Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd

Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipunar landsins og hefur þjónað hlutverki sínu vel. Engin knýjandi nauðsyn er til þess að umbylta efni hennar. Stjórnarskráin kveður á um grundvallarreglur lýðveldisins og mannréttindi borgaranna. Hyggja þarf vel að breytingum á stjórnarskránni og ráðrúm þarf að gefast, bæði innan þings og utan, til að gaumgæfa tillögur að breytingum á henni. Heildarendurskoðun sem umturnar öllum ákvæðum stjórnarskrárinnar samræmist illa sjónarmiðum um réttaröryggi og fyrirsjáanleika. Að sama skapi telur Sjálfstæðisflokkurinn mikilvægt að breytingar á stjórnarskrá séu gerðar í víðtækri pólitískri sátt og að undangenginni vandaðri og málefnalegri umræðu.

Endurskoða þarf hlutverk og stöðu forseta Íslands. Setja þarf embættinu skýrt hlutverk og valdmörk. Landsdómur skal lagður niður samhliða endurskoðun á ákvæðum í lögum um ráðherraábyrgð.

Skilgreina þarf eftirlitshlutverk Alþingis nánar. Gera þarf betur grein fyrir hlutverki stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis með það fyrir augum að girða fyrir pólitískt at og tryggja betur virkt og faglegt eftirlit meðal annars með störfum ráðherra og verkefnum þeirra.

Einfalda þarf og skýra betur regluverk er snýr að framkvæmd kosninga í landinu. Óþarft er að gera grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi kosningamála.

Þegar hætta steðjar að reynir á að allir þættir ríkisvalds standi undir ábyrgð sinni til að verja undirstöður stjórnarskrárinnar, réttarríkið og frjálslynda, lýðræðislega stjórnskipun í anda sjálfstæðisstefnunnar. Á tímum heimsfaraldurs reyndi mikið á þá þætti og mikilvægt að farið verði yfir hvernig þar tókst til af hálfu hinna mismunandi handhafa ríkisvaldsins.

Ályktun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar samþykkt á 44. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2022.