Trúin á framtíðina
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

Trúin á framtíðina

Í árslok er við hæfi að velta fyrir sér framtíðinni, nánar tiltekið: Hvaða augum lítum við framtíðina og skiptir það máli?

Sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari segir í bók sinni „Sapiens“ að trúin á framtíðina sé mikilvægasti drifkraftur efnahagslífsins. Þetta kann að virðast langsótt en Harari færir fyrir þessu áhugaverð rök.

Hann bendir á að öldum og árþúsundum saman upplifði mannkynið sáralítinn hagvöxt þrátt fyrir margvíslega framþróun. Það sem hindraði vöxtinn var að hans mati sú staðreynd að fólk hafði almennt ekki trú á að hagsæld myndi aukast í framtíðinni, sem gerði að verkum að lánsviðskipti voru nær engin. Sá sem trúir því að kakan verði alltaf jafnstór er eðlilega tregur til að veita lán, því að augjóst er að erfitt verður að greiða það til baka af jafnstórri köku. Án lánafyrirgreiðslu var ekki hægt að ráðast í framkvæmdir eða verkefni nema greiða þær úr eigin vasa. Þetta stóð í vegi fyrir framtaki, nýsköpun og hagvexti sem aftur dró úr tiltrú á framtíðina. Sem sagt: Vítahringur.

Vítahringurinn rofinn

Það sem loks rauf vítahringinn og leysti vöxtinn úr læðingi fyrir um það bil 500 árum var trúin á framfarir og aukna hagsæld sem leiddi af vísindabyltingunni. Hin nýja bjartsýni losaði smám saman um lánsfé, sem stuðlaði að framkvæmdum og framtaki, sem leiddi af sér nýsköpun, verðmætasköpun og hagvöxt, sem aftur jók bjartsýni og trú á framtíðina – og þannig koll af kolli.

Þessi áhugaverða nálgun leiðir hugann að tvennu. Í fyrsta lagi hvernig við tryggjum að það verði áfram innistæða fyrir trú okkar á að framtíðin beri aukna hagsæld í skauti sér. Í öðru lagi hvaða mælistiku við setjum á framfarir, hagsæld og lífsgæði.

Hvað innistæðuna varðar er ljóst að hagvöxtur verður vitaskuld ekki drifinn áfram til lengdar af bjartsýni og lánveitingum einum saman. Við þurfum fyrr eða síðar að borga brúsann og það gerum við með því að framleiða meiri verðmæti. Tækniframfarir sem auka framleiðni hafa oftast vegið þyngst á metunum í því sambandi en fleira skiptir máli, til dæmis að þróa nýjar vörur og þjónustu og búa þannig til nýja eftirspurn. Hvernig sem á það er litið skiptir hugvit og sköpunargáfa mestu. Efnahagslegur styrkur þjóða mun í auknum mæli ráðast af því hvernig þeim tekst að efla hugvit og sköpunarkraft og áhersla okkar á þessa þætti er því ekki til skrauts heldur lífsnauðsyn.

Mælikvarðar lífsgæða

En efnahagslegur styrkur er ekki eini mælikvarðinn á framfarir og ekki er gefið að aukin framleiðni skili sér í auknum lífsgæðum. Aðrir mælikvarðar skipta einnig máli. Þættir á borð við lífslíkur og heilbrigði, öryggi gagnvart glæpum og sjúkdómum, menntun, umhverfisgæði, samfélagsþátttöku, jafnrétti og lífshamingju. OECD ber þannig saman ellefu lífsgæðamælikvarða í aðildarlöndunum og hefur hver þeirra nokkra undirmælikvarða.

Sum Evrópulönd hafa lagt töluverða vinnu í að skilgreina sína eigin lífsgæðamælikvarða. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er nefnt að settur verði á fót þverpólitískur hópur um „þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði“. Þetta er spennandi og gagnlegt verkefni vegna þess að í því felst að ræða ofan í kjölinn hvað við teljum að skipti mestu máli um velferð okkar og lífsgæði. Umræðan ein og sér er gagnleg og afurðin mun síðan gagnast okkur til að meta árangur.

Framfarir eru ekki sjálfgefnar

Johan Norberg rökstyður það vel í bók sinni „Framfarir: Tíu ástæður til að taka framtíðinni fagnandi“ að heimurinn fari batnandi á flesta mælikvarða. Hann bendir á að samkvæmt könnunum vanmetur fólk almennt þessar framfarir, þekkir ekki staðreyndirnar og telur þess vegna að heimurinn fari versnandi. Að sumu leyti er það skiljanleg afleiðing af því að stríð, glæpir, slys og sjúkdómar fylla flesta fréttatíma en friður og spekt miklu síður. Norberg hvetur okkur því réttilega til að meta að verðleikum þær miklu framfarir sem hafa orðið.

En hann brýnir okkur líka til árvekni og bendir á að það sé ekki sjálfgefið að þróunin verði áfram í sömu átt. Ég er hins vegar hiklaust bjartsýn fyrir Íslands hönd, því að frjálst, frjálslynt, upplýst, tæknivætt og vel menntað samfélag eins og okkar hefur alla burði til að vera áfram í fremstu röð.

Ég óska lesendum farsældar á nýju ári og þakka samfylgdina á árinu sem er að líða.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 31.desember 2017.