Að ganga inn í framtíðina
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og ritari Sjálfstæðisflokksins:

Um þess­ar mund­ir ganga glaðir stúd­ent­ar út í lífið full­ir til­hlökk­un­ar eft­ir fjölda ára í námi. Þeirra bíður nú að taka ákvörðun um hvort leggja eigi stund á frek­ara nám, hvort tími sé kom­inn til að sækja út á vinnu­markaðinn af full­um krafti eða jafn­vel leggja land und­ir fót, fá reynslu og upp­lif­un úr öðrum menn­ing­ar­heim­um.

Flest ungt fólk er að eðlis­fari bjart­sýnt. Það hef­ur vænt­ing­ar um framtíðina, að það fái að njóta góðra lífs­kjara og því bjóðist tæki­færi á vinnu­markaði þar sem þau geta nýtt mennt­un sína, virkjað hæfi­leika, metnað og áhuga.

Ungt fólk á að gera rík­ar kröf­ur til okk­ar sem sitj­um á Alþingi. Við þurf­um að tryggja frjó­an jarðveg til framtíðar og að val­frelsi til orða og at­hafna sé tryggt. Það er stórt verk­efni að marka stefnu um hvernig við búum ungt fólk und­ir það að mæta kröfum framtíðar­inn­ar. Há­skóla­menntuðum einstakling­um hef­ur fjölgað hratt en á sama tíma þarf sér­hæfðum störf­um að fjölga bæði á almennum og op­in­ber­um vinnu­markaði svo að ábati mennt­un­ar­inn­ar minnki ekki.

Það er ekki hlut­verk stjórn­valda að skapa störf, en það er hlut­verk stjórn­valda að haga mál­um þannig að um­gjörðin hér á landi ýti und­ir að hug­vit og nýsköp­un­ar­starf­semi blómstri. Það eru göm­ul sann­indi og ný að frum­kvöðull­inn er drif­kraft­ur fram­fara og bættra lífs­kjara. Hann kem­ur auga á tæki­fær­in, býður upp á nýja vöru og þjón­ustu, skap­ar ný störf og eyk­ur þannig lífs­gæði samferðamanna sinna. Sprota­fyr­ir­tæki eru aflvak­ar fram­fara og breyt­inga. Þau mynda far­veg frjórr­ar hugs­un­ar og nýrra aðferða. Mennta­kerfið þarf að mæta kröf­um framtíðar og ýta þannig und­ir sjálfstæði og hugs­un­ar­hátt frum­kvöðla.

Það er ein skylda stjórn­mála­manna að tryggja að rík­is­valdið setji ekki bönd á ungt fram­taks­samt fólk. Á þetta legg­ur rík­is­stjórn­in mikla áherslu, meðal ann­ars með af­námi þaks á end­ur­greiðslum vegna rann­sókna og þró­un­ar. Með því hætt­um við að senda þau skila­boð að ný­sköp­un eigi sér ein­ung­is stað í litl­um fyr­ir­tækj­um, hug­vit og ný­sköp­un á sér jafn mik­il­væg­an sess í stærri og rót­sett­um fyrirtækj­um.

Nú er einnig verið að setja á fót starfs­hóp um nýsköp­un­ar­stefnu með það að mark­miði að efla nýsköp­un í op­in­ber­um rekstri og ein­falda reglu­verk. Það mun meðal ann­ars hjálpa til við efl­ingu innviða sem verða sí­fellt dýr­ari ef aldrei er horft til meiri hag­kvæmni í rekstri.

Með þessu erum við að stíga mik­il­væg skref til að bæta enn frek­ar lífs­kjör al­menn­ings, byggja upp fjöl­breytt­ara sam­fé­lag, með sér­hæfðum störf­um. Við erum að byggja upp sam­fé­lag fjöl­breyti­leik­ans til að tryggja ungu fólki val­frelsi og góð lífs­kjör. Við erum með öðrum orðum að sinna því verk­efni sem okk­ur er falið, að móta jarðveg­inn þannig að ungt fólk geti horft með björt­um aug­um til framtíðar

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júní 2018.