Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar og ritari Sjálfstæðisflokksins.
Leigubílaþjónusta hér á landi felur í sér einokun, stöðnun og skort á nýsköpun sem kemur helst niður á neytendum en líka á bílstjórunum sjálfum. Í fyrra skipaði Jón Gunnarsson, þáv. samgönguráðherra, starfshóp um breytingar á markaði leigubílaþjónustu, sér í lagi vegna þess að núverandi aðgangshindranir brjóta gegn ákvæðum EES-samningsins. Það verður því ekki hjá því komist að breyta þessu ástandi og ég bind miklar vonir við að þar verði sjónarmið um aukið valfrelsi í öndvegi.
Margvísleg rök eru fyrir að breyta núverandi ástandi og það ætti að vera öllum ljóst að markaður með eins miklum hindrunum og þessi er ekki besti kosturinn. Afnám hindrana myndi hafa jákvæð áhrif í för með sér. Að afnema takmörk á fjölda leigubílaleyfa myndi bæði fjölga þeim sem sinna þjónustunni, lækka verð og opna fyrir aukinni nýsköpun í greininni. Aukin nýsköpun mun stuðla að auknu öryggi, meiri sveigjanleika, fjölbreyttari þjónustu, meiri samnýtingu bíla, bættri umferðarmenningu o.s.frv.
Umræðan um þessi mál snýst gjarnan um eitt ákveðið fyrirtæki sem hefur víða um heim stækkað hratt. Umræðan um frelsi á leigubílamarkaði á ekki að snúast um einstök fyrirtæki heldur um þau tækifæri sem frelsið býður upp á. Málið snýst til dæmis um atvinnufrelsi og tækifæri til að þróa nýjar lausnir sem núverandi regluverk kemur í veg fyrir. Málið snýst líka um valfrelsi einstaklingsins og takmörkuð inngrip ríkisins í heilbrigða samkeppni.
Leigubílaleyfum hefur fjölgað um rétt 11% á síðustu 15 árum. Á sama tíma hefur Íslendingum fjölgað um rúmlega 17% auk þess sem fjöldi erlendra ferðamanna hér hefur meira en sexfaldast. Núverandi fyrirkomulag er ósveigjanlegt og hamlandi fyrir bílstjórana sjálfa og ekki síður fyrir neytendur, sem líta ekki á leigubíla sem hluta af sínum daglegu samgöngukostum.
Það er engin ástæða fyrir Íslendinga að dragast aftur úr þegar kemur að þessum málum. Við sjáum skýr merki þess, til að mynda með innkomu Costco, H&M; og fleiri verslana, að landsmenn vilja eiga val þegar kemur að verslun og þjónustu. Það er ekki hlutverk ríkisins að gæta að einkaleyfum í verslun og þjónustu heldur að búa þannig um að leikreglur veiti öllum færi á að taka þátt – almenningi til hagsbóta.
Stundum er hlutunum stillt upp þannig að þeir sem tala fyrir auknu frelsi þurfi að færa fram bestu rökin fyrir því af hverju það ætti að auka frelsi. Þessu þarf að snúa við. Þeir sem tala fyrir því að viðhalda forneskjulegum kerfum með takmörkunum og hindrunum þurfa að færa fyrir því sannfærandi rök af hverju svo ætti að vera áfram. Um leigubílaakstur þurfa að gilda sömu lögmál og reglur og gilda um aðra verslun og þjónustu. Fyrsta skrefið er að afnema þær hömlur sem ríkið hefur sett á greinina.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. febrúar.