Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Við getum ekki leyft okkur að skipuleggja heilbrigðiskerfið út frá þörfum kerfisins sjálfs. Þarfir sjúkratryggðra – allra landsmanna – eiga alltaf að vera í forgangi. Við getum heldur ekki tekið ákvörðun um sameiginlega fjármögnun þjónustunnar til að mæta kröfum kerfisins en hlustað lítt á óskir þeirra sem þurfa að nýta sér þjónustuna.
Sem samfélag eigum við ekki að hafa það sem sérstakt markmið að auka útgjöld til heilbrigðismála. Aukin lífsgæði með góðri öflugri heilbrigðisþjónustu fyrir alla er og á að vera markmiðið. Því miður virðist sem við missum sjónar á þessu í amstri dagsins og pólitískum deilum um hluti sem eru léttvægir í samanburði við heilsu og lífsgæði.
Brenglun og engin vitglóra
Ragnar Hall hæstaréttarlögmaður fjallaði í nýlegri blaðagrein um þá brenglun sem hefur verið innleidd í íslenskt heilbrigðiskerfi. Þrátt fyrir að hundruð landsmanna bíði eftir liðskiptaaðgerðum neitar ríkið að nýta sér þjónustu einkaaðila hér á landi og telur rétt, þrátt fyrir mun hærri kostnað, að senda fólk fremur úr landi til að gangast undir nauðsynlega aðgerð:
„Ef þú ert til í að fara í aðgerð sem kostar 3 milljónir greiðum við hana að fullu. En ef þú ætlar að fara í slíka aðgerð hjá NN hér á landi, þá skaltu vita að við greiðum ekkert, enda þótt kostnaðurinn verði aðeins 1 milljón. Hver maður sér að ekki er vitglóra í svona kerfi.“
Það er ekki hægt að mótmæla fullyrðingu lögmannsins; það er engin vitglóra í þessu kerfi. Undir þetta tekur Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, í blaðagrein í Fréttablaðinu. Þar kemur fram að í byrjun ársins voru 1.100 einstaklingar á biðlista eftir liðskiptaaðgerð. Meðalbiðtíminn er í raun 12-14 mánuðir, þar sem margir eru á biðlista mánuðum saman eftir að komast á biðlista!
Þrátt fyrir óskir Sjúkratrygginga Íslands hafa stjórnvöld hafnað því að gerðir séu samningar við einkaaðila um gerviliðaaðgerðir til að mæta þeirri þörf sem opinberir aðilar geta ekki sinnt. Stefnan er skýr að þessu leyti: Liðskiptaaðgerðir skulu aðeins verða í boði hjá stofnunum ríkisins. Þarfir hinna sjúkratryggðu eru settar til hliðar – kerfið er í forgangi og þá er líkt og kostnaðurinn verði aukaatriði. Vanlíðan og kvalir sjúklinga gleymast. Þjóðhagslegt tap veldur litlum áhyggjum.
Lausnin: Biðraðir?
Í Sovétríkjunum sálugu voru biðraðir hluti af daglegu lífi. Bíða þurfti eftir öllu, jafnvel eftir lífsnauðsynjum í matvörubúðum. Almenningur eyddi sínum tíma í biðröðum. Í grámyglu biðraðanna var haft að orði að biðraðamenningin væri skynsamleg stefna stjórnvalda sem þannig losnuðu við að byggja elliheimili, því ævinni eyddi fólkið í að bíða.
Varla dettur nokkrum manni í hug að sækja í smiðju Sovétríkjanna við að skipuleggja heilbrigðisþjónustu, en samt sem áður hefur kerfið ákveðið að fremur skuli byggt undir biðraðamenninguna en að nýta sér þjónustu einkaaðila sem uppfylla allar faglegar kröfur.
Við þurfum að glíma við margar áskoranir við skipulag heilbrigðiskerfisins. Þeim áskorunum er ekki hægt að mæta með því að lengja biðlista og jafnvel taka upp sérstaka biðlista eftir að komast á biðlista. Jöfnuður eykst ekki í biðröðum heldur þvert á móti. Misrétti verður meira og hinir efnameiri kaupa nauðsynlega þjónustu í öðrum löndum eða beint af einkaaðilum.
Við Íslendingar höfum góða reynslu af samþættingu og samvinnu einkarekinna fyrirtækja og opinberra stofnana. Sérfræðilæknar starfa margir sjálfstætt, einkafyrirtæki sinna forvörnum og endurhæfingu, reka hjúkrunarheimili og sjálfstætt starfandi ljósmæður bjóða ungum mæðrum sína þjónustu. Einkaaðilar reka heilsugæslustöðvar þar sem ánægja viðskiptavinanna er mikil. Þannig má lengi telja. En þrátt fyrir allt þetta er þjónusta þessara aðila gerð tortryggileg og í stað þess að nýta sér kosti einkarekstrar þar sem það er skynsamlegt, virðist sem kerfið sjálft hafi öðlast sjálfstætt líf. Þörfum sjúkratryggðra er ekki mætt og biðraðir eru taldar æskilegri en að semja við einkaaðila um þjónustu.
Afleiðingin er verra heilbrigðiskerfi, minni jöfnuður, lakari samkeppnishæfni heilbrigðiskerfisins til að laða að hæfileikaríkt starfsfólk og til framtíðar hærri kostnaður en ella.
Gríðarleg hækkun útgjalda
Samkvæmt fjárlögum síðasta árs var reiknað með að framlag ríkissjóðs til heilbrigðismála yrði tæpir 193 milljarðar króna. Samkvæmt fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir þingi er stefnt að miklum hækkunum til heilbrigðismála allt til ársins 2023. Það ár verða útgjöld ríkisins rúmlega 56 milljörðum króna hærri á föstu verðlagi en á síðasta ári, eða 249 milljarðar. Hækkunin er tíu milljörðum hærri fjárhæð en heildarútgjöld vegna hjúkrunar og endurhæfingar á fjárlögum 2017.
Ekki er óeðlilegt að útgjöld til heilbrigðismála hækki frá ári til árs, m.a. vegna fjölgunar landsmanna, breyttrar aldurssamsetningar, dýrari tækja og hærri launa heilbrigðisstarfsmanna. En við getum spyrnt við fótum því það getur ekki verið að við ætlum að verja þessum auknu fjármunum í biðraðir.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. apríl 2018.