Flatur tekjuskattur og stiglækkandi persónuafsláttur
'}}

Óli Björn Kárason þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar 

Í upp­hafi eru tvær staðhæf­ing­ar: Lög um tekju­skatt frá 2013 eru lík­ari bútasaumi en heild­stæðri lagaum­gjörð. Tekju­skatt­s­kerfi ein­stak­linga er órétt­látt og refs­ar launa­fólki sem leit­ast við að bæta sinn hag.

Á fjór­tán árum hef­ur Alþingi talið rétt og nauðsyn­legt að breyta lög­un­um 83 sinn­um eða að meðaltali tæp­lega sex sinn­um á ári. Fram til loka árs 2008 var lög­un­um breytt 23 sinn­um og 2009 til 2013 voru gerðar hvorki fleiri né færri en 37 breyt­ing­ar, þar af ell­efu árið 2011. Til að gæta sann­girni er rétt að hafa í huga að sum­ar af breyt­ing­un­um eru nauðsyn­leg­ar á hverju ári til að upp­færa fjár­hæðir s.s. skatt­leys­is­mörk, barna­bæt­ur, vaxta­bæt­ur og fjár­hæðarmörk í þrepa­skiptu skatt­kerfi.

En flest­ar breyt­ing­arn­ar á tekju­skatts­lög­un­um, hvort held­ur snýr að ein­stak­ling­um eða lögaðilum, hafa verið til að íþyngja en ekki létta byrðarn­ar, flækja frem­ur en ein­falda. Ein­stak­ling­um og for­ráðamönn­um fyr­ir­tækja er ætlað að fylgj­ast með stöðugum breyt­ing­um og laga sig að þeim. Ég hef áður bent á hvað ger­ist þegar stöðugt er verið að breyta leik­regl­un­um, – það læt­ur eitt­hvað und­an og það fyrsta er framtíðar­sýn­in. Mögu­leik­inn til að gera áætlan­ir til lengri tíma hverf­ur hægt og bít­andi. For­send­um rekstr­ar- og fjár­fest­inga­áætl­ana er breytt með „einu penn­astriki“ á Alþingi og fyr­ir­ætl­un­um fjöl­skyldna um íbúðakaup er koll­varpað.

Gegn heil­brigðri efna­hags­starf­semi

Nú er svo komið að lög­in um tekju­skatt líkj­ast frem­ur bútasaumi en heild­stæðu laga­verki, eins og áður er haldið fram. Bútasaumi tekju­skattslag­anna er síðan lokið með hvorki fleiri né færri en 57 bráðabirgðaákvæðum sem eru mis­flók­in og efn­is­mik­il. (Því miður eru lög­in um tekju­skatt langt í frá að vera eina dæmið þar sem lög­gjaf­inn breyt­ir aft­ur og aft­ur leik­regl­un­um og set­ur ótelj­andi ákvæði til bráðabirgða. Í lög­um um virðis­auka­skatt eru 31 bráðabirgðaákvæði, svo dæmi sé nefnt).

Tekju­skatt­s­kerfi ein­stak­linga, sem er byggður á tekju­teng­ing­um og þrepa­skipt­ingu, vinn­ur gegn heil­brigðri efna­hags­starf­semi. Háir jaðarskatt­ar draga úr um­svif­um og hvetja („neyða“) launa­fólk til svartr­ar vinnu. Kerfið er drag­bít­ur á að þeir sem lægstu laun­in hafa geti náð fram hlut­falls­leg­um kjara­bót­um. Í mörgu er skatt­kerfið frem­ur fyr­ir þá sem bet­ur eru sett­ir um leið og þeim er refsað sem reyna að bæta sinn hag.

Háir jaðarskatt­ar íþyngja ekki síst þeim sem lægstu laun­in hafa, eru með litla mennt­un og/​eða til­heyra þeim hluta vinnu­markaðar­ins þar sem lít­il eða eng­in sam­keppni er um vinnu­afl. Leiða má að því sterk rök að jaðarskatt­ar auki launamun­inn í þjóðfé­lag­inu frem­ur en að draga úr hon­um. Sé það ætl­un­in (sem er um­deil­an­legt) að beita tekju­skatt­s­kerf­inu sem jöfn­un­ar­tæki, þá vinna jaðarskatt­ar með tekju­teng­ing­um hvers kon­ar gegn því.

Það sem skipt­ir launa­mann­inn mestu eru ráðstöf­un­ar­tekj­urn­ar – hversu mikið er eft­ir í launaum­slag­inu þegar skatt­ar hafa verið greidd­ir. Þeir sem standa best að vígi á vinnu­markaði eiga meiri mögu­leika til að fá bætt­an þann „skaða“ sem viðkom­andi verður fyr­ir vegna hárra jaðarskatta og/​eða hækk­un­ar tekju­skatts.

Unnið gegn launa­fólki

Starfsmaður sem er eft­ir­sótt­ur til vinnu, er hreyf­an­leg­ur, með góða mennt­un, nýt­ur þess í formi hærri launa og betri starfs­kjara en aðrir. At­vinnu­rek­andi sem vill halda slík­um starfs­manni verður með ein­um eða öðrum hætti að bæta upp skert­ar ráðstöf­un­ar­tekj­ur vegna tekju­teng­inga og hárra jaðarskatta. Að öðrum kosti leit­ar launamaður­inn annað, þar sem skaðinn er bætt­ur eða hann ákveður að þiggja lægra launað starf, álagið er minna, ábyrgðin minni og vinnu­tím­inn styttri.

Þrepa­skipt tekju­skatt­s­kerfi ein­stak­linga með háum jaðarskött­um er þannig með inn­byggðan galla sem vinn­ur gegn launa­fólki sem stend­ur veikt að vígi á vinnu­markaðinum. Gall­ar kerf­is koma einnig fram þegar gerðar eru breyt­ing­ar á skatt­leys­is­mörk­um – per­sónu­afslætti. Þegar mörk­in eru hækkuð geng­ur sú breyt­ing upp all­an tekju­stig­ann. Eft­ir því sem laun eru lægri því meira vægi hef­ur per­sónu­afslátt­ur­inn. Hækk­un per­sónu­afslátt­ar skipt­ir launa­mann­inn með 300 þúsund krón­ur í mánaðarlaun meira máli en þann sem hef­ur 800 þúsund króna tekj­ur. Hækk­un skattaþrepa í sam­ræmi við hækk­un launa­vísi­tölu (til að koma í veg fyr­ir að skatt­byrði þyng­ist aðeins vegna al­mennr­ar hækk­un­ar launa), skipt­ir engu fyr­ir þá sem lök­ust kjör­in hafa en veg­ur þungt hjá þeim sem ann­ars hefðu þurft að sætta sig við hærri skatta, jafn­vel þótt laun hækki aðeins í sam­ræmi við gerða kjara­samn­inga.

Ein skatt­pró­senta óháð tekj­um

Þegar all­ir gall­ar tekju­skatt­s­kerf­is­ins eru lagðir sam­an er vart hægt að kom­ast að ann­arri niður­stöðu en að stokka verði allt kerfið upp. Mark­miðið er að koma á ein­földu kerfi, draga úr jaðarskött­um, byggja und­ir hvata og hætta að refsa fólki þegar hag­ur þess batn­ar.

Flatur tekju­skatt­ur – ein skatt­pró­senta óháð tekj­um – er skyn­sam­leg­asta leiðin að þessu mark­miði en sam­hliða verði inn­leidd­ur nýr per­sónu­afslátt­ur sem lækki eft­ir því sem tekj­ur hækka. Hugs­an­legt er að sam­hliða af­námi vaxta­bóta (niður­greiðslu á vaxta­kostnaði) sé rétt að ónýtt­ur per­sónu­afslátt­ur sé greidd­ur út.

Eins og sést á meðfylgj­andi skýr­ing­ar­mynd verður skatt­byrði mis­jöfn und­ir nýju kerfi. Þeir sem eru með laun und­ir skatt­leys­is­mörk­um greiða ekk­ert og fá hugs­an­lega greidd­an út ónýtt­an per­sónu­afslátt. En eft­ir því sem tekj­ur hækka því hærri verður skatt­pró­sent­an (skatt­byrðin) í reynd, enda lækk­ar per­sónu­afslátt­ur­inn eft­ir tekj­um. Þegar þeim laun­um er náð, þar sem per­sónu­afslátt­ur­inn er orðinn núll, verður skatt­pró­sent­an flöt – sú sama. (Ég hef vís­vit­andi sleppt að nefna skatt­pró­sent­una og skatt­leys­is­mörk. Öllum ætti hins veg­ar að vera ljóst að und­ir nýju tekju­skatt­s­kerfi yrðu skatt­leys­is­mörk­in mun hærri en í dag og skatt­pró­sent­an lægri en efra þrep tekju­skatts­ins.)

Flatur tekju­skatt­ur með stig­lækk­andi per­sónu­afslætti þjón­ar bet­ur mark­miði sínu en nú­ver­andi kerfi. Það verður ein­fald­ara, staða lág­launa­stétta og milli­tekju­hópa verður sterk­ari. Ýtt verður und­ir fólk í stað þess að það sé barið niður með háum jaðarskött­um með til­heyr­andi tekju­teng­ing­um og hærra skattþrepi.

Eitt að lok­um.

Nýtt tekju­skatt­s­kerfi eins og hér er lagt til, er lík­legra til að virka sem hem­ill á skattaglaða stjórn­mála­menn. Það verður póli­tískt erfiðara fyr­ir þá að hækka skatt­pró­sent­una sem all­ir þurfa að greiða þótt skatt­byrðin verði mis­jöfn. Fleyg­ur­inn sem rek­inn er á milli skatt­greiðenda með þrepa­skipt­um tekju­skatti og flókn­um tekju­teng­ing­um mun brotna. Og þá er til nokk­urs unnið.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 24. janúar 2018.