Útsvar lækkað í Reykjavík og Sundabraut á dagskrá
'}}

Útsvarsprósentan í Reykjavík verður lækkuð í 13,98% í fjórum þrepum á næstu fjórum árum komist Sjálfstæðisflokkurinn í meirihluta í borgarstjórn.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins og Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, boðuðu til í Mars­hall-hús­inu á Granda í dag.

Í dag er Reykjavík með hæsta leyfilega útsvar á landinu, eða 14,52%. Með þessu hækka útborguð laun borgarbúa og íbúar borgarinnar geta sjálfir ákveðið hvernig mismuninum er varið.

Greiðari samgöngur

Sjálfstæðisflokkurinn vill Sundabraut aftur á samgönguáætlun og vill vinna að hagkvæmustu útfærslu með Vegagerðinni. Þá telur flokkurinn rétt að skoða möguleika á einkaframkvæmd til að flýta fyrir verkefninu.

Á fundi Bjarna og Eyþórs kom einnig fram að flokkurinn vill fækka ljósstýrðum gatnamótum í Reykjavík og greiða þannig leið fólks um borgina. Þetta gagnast jafnt almenningssamgöngum og þeim sem ferðast um að eigin bíl.

Fram kom að brýnast er að ráðast í úrbætur á gatnamótum við Bústaðaveg, Kringlumýrabraut, Háaleitisbraut og Grensásveg en þau eru á meðal hættulegustu gatnamóta á Íslandi.

Flokkurinn vill einnig stytta ferðatíma strætó með sérakgreinum þannig að borgarbúar geti haft raunverulegt val um að ferðast með almenningssamgöngum.

Þá var á fundinum kynnt sú hugmynd að fara í tilraunaverkefni sem hvetji til samflots á sérakgreinum þannig að þeir sem ferðist saman þrír eða fleiri megi nota sérakgreinar.

Uppbygging á Keldum verði að veruleika.

Sjálfstæðisflokkurinn vill að landsvæðið við Keldur sem er rúmlega 100 hektarar og nú í eigu ríkisins verði byggt upp. Þar verði í bland byggðar upp íbúðir, atvinnustarfsemi og stofnunum fengnar þar lóðir.

Með þessu gefst fleirum tækifæri á að búa og starfa austarlega í borginni, umferð jafnast á álagstímum og betra jafnvægi næst í skipulag borgarinnar.