Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, alþingismaður og ritari Sjálfstæðisflokksins:
Um liðna helgi voru tveir helgidagar samkvæmt lögum um helgidagafrið; páskadagur og föstudagurinn langi. Á þeim dögum eru strangar reglur um hvað má og hvað ekki. Meðal þess sem er bannað eru eins og segir í lögunum: „Skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram.“
Þar að auki er lagt bann við starfsemi verslunar og markaða. Á þessu eru svo tíundaðar ýmsar undanþágur, leiksýningar mega hefjast eftir klukkan 15:00 og starfsemi bensínstöðva, lyfjabúða og myndbandaleiga er einnig leyfð. Þá er í greinagerð með lögunum gert upp á milli tónlistartegunda, en popptónleikar eru bannaðir á meðan tónleikar með sígildri tónlist, kirkju- og kórtónlist eru leyfðir. Það þykir takmörkun sem samrýmist best þeim friði sem stefnt er að umrædda daga.
Hér er augljóslega um úrelt lög að ræða, hvort sem fólk aðhyllist kristni eða ekki. Þá er ljóst að lögreglan lætur það mæta afgangi þó að fólk spili ólöglegt bingó á páskadag. Aðalatriðið er það að löggjafinn þarf að treysta fólki til þess að ákveða hvernig það gerir sér dagamun sér á helgustu helgidögum, hvort verslunareigendur hafi búðir sínar opnar eða ekki o.s.frv.
Í þessum lögum endurspeglast bæði forsjárhyggja og miðstýring ríkisvaldsins sem er ekki einungis ætlað að vernda helgihald með lögunum heldur einnig: „...að tryggja frið, næði, hvíld og afþreyingu almennings á helgidögum þjóðkirkjunnar.“ Löggjafinn ætti að leyfa hverjum og einum að velja sjálfur hvenær sé þörf á næði og hvíld og hvenær eigi að fá frið frá afþreyingu eða öðru.
Dómsmálaráðherra áformar að leggja fram frumvarp um breytingu á lögum um helgidagafrið með það markmiði að rýmka heimildir til að halda skemmtanir og veita þjónustu á helgidögum þjóðkirkjunnar. Þá hafa Píratar einnig lagt til að fella lögin brott en bæta helgidögum við frídagana sem taldir eru upp í lögum um 40 stunda vinnuviku. Þannig má áfram tryggja launþegum frí á þessum dögum eða greiða þeim yfirvinnukaup sem vinna.
Hvort sem verður er um minniháttar breytingu á lögum að ræða sem gerir þeim sem tilbúnir eru að veita þjónustu þessa daga sem og aðra og þeim sem vilja fá hana mögulegt að sækja hana án þess að löggjafinn beiti valdi sínu til að hefta eðlilegt athafnafrelsi fólks á tilteknum dögum ársins.
Ég vona að þið hafið átt gleðilega páskahátíð.
Greinin „Kirkjukjór en ekki djass“ sem birtist í Morgunblaðinu 3. apríl 2018.