Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fyrsti flutningsmaður frumvarps sem er ætlað að stuðla að og styðja við uppbyggingu á vegum félagasamtaka sem starfa í þágu almannaheilla.
Frumvarpið gerir ráð fyrir því að tekið verði upp sérstakt kerfi endurgreiðslna sem nemi virðisaukaskatti vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda á vegum þessara félaga. Endurgreiðsla verður bundin því skilyrði að um sé að ræða framkvæmdir sem bæta aðstöðu viðkomandi félags.
Flest félög sem starfa að almannaheillum, svo sem björgunarsveitir og íþróttafélög, eru utan virðisaukaskattskerfisins og eiga því ekki möguleika á að fá endurgreiðslu innskatts vegna framkvæmda við mannvirkjagerð. Um er að ræða félög sem byggjast á grunni sjálfboðaliðastarfs og gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu.
Með endurgreiðslukerfi því, sem frumvarpið gerir ráð fyrir að tekið verði upp, myndi ríkissjóður veita félagasamtökum til almannaheilla fjárhagslegan stuðning við að byggja upp aðstöðu fyrir starfsemi sína.
Verði frumvarpi að lögum mun það auðvelda þessum félögum að byggja upp aðstöðu og viðhalda því mikilvæga starfi sem þau sinna.
Meðflutningsmenn á frumvarpinu eru Óli Björn Kárason, Ásmundur Friðriksson og Willum Þór Þórsson. Frumvarpið er hægt að nálgast hér.