Ég heiti Þór Sigurgeirsson og er oddviti sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi. Ég hef verið bæjarstjóri Seltjarnarness frá árinu 2022. Ég er fæddur það góða ár 1967 og er því 58 ára gamall.
Hef alltaf búið á Nesinu - ekkert annað kom til greina.
Giftur henni Maríu minni og eigum við fjögur börn.
Áhugamálin eru fyrir utan pólitíkina, íþróttir / golf, matargerð og sveitin en við eigum bústað í Kjósinni og þar erum við oft.
Ég hef alla tíð starfað við sölu og markaðsmál, lengst af við sölu og þjónustu trygginga.
Hef óbilandi trú á okkar stefnu eins og forverar mínir hér. Enda hefur hér verið hreinn meirihluti sjálfstæðimanna alla tíð.
Að leiða sjálfstæðismenn og vera bæjarstjóri í heimabænum finnst mér mikill heiðiur. Traust og trú fólksins sem kýs okkur og hefur þar með trú á stefnu flokksins er mér afar kær.
Minn metnaður er að veita afbragðs þjónustu sem er mikilvægt. Starf mitt sem bæjarstjóri og bæjarfulltrúi er ekkert annað en hreint þjónustustarf. Lét það verða mitt fyrsta verk að setja símanúmer mitt 780 7777 í bæjarblaðið. Vil að fólk hringi og fái þjónustu þegar því hentar.
Tengslin við íbúana (kjósendur) eru dýrmætust. Að mæta á eins mikið af viðburðum í bænum og vera eins sýnilegur mögulegt er. Gleymum ekki sundlaug bæjarins en þar er ég fastagestur og þar er alltaf viðtalstími.
Eins finnst mér mikilvægt að blanda mér af og til í málefnlega umræðu á íbúasíðu bæjarins þegar umræðan beinist að bæjarmálum og ég hef mögulega svör.
Mitt leiðarljós er að það þarf að vera gaman. Höfum gaman að þessu saman og kjósum XD.
