Í dag kemur þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins saman til fundar í Reykjavík. Reglulegt samstarf Alþingis og Evrópuþingsins er mikilvægt og á sér þrjátíu ára sögu. Á undanförnum árum hefur á fundum nefndarinnar verið fjallað um stór hagsmunamál eins og EES-samstarfið, makríldeiluna, fjármálakreppuna, Schengen og flóttamannastrauminn, fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna og möguleg áhrif á Ísland, svo og aðildarviðræðurnar við ESB á meðan á þeim stóð.
Á dagskrá fundarins í dag eru m.a. þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi vegna átakanna í Úkraínu. Vert er að undirstrika að þvingunaraðgerðirnar eru sameiginleg viðbrögð Vesturlanda með þátttöku yfir 40 ríkja, þar á meðal ríkja ESB, EFTA-ríkjanna, Bandaríkjanna, Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálands.
Í huga undirritaðs er nauðsynlegt að spyrna af krafti við yfirgangi Pútíns og brotum Rússa á alþjóðalögum og gera Kremlverjum ljóst að ekki verður liðið að þeir brjóti á fullveldi ríkja og breyti landamærum í Evrópu með vopnavaldi. Málið snýr ekki bara að Úkraínu heldur öllum ríkjum sem eiga landamæri að Rússlandi, sér í lagi þeim sem áður var haldið í ánauð Sovétríkjanna eins og Eystrasaltsríkjunum, sem Pútín hefur hótað beint og óbeint undanfarin misseri. Ísland á svo sannarlega heima í þeirri breiðfylkingu vestrænna lýðræðisríkja sem standa saman að þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi.
Eins og fram hefur komið er kostnaður okkar Íslendinga af þátttöku í þvingunaraðgerðunum mikill vegna gagnþvingunaraðgerða Rússa sem beinast gegn fiskútflutningi okkar. Af vöruútflutningi okkar árið 2014 fóru um 5% til Rússlands sem jafngildir um 1,5% af vergri landsframleiðslu. Nú er útlit fyrir að gagnaðgerðir Rússa stöðvi yfir 80% þessara viðskipta með tilheyrandi búsifjum fyrir sjávarútveginn og sjávarbyggðir víða um land. Sannfærandi rök hafa verið færð fyrir því að Ísland sé eitt þeirra ríkja sem gagnaðgerðirnar koma hlutfallslega hvað verst niður á.
Íslensk stjórnvöld hafa sett sig í samband við framkvæmdastjórn ESB og kallað eftir því að ríki sem standa að þvingunaraðgerðum sýni samstöðu og styrki viðskiptatengsl sín á milli í þeim vöruflokkum sem gagnþvinganir Rússa beinast gegn. Ég mun taka þetta mál upp með Evrópuþingmönnum á fundinum í dag og kalla eftir því að tollar verði lækkaðir og markaðsaðgengi bætt í Evrópu fyrir þær sjávarafurðir sem áður voru fluttar til Rússlands. Eðlilegt er að bandalagsríki í þvingunaraðgerðum sýni samstöðu um að takmarka það fjárhagslega tjón sem gagnþvinganir hafa í för með sér. Einhver kynni að telja óraunhæft að ætlast til þess að ESB opni markaði sína fyrir makríl á meðan Ísland og ESB eiga í deilu um veiði og skiptingu makrílstofnsins. Ef raunverulegur vilji og forysta er til samstöðu um þvingunaraðgerðirnar ættu slíkar aðstæður ekki að standa í veginum. Það er holur hljómur í málfluningi ESB og Bandaríkjanna þegar þau réttilega fara fram á samstöðu í þessum aðgerðum en eru ekki tilbúin til að sýna samstöðu sem lágmarkar skaða þeirra sem taka þátt í þeim. Ef Vesturlönd ætla að snúa bökum saman gegn yfirgangi Pútíns þurfa þau að standa saman alla leið, líka þegar kemur að því að minnka tjón einstakra ríkja sem hlýst af þátttöku í þvingunaraðgerðunum. Evrópusambandið hefur alla tíð kynnt sig sem boðbera samvinnu og friðar í Evrópu, í dag gefst því tækifæri til að sýna það í verki.