Sannleikurinn um Sundabraut
'}}

Jón Gunnarsson, alþingismaður og fyrrverandi samgönguráðherra:

Hafa skal það sem sannara reynist er ekki máltæki sem borgarstjóra er efst í huga þegar hann ræðir um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Í raun er það átakanlegt hve létt hann fer með að afvegaleiða umræðuna og staðreyndir þessa mikilvæga máls. Tökum orð hans um Sundabraut til dæmis, en ekki er deilt um að hún sé mjög mikilvæg lausn í þeim samgönguvanda sem við okkur blasir á höfuðborgarsvæðinu. Um Ártúnsbrekku fara daglega ná- lægt 100.000 farartæki og erfitt er að bæta flæðið um hana svo neinu nemi. Sundabraut mun líklega létta á þeirri umferð um allt að 30.000 ökutæki á dag.

Viðtal við Dag B. Eggertsson í fréttum í liðinni viku var hreint með ólíkindum, en þar sagði hann m.a. að stefna borgarinnar varð- andi Sundabraut hefði verið skýr síðastliðin 10 ár. Fyrir sex árum gerði þessi sami borgarstjóri nefnilega samning við ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar um að framkvæmdastopp í samgöngumálum yrði á meðan það fjármagn sem til ráðstöfunar yrði væri nýtt í eflingu almenningssamgangna. Það verkefni hefur reynst íbúum höfuðborgarinnar dýrkeypt, árangurinn af verkefninu enginn, en aðrar mikilvægar framkvæmdir svo sem mislæg gatnamót við Bústaðaveg setið á hakanum.

Vegagerðin hefur ávallt haft heildarhagsmuni höfuðborgarsvæðisins í huga, varðandi legu og útfærslu Sundabrautar, gætt þess að umferðarspár taki til höfuðborgarsvæðisins alls, heildarakstur metinn, að kostnaður hinna ólíku kosta sé áætlaður á sambærilegan hátt o.s.frv. Niðurstaðan var sú að velja skyldi innri leið Sundabrautar, m.a. vegna þess að með henni verður til beinn ás í gegnum höfuðborgarsvæðið, lausn sem best hentar sem flestum vegfarendum í borginni. Þá óskaði borgarstjórn hins vegar eftir nánari athugun á jarðgangaleiðum og lagði Vegagerðin mikla vinnu, tíma og fjármuni í það en niðurstaðan var eftir sem áður sú sama, að innri leið væri sú hagkvæmasta.

Skipulagsstofnun samþykkti bæði innri og ytri leið með ákveðnum skilyrðum sem m.a. taka til samráðs við íbúa um útfærslu hljóðvarna. Á þessi skilyrði hefur ekki reynt vegna viljaleysis borgarinnar. Ytri leiðin sem Reykjavíkurborg vill fara verður miklu dýrari í allri framkvæmd og útilokar nánast að skipta verkinu upp í hagkvæma áfanga, sem aftur er vel mögulegt með því að fara innri leiðina.

Vegagerðin hefur ítrekað gert athugasemdir við vinnubrögð Reykjavíkurborgar vegna Sundabrautar, t.d. við skipulagsvinnu og ákvörðun um að hefja byggingaframkvæmdir á fyrirhuguðu vegstæði, þar sem beinlínis er verið að leggja steina í götu Sundabrautar. Nú er það svo að sveitarstjórn má auðvitað velja dýrari kost við gerð aðalskipulags en Vegagerðin leggur til, en þarf þá að greiða viðbótarkostnaðinn sjálf. Hann nemur um 10.000 milljónum króna á verðlagi ársins 2017, sem reykvískir útsvarsgreiðendur þurfa að bera.

Þetta er hin skýra stefna borgarstjóra undanfarin 10 ár: að setja framkvæmdastopp í samgöngumálum, þæfa og tefja Sundabrautina með jarðgangahugmyndum og ákveða svo – án samráðs við Vegagerðina – vegstæði sem er í öllu tilliti miklu dýrara.

Það er ekkert að því að borgarstjóri hafi eigin hugmyndir um lausnir á umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins, en ég geri þá kröfu til hans og annarra að þeir standi þá með sínum hugmyndum en reyni ekki að afvegaleiða umræðuna eins og augljóslega er verið að reyna að gera.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. maí 2018.