Anna Sigríður Jóhannesdóttir, 3. sæti í Reykjanesbæ, Jónína Birgisdóttir, 11. sæti í Reykjanesbæ og Birgitta Birgisdóttir, 17. sæti í Reykjanesbæ :
Fátt er eins dýrmætt og góð heilsa, hún hefur veruleg áhrif á lífsgæði okkar og vellíðan almennt. Ef við höfum ekki heilsuna getum við ekki notið lífsins til fullnustu og ef okkur líður illa þá höfum við síður þrek til að sinna þeim verkum sem við þurfum.
Reykjanesbær tók það skref að verða heilsueflandi bær árið 2016 en með því er lögð áhersla á að heilsa og líðan íbúa sé höfð í fyrirrúmi í allri stefnumótun. Við viljum skapa aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, bæta heilsu og vellíðan allra íbúa. Heilbrigði snýst um líkamlega, andlega og félagslega vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og örorku.
Hvers vegna heilsueflandi samfélag?
Með því að innleiða heilsueflandi samfélag, verða íbúar meðvitaðri um eigin heilsu og þar með má vænta þess að íbúar bæti heilsu sína og lífsgæði.
Lýðheilsustefna
Til að stuðla að heilsueflandi samfélagi þarf að móta lýðheilsustefnu sem nær til allra einstaklinga og hópa í samfélaginu. Mikilvægt er að lýðheilsa sé höfð að leiðarljósi í allri stefnumótunarvinnu og að lýðheilsustefnan verði hluti af samfélaginu en ekki verkefni sem stendur eitt á báti.
Til þess að hægt sé að ná fram raunverulegum breytingum í samfélaginu þarf samstöðu og samvinnu margra fagaðila; frá heilsugæslunni, sveitarfélaginu, íþróttafélögum, skólum og Félagi eldri borgara. Við þurfum að vinna saman og nýta krafta okkar, sérfræðiþekkingu, úrræði og fjármuni til að ná góðum árangri. Stefna að því að skólakerfið, vinnustaðir og stofnanir séu heilsueflandi og vinni stöðugt að því að auka hreyfingu og útivist, bæta mataræði og efla geðrækt því slíkt leiðir til betri heilsu og vellíðunnar.
Forvarnir eru lykilatriði
Við vitum að í nútíma samfélagi eru margir þættir sem geta ógnað heilsu okkar eins og t.d. kyrrseta, reykingar, óhollt mataræði og óhófleg neysla áfengis. Einnig eru börnin okkar farin að sitja of mikið fyrir framan tölvuskjáinn en mikilvægt er að efla íþrótta-og tómstundaiðkun allra barna. Í heilsueflandi samfélagi skipta forvarnir því miklu máli til að sporna við þessum áhrifaþáttum.
Greinin birtist fyrst á vef Víkurfrétta (sjá hér).