Útgjaldaboginn spenntur til hins ýtrasta
'}}

Óli Björn Kárason, þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar:

Gangi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar eftir verða útgjöld ríkissjóðs, án fjármagnskostnaðar, um 132 milljörðum króna hærri árið 2023 en þau voru samkvæmt fjárlögum á liðnu ári. Þetta er hækkun um tæp 20% á föstu verðlagi 2018. Aukning útgjalda jafngildir um 1,5 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Ef lýsa á þróun ríkisfjármála síðustu ár með einu orði, þá er orðið „útgjaldaþensla“ ágætt. Það er sama á hvaða liði útgjalda ríkisins er litið, - nær allt hefur hækkað og heldur áfram að hækka á komandi árum.

Í janúar síðastliðnum benti ég á að fyrstu fjárlög ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur væru sannarlega fjárlög útgjalda, en með fyrirheitum um að á komandi árum verði álögur á fyrirtæki og almenning lækkaðar. Í fjármálaáætlun sem lögð hefur verið fram er því heitið að tekjuskattur einstaklinga lækki sem og tryggingagjald. Auðvitað þarf í þessum efnum að stíga fastar til jarðar, en það er sérstaklega ánægjulegt að ætlunin er að hefja heildarendurskoðun á tekjuskattskerfinu og þar verður meðal annars skoðað hvort rétt sé að innleiða breyttan persónuafslátt, með svipuðum hætti og ég hef talað fyrir hér á síðum Morgunblaðsins. Þá yrði persónuafslátturinn hækkaður verulega og færi stiglækkandi eftir því sem tekjur eru hærri. Hugsanlegt er að ónýttur persónuafslátturinn verði að einhverju leyti greiddur út. Þannig tekjuskattskerfi hvetur fólk til vinnu og refsar því ekki fyrir að bæta sinn hag og eykur „á sama tíma ráðstöfunartekjur tekjulágra meira en annarra, án þess þó að fátæktargildrur skapist,“ eins og segir í fjármálaáætluninni.

En eins og búast mátti við er fjármálaáætlunin vonlaus í hugum stjórnarandstöðunnar.

96 milljarða hækkun

Í fjármálaáætluninni er lagt til að framlög til sjúkrahúsþjónustu, heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa, hjúkrunar- og endurhæfingar og lyf og lækningavara, hækki um rúmlega 56,4 milljarða króna frá 2017 til 2023 eða liðlega 29% að raunvirði. Útgjöld til heilbrigðismála verða um 249 milljarðar króna árið 2023 gangi áætlunin eftir.

Framlög vegna aldraðra, öryrkja og málefna fatlaðra verða liðlega 34,7 milljörðum hærri að raungildi í lok fjármálaáætlunarinnar en fjárlög liðins árs gera ráð fyrir. Alls nema framlögin rúmlega 162 milljörðum árið 2023. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að framlög til lífeyrisgreiðslna aldraðra hækkuðu um nær 69% að raunvirði frá 2013 til 2017 eða um rúmlega 27 milljarða á verðlagi síðasta árs. Heildargreiðslur til öryrkja hækkuðu um 32% eða 12,6 milljarða að raunvirði.

Í heild verða útgjöld til velferðarmála 96,3 milljörðum króna hærri árið 2023 en á síðasta ári. Þetta er hækkun um 26% eða töluvert meira en önnur útgjöld.

Þessi mikla aukning útgjalda til velferðarmála kemur í kjölfar ára þar sem útgjöld hækkuðu gríðarlega.

338 milljarðar í innviði

Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á fjárfestingu í innviðum og sú áhersla kemur fram í fjármálaáætluninni. Svigrúmið hefur enda aukist á undanförnum árum þar sem tekist hefur að lækka skuldir ríkisins verulega og lækka þar með vaxtakostnað um tugi milljarða á ári. Fjárfestingar aukast um 13 milljarða á næsta ári og ná hámarki árið 2021 en alls er gert ráð fyrir að fjárfestingar nemi 338 milljörðum króna á fimm árum áætlunarinnar eða að meðaltali tæplega 68 milljörðum á ári.

Svo koma útgjaldasinnarnir og krefjast hærri útgjalda. Þeir eru alltaf tilbúnir til að mæta á uppboðsmarkað stjórnmálanna og bjóða betur en allir aðrir. Í hugum þeirra er útgjaldaþenslan ekki nægilega mikil – það þarf að gefa meira í og auðvitað verður að láta af þeim vonda sið að ríkið „afsali“ sér tekjum með því að launafólk haldi meiru eftir í launaumslaginu. Tillögur um lækkun skatta er sagðar merki um „getuleysi“ ríkisstjórnarinnar við að afla tekna og fjármálaráðherra situr undir ásökunum um að „gefa eftir“ milljarða. „Tekjuleiðirnar eru ekki nýttar,“ er mantra þeirra sem hæst láta á uppboðstorgi stjórnmálanna.

Eini mæli­kv­arðinn á op­in­bera þjón­ustu sem marg­ir þing­menn og þrýsti­hóp­ar styðjast við sé hversu mikl­um pen­ing­um varið er í hana. Stöðugt kraf­ist hærri út­gjalda – gæði þjón­ust­unn­ar er aukaatriði.

Virka bremsurnar ekki?

Það skal viðurkennt að það er oft erfitt að standa á bremsunni þegar kemur að útgjöldum ríkisins. Á stundum er líkt að bremsurnar virki ekki. En ég er sannfærður um að á næstu árum verður að endurskoða rekstur ríkisins frá grunni. Við stöndum frammi fyrir því að straumlínulaga ríkið, gera auknar kröfur til þjónustu sem við kaupum sameiginlega, auka skilvirkni og nýsköpun í opinberum rekstri. Fyrst og síðast verðum við að horfast í augu við að sameiginlegum fjármunum er víða sóað á sama tíma og það vantar peninga í annað og við búum í sannkölluðu háskattalandi.

Við Íslendingar höfum flestir notið góðæris á síðustu árum. Hagvöxtur var 3,6% á síðasta ári og 7,5% árið á undan. Ef þjóðhagsspá Hagstofunnar gengur eftir mun landsframleiðslan halda áfram að vaxa fram til ársins 2023, þótt krafturinn verði ekki sá sami og síðustu þrjú ár. Íslendingar hafa þar með fengið að njóta 13 ára hagvaxtarskeiðs.

En nú eins og svo oft áður er langt í frá sjálfgefið að þjóðhagsspáin gangi eftir enda óvissuþættir fjölmargir. Kjarasamningar geta sett strik í reikninginn og alþjóðleg þróun efnahagsmála hefur áhrif. Íslenskt samfélag hefur alltaf verið viðkvæmt fyrir efnahagslegri stöðu helstu viðskiptalanda. Þar eru blikur á lofti.

Bogi útgjalda er spenntur til hins ýtrasta í fyrirliggjandi fjármálaáætlun. En það kemur ekki í veg fyrir að kröfur um aukin útgjöld verða háværar á komandi vikum. Nái útgjaldasinnar fram vilja sínum mun boginn að lokum brotna.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. apríl 2018.