Ég gef kost á mér í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði laugardaginn 7. febrúar 2026. Ég vil leggja mitt af mörkum til áframhaldandi sterkrar og ábyrgðarfullrar forystu flokksins í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Ég er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði og þekki bæinn okkar vel. Á þessu kjörtímabili hef ég verið varamaður og síðar aðalmaður í umhverfis- og framkvæmdaráði, auk annarra trúnaðarstarfa fyrir flokkinn. Síðastliðin 30 ár hef ég starfað við sölu, þar af 12 ár í prentiðnaði og 18 ár við auglýsingasölu og sem verkefnastjóri söludeildar á Fréttablaðinu.
Í dag starfa ég sem umsjónarmaður fasteigna hjá Hafnarfjarðarbæ og ber þar ábyrgð á húsnæði Engidalsskóla og leikskólans Álfabergs. Sú reynsla hefur styrkt mig í þeirri sannfæringu að gott viðhald eigna bæjarins og vandað umhverfi skipta sköpum fyrir lífsgæði íbúa. Ég brenn fyrir því að efla og viðhalda innviðum bæjarins, fegra umhverfið og styrkja öflugt menningar- og mannlíf. Menningin í Hafnarfirði er í blóma, með Bæjarbíói, Hellisgerði, Jólaþorpinu og Byggðasafninu. Nýtt og glæsilegt bókasafn mun bætast við á árinu í menningarflóru okkar Hafnfirðinga, og mikilvægt er að halda þeirri vegferð áfram. Jafnframt vil ég leggja ríka áherslu á bætta aðstöðu allra íþróttafélaga og annarra tómstunda fyrir unga sem aldna.
Með vilja, reynslu af mannlegum samskiptum og vandvirkni býð ég fram krafta mína og óska eftir stuðningi ykkar í prófkjörinu.
