Ég býð mig fram í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Hef átt sæti í bæjarstjórn undanfarin 4 ár, verið formaður skipulags- og umferðarnefndar og stjórnar veitustofnana á Seltjarnarnesi.
Ég hef búið á Nesinu í 37 ár og vil halda áfram því verkefni að efla og bæta Seltjarnarnes.
Ég er Ph.D.-verkfræðingur og settur forstjóri og stjórnarformaður Reykjalundar. Rak eigið hugbúnaðarfyrirtæki í 27 ár og hef einnig starfað sem vísindamaður við HR. Samhliða aðalstarfi hef ég alltaf gegnt forystustörfum í félagsmálum, m.a. formennsku í Verkfræðingafélaginu.
Stefnumál mín snúa m.a. að ábyrgri fjármálastjórn, aðhaldi í rekstri og skynsamlegu viðhaldi eigna. Ég vil bæta þjónustu, ásýnd og íbúagæði. Ég vil að skólastarf á öllum stigum sé framúrskarandi. Þá vil ég vil efla æskulýðsstarf, huga betur að þörfum eldra fólks og gera Seltjarnarnes að enn fjölskylduvænna samfélagi. Seltjarnarnes verði fyrirmynd annarra sveitarfélaga á Íslandi.
Ég er gift Sæmundi Þorsteinssyni verkfræðingi og lektor við HR. Við eigum þrjá syni, 29-32 ára, og tveir þeirra leika með meistaraflokki Gróttu í handbolta.
Ég hef brennandi áhuga á velferð Seltirninga. Mig langar að endurgjalda allt það góða sem ég hef þegið á Seltjarnarnesi með því að bjóða fram krafta mína, reynslu og þekkingu í þjónustu fyrir samfélagið á Nesinu.
