Sjálfstæð peningastefna í opnu hagkerfi
'}}

Það eru ávallt mikil tíðindi þegar seðlabankastjórar tala. Helstu tíðindi seðlabankastjóra nútímans eru vaxtatilkynningar, ákvarðanir á stýrivöxtum sem ákvarða vexti í öðrum viðskiptum í því samfélagi sem bankarnir eiga að þjóna. Seðlabankar eru í raun ekki gamlar stofnanir. Þannig er elsti seðlabanki, eða þjóðbanki, veraldar talinn vera Sveriges Rigsbank, stofnaður 1668 og lítið eitt eldri en Bank of England, sem var stofnaður 1694. Sennilega hefur Englandsbanki verið áhrifameiri í veraldarsögunni en Sænski ríkisbankinn, því Englandsbanki varð einn af helstu bönkum í veröldinni þegar London varð miðstöð heimsviðskipta í kjölfar Napóleonsstyrjalda, sérstaklega ósigurs herja Napóleons í Waterloo 1815. Frægðarsól Sænska ríkisbankans er þó mest nú um stundir vegna verðlauna, sem bankinn veitir á Nóbelshátíðum vegna framlags í hagfræðivísindum.Það er fyrst árið 1853 að orðið seðlabanki kemur fyrir í íslensku máli. Það er í ræðu Páls Melsted konungsfulltrúa á Alþingi. Umræðuefnið er „Mál um peningaskort“.

Ákvarðanir og áhrif

Það er orðin áleitin spurning hvort ákvarðanir seðlabankastjóra um stýrivexti hafa nokkuð að segja í litlum og opnum hagkerfum. Stýrivextir hafa fyrst og fremst áhrif á skammtímavexti. Þannig starfa Sænski ríkisbankinn og Danski þjóðbankinn á Evrópsku efnahagssvæði þar sem evra er áhrifamesti gjaldmiðillinn. Starfsvæði þessara banka er þó ólíkt stærra en starfsvæði Seðlabanka Íslands. Þessir bankar eiga það þó sameiginlegt að þeir starfa í opnum hagkerfum þar sem frjálst flæði fjármagns er ein af meginstoðum efnahagslífs. Þetta á ekki aðeins við um frjáls vöru- og þjónustuviðskipti, heldur einnig lánahreyfingar, skammtímahreyfingar og spákaupmennsku.Með spákaupmennsku er átt við fjármagnshreyfingar þar sem eini tilgangurinn er að ná hagnaði af vaxtamun og gengisbreytingum á skömmum tíma. Með því er til dæmis átt við vaxtamunaviðskipti þar sem tilgangurinn er að hafa hagnað af vaxtamun milli tveggja mynta, til dæmis stýrivaxta á Íslandi, sem eru um 6% og á evrusvæði þar sem stýrivextir eru sem næst 0%. Þessi vaxtamunur er ekki áhættulaus, því gengisbreyting getur þurrkað ábata út.

Auðvitað eru peningar nauðsynlegur hlutur í þróuðu samfélagi. Peningar eru til viðskipta, til geymslu, og til lánaviðskipta. Þegar peningar eru til geymslu og lánaviðskipta er forsendan sú að jafnvirðis sé gætt í tíma og hóflegt gjald sé greitt fyrir leiguna yfir ákveðið tímabil.

Fjölmyntaland

Ísland er fjölmyntaland. Á Íslandi er opið hagkerfi með miklum utanríkisviðskiptum. Á síðasta ári voru vöru- og þjónustuviðskipti sem næst 50% af landsframleiðslu. Á árinu 2014 voru 273 fyrirtæki, þ.e. 1% af fjölda fyrirtækja, með 25% af samanlagðri veltu, með uppgjör í erlendri mynt. Að auki voru vel flest fyrirtæki með lán í erlendri mynt og á erlendum vaxtakjörum. Þessi fyrirtæki koma sér undan stýrivaxtaákvörðunum seðlabankastjóra á Íslandi eða peningastefnunefndar bankans. Þegar forystumenn sveitarfélaga eru spurðir um lántökur sveitarfélaga, vegna spurningar um bann við erlendum lántökum sveitarfélaga, þá kemur í ljós að lán sem tekin eru á öllum árum nema einu frá árinu 2005, eru hagstæðari í erlendum myntum, samkvæmt myntvog, heldur en lántökur í íslenskum krónum. Þá er átt við þau kjör sem eru á langtímalánum. Munurinn verður enn meiri þegar litið er á lán á hlaupareikningsvöxtum, en þeir vextir eru líklega hærri á Íslandi en í nokkru öðru þróuðu hagkerfi.

Tvö hagkerfi

Því má segja að á Íslandi séu tvö hagkerfi inni í fjölmyntahagkerfi. Annars vegar krónuhagkerfi sem almenningur og smáfyrirtæki búa við og greiða háa vexti og hins vegar stærri fyrirtæki sem eiga þess kost að nota erlendar myntir með erlendum vöxtum. Það kann að vera að fyrirtæki greiði hluta af vaxtamun til baka með gengistapi en njóta engu að síður ávinnings. Greinarhöfundur veit að mikill fjöldi þingmanna virðir meira áhrifamátt peningastefnu með háum vöxtum en frelsi í lánaviðskiptum. Hvað sem því líður má þó segja að opinber fyrirtæki eins og Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur beiti sniðgöngu við peningastefnu Seðlabankans með því að fjármagna sínar fjárfestingar með erlendum lánum. Sama er um samgöngufyrirtæki. Þau fjármagna sig nær eingöngu með erlendum lánum. Og þjóðin nýtur góðs af þessari sniðgöngu í verði á farseðlum.

Hvað er til ráða?

Von er að spurt sé: Hvað er til ráða? Snilldarhagfræðingar hafa talað um að svokölluð „verðtrygging“ sé orsök alls böls. Með „verðtryggingu“ er átt við að breytileiki vaxta sé ákvarðaður með hlutlægri mælingu. „Óverðtryggð lán“ eru undirstaða hamingju, en með „óverðtryggðum lánum“ er átt við lán þar sem breytileikinn er ákvarðaður með útreiknuðum væntingum peningastefnunefndar Seðlabankans.Auðvitað er lausnarorðið stöðugleiki. Nærtækt er að spyrja hví erlendir aðilar vilja ekki kaupa íslenska banka. Svarið er tvíþætt. Erlendir aðilar hafa ekki áhuga á viðskiptum með íslenska krónu. Og erlendir aðilar hafa nú þegar þau bankaviðskipti hér í landi, sem þeir hafa áhuga á. Þau viðskipti eru utan áhrifasvæðis Seðlabanka Íslands og utan skattlands fjármálaráðherra.

Hin áleitna spurning verður þó ávallt: Getur sjálfstæð peningastefna með örmynt þrifist í opnu, örsmáu hagkerfi? Þá er átt við önnur markmið en þau sem felast í stöðugleika og öryggi. Þau markmið eru meðal annars mynt í höftum og mjög þröng útlánastýring. Höft og útlánastýring eru annars tæki en ekki markmið.

Jón og Arnas

En ef til vill er það svo með svokallaða bjargvætti og heimaspámenn í fjármálum, að þeim sé líkt ákomið og Jóni Marteinssyni sem fær mann sýknaðan, en drekkti honum í síkjum sama kvöldið. Þeir, sem heimaspámenn bjarga, verða glataðir fyrr en varðir.Minnumst orða Arnas Arnæus: „Það voru ekki mjölbætur sem ég æskti þessu mínu fólki og ekki hallæriskorn, heldur betri verslun.“

Höfundur er alþingismaður.