Gauti Jóhannesson oddviti sjálfstæðismanna í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi:
Það stendur mikið til á laugardaginn þegar í fyrsta skipti verður kosið til nýrrar sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags Borgarfjarðar eystri, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Þetta verður önnur atrennan sem gerð er að þessum kosningum sem frestað var í apríl vegna kórónuveirufaraldursins og óþarfi að fjölyrða um þau ósköp.
Með kosningum þann 19. september verður stigið stórt skref í að fækka sveitarfélögum á Austurlandi, nokkuð sem hefur verið sveitarstjórnarfólki ofarlega í huga til margra ára. Má í því sambandi nefna að á aðalfundi SSA 2010 var samþykkt samhljóða að endurskipa í starfshóp sem: „ ...haldi áfram vinnu við að greina kosti og galla sameiningar Austurlands í eitt sveitarfélag. Vinnan byggi á tímamótasamþykkt 43. aðalfundar SSA og styðst einnig við samþykkt stjórnar SSA frá 2. nóvember 2009 um áherslur sem þar koma fram.“ Á sama vettvangi 2015 var bókað: „Aðalfundur SSA haldinn á Djúpavogi 2. og 3. október 2015 skorar á Samband íslenskra sveitarfélaga og innanríkisráðuneyti að setja þegar af stað vinnu til að móta hugmyndir að lýðræðis og stjórnkerfi svo hugmyndir um frekari sameiningu sveitarfélaga geti orðið að veruleika.“
Undirritaður hefur lengi verið talsmaður sameiningar sveitarfélaga og fagnar þeim áfanga sem við erum að ná. Það er líka ánægjulegt hve margir eru tilbúnir að gefa kost á sér til setu í sveitarstjórn og heimastjórnum sem staðsettar verða í „gömlu“ sveitarfélögunum fjórum.
Nú í aðdraganda kosninganna keppast frambjóðendur, eðli málsins samkvæmt, við að kynna stefnumál sinna framboða og markmið. Það er vel, enda þurfa kjósendur að geta tekið upplýsta ákvörðun á kjördag, hvernig atkvæði þeirra er best varið.
Fyrir frambjóðendur með reynslu af sveitarstjórnarmálum er einnig freistandi að nota tækifærið, horfa til baka og rifja upp og vekja athygli á ýmsum framfaramálum og/eða framkvæmdum sem þeir hafa átt þátt í að gera að veruleika. Af nógu er að taka í þeim efnum enda hafa þau sveitarfélög sem nú eru að sameinast verið svo lánsöm að hafa í sínum röðum öflugt fólk sem hefur látið að sér kveða.
Það breytir ekki því að í gegnum árin hefur það verið samstaðan sem hefur skilað okkur mestum árangri og að flestir þeir áfangar sem hafa unnist Austurlandi á undanförnum árum náðust með samstilltu átaki sveitarstjórnarfólks og íbúa.
Gildir þá einu hvort um er að ræða samgönguframkvæmdir s.s. Axarveg, Fjarðarheiðargöng, veginn um Berufjarðarbotn eða Njarðvíkurskriður, flutning opinberra starfa, eða virkjanaframkvæmdir svo fátt eitt sé nefnt.
Til að virkja þennan samtakamátt í nýju sveitarfélagi er mikilvægt að forystan hafi til að bera reynslu, þor og frumkvæði til að sameina kraftana og samræma mismunandi sjónarhorn. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins eru til í slaginn og vilja verða þetta leiðandi afl.
Kjósum XD þann 19. – fyrir okkur öll.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. september 2020.