Jafnræði
'}}

Ég var spurð að því í vikunni í útvarpsviðtali hvort það væri ekki svolítið tabú í íslenskum stjórnmálum að nefna frelsi. Ekki vildi ég taka undir það en á hinn bóginn gengur þorri manna á Vesturlöndum að frelsinu sem gefnu í öllum meginatriðum. Mögulega skýrir það afstöðuleysi sumra til ýmissa mála sem snerta frelsi okkar. „Æ, er þetta nú mikilvægasta málið í dag?“ er oft viðkvæðið hjá þeim sem ekki vilja lýsa sig beint andvíga málinu, einmitt af því að þeir almennt telja sig styðja frekar frelsi en helsi, en vilja samt ekki taka afstöðu til efnisins sem er kannski frekar tabú heldur en frelsið sem slíkt. Þetta er slæmt því frelsið er ekki sjálfgefið og að því er vegið leynt og ljóst nánast alla daga.

Jafnræði er einn hornsteina frelsisins. Allir stjórnmálamenn hérlendis myndu lýsa sér sem talsmönnum jafnræðis. Menn þreytast ekki á að selja sig sem baráttumenn fyrir jafnri stöðu kynjanna og lengi hefur verið haldið á lofti kröfunni um jafnrétti til náms, svo dæmi séu tekin af því hvaða hlutverk jafnræði leikur í íslenskum stjórnmálum. Þegar nánar er að gáð þá vinna stjórnmálamenn oftar en ekki gegn hugmyndinni um jafnræði, stundum fullkomlega meðvitað.

Í gildi eru til að mynda sérstök lög um ójafnræði í atvinnulífinu. Auðvitað bregður „ójafnræði“ hvergi fyrir í lagatextanum. Menn hafa fyrir löngu áttað sig á því að það er mikilvægt að mismunun sé falin undir jákvæðum orðum. Þess vegna heita lögin „Lög um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi“ og er markvisst ætlað að veita sumum fyrirtækjum betri rétt en öðrum. Ívilnun slær alla miklu betur en mismunun. Mismunun er tabú en ívilnun er orðin sérstakt keppikefli alltof margra.

Gengistryggð lán voru dæmd ólögmæt árið 2010 þrátt fyrir áralanga og óumdeilda viðskiptavenju sem meðal annars byggði á jafnræði lántakenda. Ekki tjóir að deila við dómarann en þá liggur fyrir að taka af öll tvímæli um það að Íslendingum sé öllum heimilt að taka öll þau lán sem í boði eru, erlend lán og gengistryggð lán. Frumvarp um þetta liggur fyrir alþingi. En þá kemur þar upp krafa um að þessi réttur verði takmarkaður við fámennan hóp manna og fyrirtækja.

Svo hefur verið farið út á ystu nöf við skattlagningu. Þá er ekki horfst í augu við vandann og skattarnir lækkaðir heldur er endurgreiddur virðisaukaskattur af vinnu sumra en ekki annarra. Sumir fá svo algera undanþágu.

Ég hef af því áhyggjur að margir séu að festast í sama fari og kollegar okkar víða erlendis sem hafa gleymt þessum mikilvæga þætti frelsisins, jafnræðinu. Upp úr slíku sinnuleysi sprettur pilsfaldakapítalismi (á ensku „crony capitalism“*) sem er versti óvinur frelsisins.

*„Crony capitalism“ er landlægt fyrirbrigði í stjórnmálum erlendis og er einn versti óvinur frelsisins.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 31. júlí 2016. / saa@althingi.is