Óli Björn Kárason þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar
Í upphafi eru tvær staðhæfingar: Lög um tekjuskatt frá 2013 eru líkari bútasaumi en heildstæðri lagaumgjörð. Tekjuskattskerfi einstaklinga er óréttlátt og refsar launafólki sem leitast við að bæta sinn hag.
Á fjórtán árum hefur Alþingi talið rétt og nauðsynlegt að breyta lögunum 83 sinnum eða að meðaltali tæplega sex sinnum á ári. Fram til loka árs 2008 var lögunum breytt 23 sinnum og 2009 til 2013 voru gerðar hvorki fleiri né færri en 37 breytingar, þar af ellefu árið 2011. Til að gæta sanngirni er rétt að hafa í huga að sumar af breytingunum eru nauðsynlegar á hverju ári til að uppfæra fjárhæðir s.s. skattleysismörk, barnabætur, vaxtabætur og fjárhæðarmörk í þrepaskiptu skattkerfi.
En flestar breytingarnar á tekjuskattslögunum, hvort heldur snýr að einstaklingum eða lögaðilum, hafa verið til að íþyngja en ekki létta byrðarnar, flækja fremur en einfalda. Einstaklingum og forráðamönnum fyrirtækja er ætlað að fylgjast með stöðugum breytingum og laga sig að þeim. Ég hef áður bent á hvað gerist þegar stöðugt er verið að breyta leikreglunum, – það lætur eitthvað undan og það fyrsta er framtíðarsýnin. Möguleikinn til að gera áætlanir til lengri tíma hverfur hægt og bítandi. Forsendum rekstrar- og fjárfestingaáætlana er breytt með „einu pennastriki“ á Alþingi og fyrirætlunum fjölskyldna um íbúðakaup er kollvarpað.
Gegn heilbrigðri efnahagsstarfsemi
Nú er svo komið að lögin um tekjuskatt líkjast fremur bútasaumi en heildstæðu lagaverki, eins og áður er haldið fram. Bútasaumi tekjuskattslaganna er síðan lokið með hvorki fleiri né færri en 57 bráðabirgðaákvæðum sem eru misflókin og efnismikil. (Því miður eru lögin um tekjuskatt langt í frá að vera eina dæmið þar sem löggjafinn breytir aftur og aftur leikreglunum og setur óteljandi ákvæði til bráðabirgða. Í lögum um virðisaukaskatt eru 31 bráðabirgðaákvæði, svo dæmi sé nefnt).
Tekjuskattskerfi einstaklinga, sem er byggður á tekjutengingum og þrepaskiptingu, vinnur gegn heilbrigðri efnahagsstarfsemi. Háir jaðarskattar draga úr umsvifum og hvetja („neyða“) launafólk til svartrar vinnu. Kerfið er dragbítur á að þeir sem lægstu launin hafa geti náð fram hlutfallslegum kjarabótum. Í mörgu er skattkerfið fremur fyrir þá sem betur eru settir um leið og þeim er refsað sem reyna að bæta sinn hag.
Háir jaðarskattar íþyngja ekki síst þeim sem lægstu launin hafa, eru með litla menntun og/eða tilheyra þeim hluta vinnumarkaðarins þar sem lítil eða engin samkeppni er um vinnuafl. Leiða má að því sterk rök að jaðarskattar auki launamuninn í þjóðfélaginu fremur en að draga úr honum. Sé það ætlunin (sem er umdeilanlegt) að beita tekjuskattskerfinu sem jöfnunartæki, þá vinna jaðarskattar með tekjutengingum hvers konar gegn því.
Það sem skiptir launamanninn mestu eru ráðstöfunartekjurnar – hversu mikið er eftir í launaumslaginu þegar skattar hafa verið greiddir. Þeir sem standa best að vígi á vinnumarkaði eiga meiri möguleika til að fá bættan þann „skaða“ sem viðkomandi verður fyrir vegna hárra jaðarskatta og/eða hækkunar tekjuskatts.
Unnið gegn launafólki
Starfsmaður sem er eftirsóttur til vinnu, er hreyfanlegur, með góða menntun, nýtur þess í formi hærri launa og betri starfskjara en aðrir. Atvinnurekandi sem vill halda slíkum starfsmanni verður með einum eða öðrum hætti að bæta upp skertar ráðstöfunartekjur vegna tekjutenginga og hárra jaðarskatta. Að öðrum kosti leitar launamaðurinn annað, þar sem skaðinn er bættur eða hann ákveður að þiggja lægra launað starf, álagið er minna, ábyrgðin minni og vinnutíminn styttri.
Þrepaskipt tekjuskattskerfi einstaklinga með háum jaðarsköttum er þannig með innbyggðan galla sem vinnur gegn launafólki sem stendur veikt að vígi á vinnumarkaðinum. Gallar kerfis koma einnig fram þegar gerðar eru breytingar á skattleysismörkum – persónuafslætti. Þegar mörkin eru hækkuð gengur sú breyting upp allan tekjustigann. Eftir því sem laun eru lægri því meira vægi hefur persónuafslátturinn. Hækkun persónuafsláttar skiptir launamanninn með 300 þúsund krónur í mánaðarlaun meira máli en þann sem hefur 800 þúsund króna tekjur. Hækkun skattaþrepa í samræmi við hækkun launavísitölu (til að koma í veg fyrir að skattbyrði þyngist aðeins vegna almennrar hækkunar launa), skiptir engu fyrir þá sem lökust kjörin hafa en vegur þungt hjá þeim sem annars hefðu þurft að sætta sig við hærri skatta, jafnvel þótt laun hækki aðeins í samræmi við gerða kjarasamninga.
Ein skattprósenta óháð tekjum
Þegar allir gallar tekjuskattskerfisins eru lagðir saman er vart hægt að komast að annarri niðurstöðu en að stokka verði allt kerfið upp. Markmiðið er að koma á einföldu kerfi, draga úr jaðarsköttum, byggja undir hvata og hætta að refsa fólki þegar hagur þess batnar.
Flatur tekjuskattur – ein skattprósenta óháð tekjum – er skynsamlegasta leiðin að þessu markmiði en samhliða verði innleiddur nýr persónuafsláttur sem lækki eftir því sem tekjur hækka. Hugsanlegt er að samhliða afnámi vaxtabóta (niðurgreiðslu á vaxtakostnaði) sé rétt að ónýttur persónuafsláttur sé greiddur út.
Eins og sést á meðfylgjandi skýringarmynd verður skattbyrði misjöfn undir nýju kerfi. Þeir sem eru með laun undir skattleysismörkum greiða ekkert og fá hugsanlega greiddan út ónýttan persónuafslátt. En eftir því sem tekjur hækka því hærri verður skattprósentan (skattbyrðin) í reynd, enda lækkar persónuafslátturinn eftir tekjum. Þegar þeim launum er náð, þar sem persónuafslátturinn er orðinn núll, verður skattprósentan flöt – sú sama. (Ég hef vísvitandi sleppt að nefna skattprósentuna og skattleysismörk. Öllum ætti hins vegar að vera ljóst að undir nýju tekjuskattskerfi yrðu skattleysismörkin mun hærri en í dag og skattprósentan lægri en efra þrep tekjuskattsins.)
Flatur tekjuskattur með stiglækkandi persónuafslætti þjónar betur markmiði sínu en núverandi kerfi. Það verður einfaldara, staða láglaunastétta og millitekjuhópa verður sterkari. Ýtt verður undir fólk í stað þess að það sé barið niður með háum jaðarsköttum með tilheyrandi tekjutengingum og hærra skattþrepi.
Eitt að lokum.
Nýtt tekjuskattskerfi eins og hér er lagt til, er líklegra til að virka sem hemill á skattaglaða stjórnmálamenn. Það verður pólitískt erfiðara fyrir þá að hækka skattprósentuna sem allir þurfa að greiða þótt skattbyrðin verði misjöfn. Fleygurinn sem rekinn er á milli skattgreiðenda með þrepaskiptum tekjuskatti og flóknum tekjutengingum mun brotna. Og þá er til nokkurs unnið.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 24. janúar 2018.