„Vont er þeirra ránglæti, verra þeirra réttlæti,“ sagði Jón Hreggviðsson af öðru tilefni en orðin lýsa ágætlega stjórnarstefnu sem kennd var við norræna velferð, jafnrétti og jöfnuð. Í þröngri stöðu valdi ríkisstjórn vinstriflokkanna fremur að nota niðurskurðarhnífinn á heilbrigðiskerfið og skerða almannatryggingar en skera fitu í rekstri ríkisins. Í Reykjavík hefur verið fylgt sömu stefnu. Gæluverkefnin njóta forgangs en grunn- og leikskólar eru sveltir. Álögur á borgarbúa eru í hæstu hæðum en fjárhagsstaða borgarsjóðs er alvarleg. Meirihluti borgarstjórnar er forskrift að ríkisstjórn vinstriflokkanna að loknum þingkosningum fái þeir brautargengi.
Umskipti
Gríðarleg umskipti hafa orðið í ríkisfjármálum í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Bættur hagur hefur verið nýttur til að hefjast handa við endurreisn heilbrigðiskerfisins og styrkja almannatryggingar með tugmilljarða aukningu framlaga. Skattar hafa verið lækkaðir, tollar afnumdir og vörugjöld felld niður. Enn á eftir að lagfæra skattkerfið í heild sinni eftir fjögurra ára „you-ain't-seen-nothing-yet“ skattastefnu vinstristjórnarinnar.Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að nýta hluta þess svigrúms sem skapaðist með stöðugleikaframlagi föllnu bankanna til að koma á jafnræði í lífeyrismálum landsmanna. Um leið er stefnt að því að jafna launakjör á opinberum og almennum vinnumarkaði. Eitt samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn skiptir miklu. Sveigjanleiki á vinnumarkaði eykst enda verður auðveldara fyrir launafólk að færa sig um set – frá hinu opinbera til einkaaðila og öfugt – án þess að fórna áunnum lífeyrisréttindum.
Um 120 milljarða framlag ríkis og sveitarfélaga samhliða breytingum á fyrirkomulagi réttindaávinnslu stuðla að sjálfbærum rekstri lífeyrissjóða opinberra starfsmanna. Um leið verður ábyrgð launagreiðenda afnumin á A-deild Lífeyrissjóða starfsmanna ríkisins og Brúar lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga.
Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins er bent á að með þessum ráðstöfunum verði Ísland eitt örfárra ríkja í heiminum með fullfjármagnað og samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Og réttilega er fullyrt:
„Slík staða felur í sér afar þýðingarmikinn styrkleika til frambúðar, bæði fyrir fjármál hins opinbera og efnahagskerfið í heild, sem og allt launafólk í landinu.“
Tortryggni er eytt
Breytingarnar eru ekki aðeins mikilvægar út frá efnahagslegum forsendum heldur ekki síður að þar með verður jafnræðisreglan höfð í heiðri. Þjóðinni hefur í áratugi verið skipt upp í tvo hópa, eins og ég hef ítrekað bent á. Í Morgunblaðsgrein í apríl 2013 sagði meðal annars:„Þjóðin skiptist í tvo hópa. Í öðrum eru þeir sem njóta ríkisábyrgðar á lífeyrisréttindum. Í hinum hópnum eru þeir sem þurfa að sætta sig við að lífeyrisréttindin skerðist ef illa gengur við ávöxtun fjármuna lífeyrissjóðanna. Til að bæta gráu ofan á svart þarf síðari hópurinn að axla þyngri byrðar til að tryggja lífeyrisréttindi þeirra sem tilheyra fyrri hópnum.“
Óréttlætið heyrir sögunni til ef frumvarp fjármálaráðherra sem byggist á samkomulaginu nær fram að ganga. Enginn þingmaður getur staðið gegn þessari miklu réttarbót og allir hljóta að gera sitt til að greiða fyrir framgangi þess. Um leið og jafnræði kemst á mun draga úr þeirri tortryggni sem fengið hefur að grafa um sig í þjóðarsálinni.
Jarðvegur vantrausts
Grunur um ósanngirni og ójafnræði er frjór jarðvegur fyrir vantraust og tortryggni. Ein forsenda þess að helstu stofnanir samfélagsins, og þá ekki síst Alþingi og stjórnsýslan, öðlist að nýju traust almennings er að eyða grunsemdunum og tryggja jafnræði borgaranna.Í kjölfar hruns viðskiptabankanna lentu þúsundir einstaklinga og fyrirtækja í fjárhagslegum erfiðleikum. Ásakanir um að ekki hafi allir setið við sama borð við skuldauppgjör komu fram og þeim hefur aldrei verið svarað með trúverðugum hætti. Sumir voru sagðir njóta velvildar á meðan gengið var hart fram og af ósanngirni gagnvart öðrum. Eitur tortryggni hefur fengið að seytla um þjóðarsálina og stjórnvöld gert litlar tilraunir til að sjúga eitrið út.
Sama á við um hvernig staðið var að samningum við kröfuhafa föllnu bankanna – svokallaðri síðari einkavæðingu bankanna. Fjölmargar spurningar hafa vaknað og grunsemdir um að hagsmuna ríkisins og þar með skattgreiðenda hafi ekki verið gætt hafa fengið að grassera.
Það er lífsnauðsynlegt að öll spil verði lögð á borðið og upplýst í eitt skipti fyrir öll hvernig staðið var að verki. Almenningur á kröfu á því að fá fullvissu fyrir því að jafnræðisreglu hafi verið fylgt við skuldauppgjör einstaklinga og fyrirtækja. Það verður ekki gert án þess að öll nauðsynleg gögn verði opinber. Hið sama á við um einkavæðingu bankanna hina síðari.
Harkaleg viðbrögð við skýrslu eða samantekt formanns og varaformanns fjárlaganefndar vekja ekki vonir um að einhugur sé á Alþingi um að eyða tortryggni og byggja að nýju upp traust almennings. Þeir þingmenn sem samþykktu í nóvember 2012 að rannsaka „einkavæðingu og sölu hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og tengd málefni á árunum 1998-2003“ virðast ekki tilbúnir að varpa ljósi á eftirmál hrunsins. Þeir hafa ekki skipt um skoðun því þeir stóðu gegn breytingartillögu um að rannsóknin næði einnig til þess hvernig staðið var að samningum um að kröfuhafar eignuðust tvo banka.
Það ætti að vera sameiginlegt hagsmunamál þingmanna, stjórnsýslunnar og almennings að staðreyndir og réttar upplýsingar verði dregnar fram í dagsljósið. Augljóst er að það verður ekki hægt án þess að fá til þess óháða sérfræðinga til verksins svo hægt sé að forðast gamaldags skotgrafahernað íslenskra stjórnmála.
Ekki verður öðru trúað en að þingmenn beri gæfu til þess að taka höndum saman um slíka málsmeðferð. Vinnuvikunni gæti þar með lokið með jafn ánægjulegum hætti og hún byrjaði.
Höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.