MEIRI ÁRANGUR

MEÐ STÓRSÓKN OG UMBREYTINGU Á MENNTAKERFINU

Við stöndum á tímamótum. Við getum látið reka á reiðanum eða skapað samfélag þar sem hvert barn blómstrar í skóla. Miklu fjármagni er varið í grunnskólakerfið en árangurinn er ekki eftir því. Í samfélagi sem byggir á jöfnum tækifærum er það óviðunandi að stór hluti barna hafi ekki grunnfærni í lesskilningi eftir tíu ára skyldunám.  


Afleiðingar slaks námsárangurs eru alvarlegar og m.a. þær að börn njóta ekki jafnra tækifæra. Smám saman molnar undan lýðræðinu og samkeppnishæfni okkar Íslendinga dalar - sem rýrir lífsgæði okkar allra. 


Þjóðir sem ná árangri í menntamálum búa við bestu lífskjörin - þar viljum við Íslendingar vera og þar getum við verið.

Þess vegna boðar Sjálfstæðisflokkurinn stórsókn og umbreytingu á menntakerfinu:

1

Biðlistum eftir leikskólaplássum verði útrýmt

Það verður meðal annars gert með því að ryðja úr vegi hindrunum fyrir fjölbreytt rekstrarform og með því að setja leikskólann í meiri forgang hjá sveitarstjórnarstiginu. 

2

Börn njóti íslensks málumhverfis í leikskólum

Markmiðið er að meirihluti starfsfólks leikskóla búi yfir hæfni í íslensku. Því starfsfólki sem uppfyllir ekki það skilyrði skal boðið upp á íslenskukennslu.

3

Jákvæð samskipti foreldra og skóla

Mikilvægt er að fyrstu samskipti skóla og heimilis séu jákvæð og uppbyggileg, að umsjónarkennari bendi forsjáraðilum með markvissum hætti á það jákvæða sem umsjónarnemandinn hefur fram að færa. Með þessari aðgerð er byggð brú á milli heimilis og skóla og jákvæð tengsl mynduð. Jákvætt samtal er sérlega ábatasamt fyrir börn sem standa höllum fæti, hvort heldur náms- eða félagslega og ávextir samtalsins frábær forvörn. 

4

Betur fylgst með lestrarkunnáttu 

Stöðumat á framvindu lestrarkennslu gefur nauðsynlegar upplýsingar um lestrarhæfni hvers barns á hverjum tíma. Þannig er hægt að grípa inn í með sértækum stuðningi ef þess gerist þörf. Skólakerfið missir því ekki af þeim nemendum sem ekki hafa náð tökum á lestri. 

5

Ný og gagnlegri aðalnámskrá

Skrifa þarf nýja aðalnámskrá þar sem þekkingarviðmið og beiting þeirra eru skýr. Námskráin á að vera aðgengilegur leiðarvísir fyrir skólastjórnendur og kennara og einnig auðskilin fyrir nemendur og foreldra. Það er núverandi námskrá alls ekki. Þekkingarmiðuð námskrá eykur sköpun og gagnrýna hugsun enda þekking grunnur beggja.

6

Námsmat byggt á bókstöfum lagt niður

Námsmat í núverandi námskrá er illskiljanlegt fyrir kennara, foreldra og nemendur og mikil eftirspurn eftir breytingum. Matsviðmið námskrárinnar, sem byggjast á textum táknuðum með bókstöfum, verða lögð af. Skólar hafi frelsi til að útfæra eigið námsmat sem er réttmætt og áreiðanlegt. Mikilvægt er að það verði skiljanlegt fyrir nemendur og foreldra.  

7

Samræmd próf tekin upp að nýju 

Samræmd próf varpa ljósi á hvernig nemendum hefur tekist að tileinka sér sem flesta þætti aðalnámskrár. Prófin eru hvetjandi og stuðla að jafnræði og gagnsæi. Það leiðir til úrbóta og endurgjafar fyrir nemendur, foreldra, skóla og menntayfirvöld.

8

Símalausir skólar

Skólinn á að vera griðastaður nemenda hvað utanaðkomandi áreiti varðar. Félagsfærni hefur farið mikið aftur en hún byggist á þjálfun. Nemendur tala miklu minna saman og hefur staðan ýtt undir einmanaleika, depurð og kvíða. Snjallsíminn er líklegasta breytan í þessu samhengi. Aðstaða til að geyma síma frá upphafi til loka skóladags þyrfti að vera til staðar í skólum.

9

Stórbætt námsgögn og nýsköpun innleidd með menntatækni og gervigreind

Þróa þarf ný og betri námsgögn til að ná árangri. Eftir þessu kalla kennarar þannig að þeir geti einbeitt sér að kennslunni. Mikilvægt er að nýta menntatækni til nýsköpunar í fjölbreyttri námsgagnagerð. Gervigreind verði nýtt til að búa til einstaklingsmiðaðri námsgögn en við þekkjum. Kennarar þurfa að hafa aðgang að góðri endurmenntun þannig að tæknin nýtist þeim sem best. 

10

Valfrelsi í menntakerfinu aukið - fé fylgi nemanda

Samhliða opinberum rekstri á að nýta kosti einstaklingsframtaksins með öflugum sjálfstætt starfandi skólum og nýsköpun á sem flestum sviðum. Hið opinbera á að greiða það sama með nemendum, óháð rekstrarformi skóla og í því skyni er mikilvægt að fé fylgi hverjum nemanda til að valfrelsi foreldra og barna sé tryggt. Um leið er starfsmöguleikum kennara fjölgað með fleiri gerðum skóla.

11

Hreyfing verði hluti af skóladeginum alla daga

Hreyfing stuðlar að bættum námsárangri og einbeitingu barna og hún hefur einnig jákvæð áhrif á andlega og líkamlega líðan og félagsfærni. Mikilvægt er að koma hreyfingu inn í upphaf skóladags hjá sem flestum nemendum auk þess sem efla þarf leikgleði og útikennslu. 

12

Skóli án aðgreiningar endurskilgreindur - aukið valfrelsi foreldra

Endurskilgreina þarf hugmyndina um skóla án aðgreiningar til þess að tryggja að allir þeir nemendur sem mögulega þurfa aukinn stuðning fái hann. Ljóst er hluta nemenda getur farnast betur í sérúrræðum og því mikilvægt að metið verði hvernig og hvort skóli án aðgreiningar nái markmiðum um að tryggja velsæld og árangur allra barna í skólum landsins. Foreldrar barna eiga að hafa frelsi til þess að velja sérúrræði fyrir börn sín. Staðan er í dag sú að ekki fá allir nemendur inni í sérúrræðum sem vilja. 

13

Móttökuskólar eða -deildir fyrir börn sem eru nýflutt til landsins

Æskilegt er að börn sem koma til landsins og ekki tala íslensku taki sín fyrstu skref í grunnskólagöngunni í móttökuskóla eða -deild þar sem öll áhersla er á íslensku og íslenska menningu. Lestrarfærni þeirra verði metin áður en þau hefja nám með sínum jafnöldrum hérlendis. Um er að ræða brú í takmarkaðan tíma til að skólastarf þeirra og annarra gangi sem best. Markmiðið er að mæta betur þörfum hvers barns.

14

Staða geðheilbrigðismála efld í skólakerfinu og brotthvarf minnkað

Eftir aðgerðir vegna heimsfaraldursins hefur skapast töluvert los í ákveðnum nemendahópum. Brotthvarf er of mikið í framhaldsskólum. Nemendur finna síður tilgang, eru meira einmana, finna til depurðar og eru því líklegri til að hætta námi en ella. Halda þarf mun betur utan um viðkvæma nemendahópa og leita allra leiða til að styðja þá í gegnum námið, m.a. með mun öflugri geðheilbrigðisþjónustu við ungt fólk og fjölskyldur þeirra. 

15

Fjölga rýmum fyrir iðnnema í menntakerfinu

Tvísetningu verði beitt tímabundið til að koma til móts við þann stóra hóp „eldri“ nemenda sem ekki hefur fengið inngöngu í iðnnám. Dagskólinn verður nýttur enn betur og kvöld- og helgarnámskeiðum komið á legg.

16

Skýr markmið um betri árangur í PISA og læsi

Með aðgerðum í menntamálum ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að koma íslensku menntakerfi á þann stað sem það á heima, í flokk þeirra þjóða sem skara fram úr. Allir nemendur sem ekki eru með námslegar hamlanir geti lesið sér til gagns.

17

Kennaramenntun verði endurskoðuð

Of mikið er um að kennarar snúi sér að öðrum störfum en kennslu og sú gagnrýni hefur komið fram að námið búi þá ekki nægilega vel undir starfið innan kennslustofunnar. Kennaranámið verður að vera praktískara og þarf í auknum mæli að bjóða upp á örnám til að kennarar geti jafnt og þétt bætt færni sína á mikilvægum sviðum. Mætti þar nefna lestrarkennslu, stærðfræði, auk þekkingar til að vinna með tækni og gervigreind til að geta undirbúið börn fyrir framtíðina.

18

Kennarar og starfsfólk skóla njóti aukinnar virðingar

Starfsfólk skóla gegnir einu mikilvægasta starfi samfélagsins. Mikilvægt er að auka virðingu þess með bættri og markvissri umræðu. Starfsfólk skóla kemur að lífi okkar allra og hefur langoftast jákvæð og uppbyggileg áhrif á börnin okkar. Kennarar og starfsfólk eiga að hafa frelsi til að útfæra góðar hugmyndir sem bæta skólastarf. Mikilvægt er að skólastjórnendur beri ábyrgð á skólastarfi og hafi rými til að umbuna sérstaklega því starfsfólki sem skarar fram úr og er leiðandi hvað varðar allar framfarir barna.

19

Fjölga nemendum í STEAM og heilbrigðisvísindum

Mikilvægt er að fjölga heilbrigðismenntuðum til að mæta þörf á heilbrigðisþjónustu til framtíðar.

Þá er mikilvægt fyrir samkeppnishæfni þjóðarinnar að mennta fleiri í raunvísinda-, lista- og tæknigreinum (STEAM) sem atvinnulífið kallar eftir. 


20

Allt háskólanám hefjist með gervigreindarnámi

Laga þarf nýtt reiknilíkan háskóla að þeim veruleika að gervigreind er hratt og örugglega að breyta öllu námi um allan heim. Þær þjóðir sem nú ná mestum árangri með notkun gervigreindar hafa gengið lengst í því að flétta gervigreind inn í menntun. Fjárveitingar til háskóla þurfa að hvetja til þess að allir háskólar bjóði nemendum á fyrsta ári upp á undirstöðunámskeið í notkun gervigreindar til að ná auknum árangri á sínu sviði. 


21

Færri og öflugri háskólar

Enginn íslenskur háskóli er á meðal 600 bestu háskóla heims. Mikilvægt er að snúa vörn í sókn og sameina háskólana í færri og öflugri einingar þar sem gæði og þarfir nemenda eru í fyrirrúmi.

Kæri kjósandi,

með aðgerðum okkar í Sjálfstæðisflokknum horfum við fram á bjartari tíma í menntamálum. Með okkur í forystu mun jafnræði nemenda aukast, líðan batna, möguleikum þeirra fjölga og lýðræðið styrkjast. Betur menntuð þjóð getur skapað fleiri tækifæri og öflugri fyrirtæki sem auka lífsgæði allra. Til þess þurfum við að styrkja grunninn, tryggja að allir geti lesið sér til gagns og árangur okkar verði sambærilegur við þær þjóðir sem best standa. 

Börnin okkar eru það mikilvægasta í lífi okkar allra og þau eiga skilið að fá fólk við stjórnvölinn sem setur þau í fyrsta sæti, bæði í orði og á borði. Tökum höndum saman, foreldrar, afar, ömmur og aðrir, látum verkin tala og styðjum raunverulegan árangur í menntamálum.

Kjósum Sjálfstæðisflokkinn.