Við áramót
'}}

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins

Við áramót

Þrátt fyrir umrót á pólitíska sviðinu hefur árið verið Íslendingum gott og sennilega hefur aldrei verið betra að vera uppi en á okkar tímum.

Það sem hefur oftast komið upp í hugann þessa síðustu daga ársins 2017 er hversu sérkennilegt þetta ár hefur verið. Að sumu leyti er það eins og það hafi verið mörg ár, svo fréttnæmt hefur það verið á innlendum sem erlendum vettvangi.

Nýr Bandaríkjaforseti, Donald Trump, tók við. Hann hefur sýnt að hann er um margt afar óvenjulegur forseti og engin merki um að dragi úr þeirri sérstöðu. Framan af var því spáð að forsetinn myndi ekki geta gengið í takt við þingið en árinu lýkur samt sem áður á því að tillögur hans um mestu skattalækkanir sögunnar þar í landi voru samþykktar.

Forsetakosningar í Frakklandi í vor skiptu sköpum við að hindra framgang þjóðernissósíalista í Evrópu, þegar Emmanuel Macron vann sigur á Marine Le Pen. Það er þó ekki hægt að segja að allt sé með kyrrum kjörum í álfunni. Ekki sér enn fyrir endann á deilum og átökum í Katalóníu, eftir kosningar um sjálfstæði sem yfirvöld á Spáni höfðu lýst yfir að væru ólöglegar. Bretar kusu í byrjun sumars í skugga hryðjuverka í Lundúnum og Manchester og stjórnarkreppa ríkir í Þýskalandi, en þar var kosið í september. Það er því víðar en á Íslandi sem kosningar og pólitískt umrót hafa sett svip sinn á árið.

Þegar ég fór á fund forseta um miðjan september var ég spurður hverjar ég teldi að afleiðingarnar yrðu af þá nýorðnum atburðum. Fordæmalausum stjórnarslitum þegar Björt framtíð hrökk frá borði án þess að gera hina minnstu tilraun til að leita skýringa eða leiða mál í jörð. Þá sagðist ég binda vonir við að þingkosningar myndu tryggja að aftur kæmist á röð og regla í stjórnmálunum. Með myndun breiðrar ríkisstjórnar, frá vinstri til hægri, hefur verið stigið mjög ákveðið spor í átt til þess að gera þá von mína að veruleika.

Stjórnarmyndunarviðræðurnar tóku sinn tíma en afrakstur þeirra er ítarlegur sáttmáli og traust milli forystufólks flokkanna. Gott samband milli samstarfsflokka skiptir höfuðmáli. Vel skrifuð og markviss stefnuyfirlýsing er mikilvæg en hún verður aldrei meira en gott veganesti. Reyndin er nefnilega sú að það eru óvæntu hlutirnir sem reyna á í samstarfi. Ekki þeir sem vitað er fyrirfram að getur orðið ágreiningur um, heldur það sem ekki verður séð fyrir og þá reynir á böndin milli fólks. Á traust, trúnað og vilja til að komast yfir erfiðleika.

Við áramót reikar hugurinn til baka, til ársins sem er að líða og þess lærdóms sem hægt er að draga af því. Á þessu ári missti ég afar dýrmætan vin og samstarfsmann, Ólöfu Nordal, varaformann Sjálfstæðisflokksins. Um leið tapaði þjóðin ástsælli forystukonu í stjórnmálum, miklum leiðtoga og fyrirmynd. Ólöf hafði glímt við erfið veikindi og flest sem benti til að sjúkdómurinn væri óyfirstíganlegur. En það er lítil huggun í því þegar líf konu á besta aldri, í blóma lífsins með stóra fjölskyldu, tekur enda. Hún var mikil hugsjónamanneskja, merkisberi sjálfstæðisstefnunnar og hafði þann mikilsverða eiginleika að geta brúað bil milli manna og málefna. Skarð hennar verður seint fyllt. Mér finnst ég horfa öðrum augum á tilveruna eftir fráfallið. Hvernig Ólöf og fjölskylda hennar tókst á við veikindin hefur kennt mér ýmislegt um hvað það er sem skiptir raunverulegu máli. Um mikilvægi þess að lifa lífinu þakklátur fyrir allt sem maður hefur: Fjölskyldu, vini, góða heilsu og allt sem maður fær að fást við, upplifa og læra.

Þjóðin lærði líka ýmislegt um sjálfa sig þegar hún fylgdist með hinu átakanlega máli Birnu Brjánsdóttur. Við sameinuðumst, fyrst í voninni og óttanum – og svo sorginni. Þegar á reynir erum við eins og ein fjölskylda, samhent og umhyggjusöm.

Þrátt fyrir umrót á pólitíska sviðinu hefur árið verið Íslendingum gott og sennilega hefur aldrei verið betra að vera uppi en á okkar tímum. Fyrir fáeinum dögum mátti lesa á forsíðu Morgunblaðsins að yfir stæði fordæmalaust góðæri og laun hefðu aldrei verið hærri. Og þótt líklegt megi teljast að við séum nú á toppi hagsveiflunnar, er útlitið til næstu ára samt sem áður bjart.

Áfram er spáð vexti í hagkerfinu, fjölgun ferðamanna, góðri stöðu fiskistofna og tryggri afkomu þjóðarbúsins. Við skilum nú hallalausum fjárlögum fimmta árið í röð, okkur hefur orðið vel ágengt við niðurgreiðslu lífeyrisskuldbindinga og annarra skulda ríkissjóðs sem skilar sér í lægri vaxtakostnaði fyrir ríkið og meira svigrúmi til brýnna verkefna. Stýrivextir hafa lækkað og eitt af verkefnum okkar á næstu árum er að sjá til þess að efnahagslífið hér skapi skilyrði fyrir frekari vaxtalækkanir. Þar ríður á að aðilar vinnumarkaðarins gangi að samningaborðinu með langtímahagsmuni landsmanna í fyrirrúmi, þar sem hóflegar launahækkanir og stöðugt efnahagsástand skilar sér í kaupmáttaraukningu og raunverulegum kjarabótum.

Tímar eins og við lifum nú gefa okkur svigrúm til að sinna mikilvægum uppbyggingarverkefnum. Það er mér mikið metnaðarmál að við skilum betra búi en við tókum við, í víðum skilningi. Þannig eru efnahagsleg markmið ekki þau einu sem lögð eru til grundvallar í þeim efnum, heldur ýmiskonar velsæld og framfarir.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sterkur nýsköpunartónn sem hefur fengið góðan hljómgrunn meðal þeirra sem vinna á sviði rannsókna-, þróunar og nýsköpunar hér á landi. Þar hefur orðið til mikil þekking og reynsla sem við viljum byggja á og styðja við enn eina stoð fyrir afkomu þjóðarinnar, en þeim hefur sem betur fer farið fjölgandi. Lengi vel áttum við allt okkar undir fiskveiðum, svo bættist orkan við, þá ferðaþjónustan og nú horfum við til skapandi greina í víðu samhengi sem fjórðu stoðarinnar. Þar höfum við að bjóða ýmsa sérþekkingu á sviði tækni og nýsköpunar og ákveðna sérstöðu vegna smæðar samfélagsins. Hér eru allar boðleiðir stuttar og við eigum möguleika á að hreyfa okkur mun hraðar en stór samfélög, sem hentar framsæknum fyrirtækjum í tæknigeiranum vel.

Hvert og eitt munum við minnast ársins 2017 með ólíkum hætti. Við eigum samt sem áður sameiginlegar ýmsar minningar frá þessu ári. Við munum sorgina vegna Birnu, tvær ríkisstjórnir og óvæntar kosningar, hina mögnuðu #metoo-byltingu sem vonandi mun hafa áhrif um ókomna tíð, stoltið við að fylgjast með stelpunum okkar á EM í knattspyrnu í Hollandi, þann merkilega árangur landsliðsins í körfubolta að leika á Evrópumeistaramóti í Finnlandi og gleðitilfinninguna þegar strákarnir okkar tryggðu sér þátttökurétt á HM í Rússlandi næsta sumar og sáðu fræjum frekari sameiginlegra minninga. Slík afrek eru okkur mikilvæg enda er íþróttafólkið okkar góð fyrirmynd fyrir kynslóðina sem er að vaxa úr grasi, um leið og það ber hróður lands og þjóðar langt út fyrir landsteinana. Þannig horfum við einnig til frekari afreka kylfingsins Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur, nýkjörins íþróttamanns ársins og handboltalandsliðsins sem heldur nú í janúar til keppni á Evrópumótinu í Króatíu.

Á næsta ári höldum við upp á að öld verður liðin frá því að Ísland varð fullvalda. Meginstefið verður hátíð þjóðar með það að markmiði að virkja sem flesta til þátttöku. Ég vænti þess einnig að þátttaka verði góð í öðrum stórviðburði á vormánuðum, þegar kosið verður til sveitarstjórna.

Það er til margs að hlakka árið 2018. Ég kveð árið 2017, þetta sérkennilega ár, með þakklæti, reynslunni ríkari og óska landsmönnum öllum árs og friðar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 31.desember 2017.