleysi gagnvart því hvort þeim gríðarlegu fjármunum sem eiga að renna á hverju ári til að efla listir og menningu sé vel varið. Þó eru helstu rökin fyrir tilvist Ríkisútvarpsins mikilvægt hlutverk þess að styðja við sögu lands og þjóðar, menningu og listir. Þegar pólitíska markmiðið er fyrst og síðast að tryggja öfluga skjaldborg um Efstaleiti, skiptir meðferð þeirra milljarða sem skattgreiðendur láta af hendi á hverju ári ekki mestu.
Strandhögg ríkisins
Um það verður ekki deilt að staða Ríkisútvarpsins er sterk. Á liðnu ári fékk stofnunin liðlega 4,1 milljarð króna frá skattgreiðendum í formi útvarpsgjalds og 2,3 milljarða í tekjur af auglýsingum. Heildartekjur voru því rúmlega 6,4 milljarðar króna.
Á sama tíma og fjárhagslegur styrkur Ríkisútvarpsins hefur aukist hefur staða sjálfstæðra fjölmiðla verið að veikjast. Hækkun virðisaukaskatts á áskriftir blaða og tímarita úr 7% í 11% í ársbyrjun 2015 var þungt högg – ég hef líkt hækkuninni við strandhögg ríkisins í rekstur frjálsra fjölmiðla. Lögþvingaðar áskriftartekjur – útvarpsgjald – Ríkisútvarpsins – bera ekki virðisauka. Enginn getur sagt upp áskrift að ríkisrekinni fjölmiðlun, en allir eru frjálsir að eiga viðskipti við einkarekna fjölmiðla.
Á sama tíma og samkeppnisstaðan var skekkt enn frekar með skattlagningu áskrifta hafa sjálfstæðir fjölmiðlar þurft að glíma við aukna samkeppni við erlenda aðila; Facebook, Google og aðrir net- og samfélagsmiðlar sækja inn á auglýsingamarkaðinn.
Frjáls fjölmiðlun á Íslandi stendur höllum fæti. Frammi fyrir forréttindum ríkisrekins fjölmiðils og afli alþjóðlegra stórfyrirtækja mega sjálfstæðir íslenskir fjölmiðlar sín lítils. Ekki síst þess vegna hef ég dáðst að þeim einstaklingum sem hafa haslað sér völl í fjölmiðlun og lagt allt sitt undir í ójöfnum leik. Skiptir engu þótt mér falli ekki allt í geð sem þar er gert. Frjálsir fjölmiðlar eru forsenda opinnar lýðræðislegrar umræðu og veita nauðsynlegt aðhald stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnnum samfélagsins.
Leikreglurnar eru óréttlátar
Á síðustu dögum hafa forráðamenn sjálfstæðra ljósvakamiðla komið fram og gagnrýnt Ríkisútvarpið fyrir að nýta sér yfirburðastöðu á markaði með því að „ryksuga upp“ allt auglýsingafé í tengslum við HM í knattspyrnu. Útvarpsstjóri hefur svarað og haldið því fram að farið sé að öllum leikreglum. Engin ástæða er til að efast um staðhæfingu útvarpsstjóra. Vandinn er sá að leikreglurnar eru óréttlátar – hygla þeim sterka sem lifir góðu lífi í krafti lögverndaðrar stöðu á meðan aðrir þurfa að sætta sig við brauðmola sem falla af borði forréttinda.
Í stað þess að ráðast að rót vandans – sem er forréttindi ríkisrekinnar fjölmiðlunar – virðast stjórnvöld fremur ætla að velja flókið kerfi millifærslna og ríkisstyrkja (þrátt fyrir ömurlega reynslu okkar Íslendinga). Í Morgunblaðinu síðastliðinn mánudag er haft eftir menntamálaráðherra að verið sé að skoða stofnun fjölmiðlasjóðs sem styrki gerð menningar- og fréttaefnis, blaðamannasjóðs sem styrki rannsóknarverkefni óháð miðlum og dreifbýlissjóðs fyrir miðla í dreifbýli. Þá kemur einnig til greina að innleiða þróunar- og nýsköpunarstyrki og beina rekstrarstyrki.
Galin hugmynd
Fátt er hættulegra fyrir frjálsa fjölmiðlun en að vera háð opinberum styrkjum og nefndum á vegum hins opinbera sem skammta úr hnefa fjármuni til að standa undir einstökum þáttum í rekstrinum. Fjölmiðlun sem er háð hinu opinbera með beinum hætti verður aldrei frjáls nema í orði.
Ég hef ekki lagt það í vana minn að nota stóryrði en nauðsyn brýtur regluna. Það er galin hugmynd að reyna að stuðla að frjálsri og óháðri fjölmiðlun með umfangsmiklum millifærslum og ríkisstyrkjum. Verst er að með millifærslum og styrkjum er í raun verið að réttlæta ranglætið á fjölmiðlamarkaði og komast þannig hjá því að fjarlæga meinið sjálft.
Undir lok síðasta árs vakti ég, einu sinni sem oftar, athygli á erfiðri stöðu sjálfstæðra fjölmiðla. Í vikulegum pistli hér á síðum Morgunblaðsins hélt ég því fram að stjórnmálamenn ættu að plægja jarðveginn fyrir fjölbreytta flóru fjölmiðla enda tryggi ekkert betur að réttar upplýsingar séu dregnar fram og að ólík sjónarmið fái að heyrast. Engin töfralausn sé til en því miður séu engar líkur á því að pólitísk samstaða náist um að draga ríkið út úr fjölmiðla- og afþreyingarrekstri. Leikreglunum verði því ekki breytt að þessu leyti.
Það er hins vegar gleðilegt að menntamálaráðherra virðist ætla að vinna að því að draga Ríkisútvarpið út af samkeppnismarkaði að einu leyti; samkeppni um auglýsingar. Auðvitað mun það skipta miklu ef bönd eru sett á ríkisfyrirtæki á samkeppnismarkaði en það er hægt að jafna leikinn meira og styðja við sjálfstæða fjölmiðla, ýta undir fjölbreytileikann og byggja undir frjálsa miðlun upplýsinga:
„Afnám virðisaukaskatts af áskriftum prent-, ljósvaka- og netmiðla getur orðið mikilvægt skref í átt að því að styrkja rekstur sjálfstæðra fjölmiðla. Og um leið leiðrétta – þó ekki sé nema að litlu leyti – stöðuna gagnvart Ríkisútvarpinu. Afnám virðisaukaskattsins væri ekki aðeins viðurkenning á mikilvægi frjálsra fjölmiðla heldur einnig yfirlýsing um nauðsyn þess að leiðrétta lítillega samkeppnisstöðu á fjölmiðlamarkaði – gera hana örlítið sanngjarnari og heilbrigðari.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. júní 2018