Nýir stjórnarmenn voru kjörnir á aðalfundi Varðar – Fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík á aðalfundi fulltrúaráðsins í gær. Sjálfkjörið var í sæti stjórnarmanna, en Egill Þór Jónsson, teymisstjóri sértækrar búsetu á velferðarsviði Reykjavíkurborgar og varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, var kjörinn formaður. Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, stýrði fundinum.
Í stjórn Varðar voru kjörin þau Einar Hálfdánarson, Einar Hjálmar Jónsson, Janus Arn Guðmundsson, Óttar Guðjónsson, Rúna Malmquist, Sigurður Helgi Birgisson og Silja Rán Arnarsdóttir.
Á aðalfundi Varðar eru sjö stjórnarmenn kjörnir auk formanns. Stjórn Varðar er að öðru leyti skipuð forystufólki úr sjálfstæðisfélögunum í Reykjavík.
Séra Vigfús Bjarni Albertsson, fráfarandi formaður Varðar, kvaddi Varðarstarfið í bili undir standandi lófataki fundarmanna og brýndi sjálfstæðismenn í Reykjavík til góðra verka fram að næstu kosningum. Af stjórnarstörfum létu einnig þau Einar Sigurðsson og Nanna Kristín Tryggvadóttir.
Góð mæting var á aðalfundinn af hálfu fulltrúaráðsmeðlima. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ávörpuðu fundarmenn auk Einars Sigurðssonar, Andreu Sigurðardóttur, formanns Hvatar og Nönnu Kristínar Tryggvadóttur, formanns Landsambands sjálfstæðiskvenna.