Umhverfis-, loftslags- og auðlindamál

Umhverfismál – loftslagsmál

Íslendingar eiga mikið undir umhverfinu og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Sjálfbær þróun mætir kröfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða. Hún byggist á þremur meginstoðum; vistfræðilegri, félagslegri og efnahagslegri, sem eru óaðskiljanlegar og háðar hver annarri. Aðgerðir og ákvarðanir varðandi nýtingu og vernd náttúrunnar skulu teknar með sjálfbærni og framtíðarafkomu þjóðarinnar að leiðarljósi.

Loftslagsbreytingar sökum of mikils koldíoxíðs í lofti og sjó er ein stærsta ógnin við öryggi og efnahag þjóðarinnar. Metnaðarfull markmið Íslands um samdrátt í losun og bindingu kolefnis og markmið um kolefnishlutleysi kalla á skýra sýn og nálgun sem á að byggja á frumkvæði og framtaki einstaklinga og atvinnulífs. Hlutverk stjórnvalda er að skapa það umhverfi að hægt sé að ná settum markmiðum og vega þar þungt aðgerðir sem hvetja til orkuskipta í lofti, láði og legi. Í því samhengi er ljóst að afla þarf grænnar orku svo hægt sé að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir græna orkugjafa. Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því að orku- og loftslagsmál séu nú í sama ráðuneyti, enda sitthvor hlið á sama peningnum þar sem óframkvæmanlegt er að ná settum markmiðum í loftslagsmálum nema til komi aukin græn orka.

Íslendingar eiga að beita sér af fullum krafti fyrir verndun lífríkis sjávar, þar á meðal aðgerðum sem beinast gegn súrnun og hækkun hitastigs, enda eigum við mikið undir gjöfulum auðlindum hafsins. Líkt og með hönnun og setningu aflamarkskerfisins, á Ísland að vera leiðandi í öruggri, sjálfbærri og framsýnni þróun á reglum og hvötum til að bregðast við versnandi heilsu sjávar. Gera á greiningu á helstu hættum sem steðja að sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda vegna koldíoxíðsmengunar og hafinu gerð sérstök skil í aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.

Einkaframtakið og eignarétturinn er besta náttúruverndin. Greiða skal leið einkaframtaks til að hafa jákvæð umhverfisleg áhrif og auka með því líkur á árangri. Líta ber á nýsköpun og samstarf frumkvöðla, fyrirtækja og opinberra aðila sem jákvæða viðbót í sameiginlegt átak til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Ljóst er að á næstu árum munu eiga sér stað grundvallarbreytingar á hagkerfum heimsins sökum loftslagsbreytinga og vegna viðbragða stjórnvalda, atvinnulífs, og einstaklinga við þeim. Ísland býr að einstökum náttúruauðlindum, aðgengi og þekkingu á hafinu, sterku vísinda- og frumkvöðlasamfélagi og ímynd um sjálfbærni og er því í kjöraðstöðu til að vera leiðandi í uppbyggingu á nýjum iðnaði á sviði föngunar, förgunar og nýtingar kolefnis. Mikilvægt er að öll sú kolefnisförgun og binding sem stefnir í að verði stunduð á Íslandi telji inn í losunarbókhald landsins eða nýtist varðandi markmið Íslands í loftslagsmálum.

Hvetja skal til nýsköpunar og notkunar á helstu tækninýjungum þegar kemur að endurvinnslu og flokkun úrgangs með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og samræma flokkunarreglur og aðferðir um land allt og skapa aðstæður fyrir aukna samkeppni. Til að fyrirtæki geti þróað nýjar lausnir á þessu sviði þurfa þau að geta nálgast hráefni og orku til að skapa verðmæti. Með því að auka aðgengi að ónýttum afurðum framleiðsluferla ýtum við undir nýsköpun. Lögð skal áhersla á eflingu hringrásarhagkerfisins með aukinni fullendurvinnslu innanlands.

Ráðast þarf í markvissar aðgerðir til þess að draga úr plastmengun á landi sem og í sjó.

Mikilvægt er fyrir náttúruvernd Íslendinga að vinna að uppgræðslu og jarðvegsbindingu. Það verður best gert í samstarfi við þá sem hafa, vilja og geta grætt og ræktað landið. Brýnt er að endurskoða lög um skógrækt og landgræðslu, með tilliti til eftirfylgni. Tímabundin kolefnisbinding fæst ekki bara með að planta trjám heldur er einnig mikilvægt að grisja þá skóga sem fyrir eru og nýta afurðir sem mest innan hringrásarhagkerfisins.

Uppbygging þjóðgarða verður að vera í sátt við sveitarfélög, landeigendur, nýtingarréttarhafa og aðra hagaðila. Eigi að auka umfang þjóðgarða og friðlýstra svæða, má ekki fara út fyrir markmið friðlýsingar og ávinningur þarf að vera ljós. Líta þarf til þess að tryggja ferðafrelsi um hálendi Íslands, öruggan flutning raforku sem og nauðsynlega nýtingu auðlinda. Leggja ber áherslu á að stjórnun og umsjón friðlýstra svæða og þjóðgarða sé sem mest í höndum heimamanna í samráði við þá sem nýta og njóta svæðisins. Sjálfstæðisflokkurinn fagnar þeirri ákvörðun að lögheimili Vatnajökulsþjóðgarðs hafi verið flutt á Höfn í Hornafirði.

Fiskeldi, hvort heldur sem er í sjó eða á landi, er mikilvæg viðbót við öflugan sjávarútveg sem stundaður er á Íslandi. Mikil tækifæri felast í fiskeldi og útflutningsverðmæti eru mikil. Stíga þarf varfærin skref og gera ströngustu kröfur í umhverfismálum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi þegar kemur að fiskeldi í sjó og á landi.

Nýting náttúruauðlinda

Þegar kemur að nýtingu náttúruauðlinda Íslands hefur reynst vel að nýtingar- og afnotaréttur sé í höndum einkaaðila. Ráðstöfun nýtingarréttinda á auðlindum í opinberri eigu skal vera gagnsæ með almannahag að leiðarljósi. Virða ber eignar- og nýtingarrétt einstaklinga á auðlindum og ekki grípa til þjóðnýtingar eða skerðingar á réttindum einstaklinga, nema nauðsyn beri til. Að sama skapi ber að vinna gegn þeim sjónarmiðum að ríkið þurfi að eignast allt land sem er mikilvægt m.t.t. náttúruverndar.

Flutningskerfi raforku

Innviðir samfélagsins skipta almenning og atvinnulífið miklu máli og eru þáttur í því að tryggja lífsgæði, velferð og samkeppnishæfni Íslands. Brýnt er að flýta frekari uppbyggingu flutningskerfis raforku, ekki síst til að bæta afhendingaröryggi í einstökum landshlutum og auka um leið samkeppnishæfni þeirra en ekki síður vegna loftslagsmarkmiðanna. Áfram skal lögð áhersla á dreifingu þriggja fasa rafmagns. Í því sambandi þarf að tryggja að flutningur og dreifing raforku sé örugg og verðlagning sanngjörn óháð staðsetningu. Stjórnvöld verða að tryggja með öllum tiltækum ráðum afhendingaröryggi raforku um allt land og ryðja þannig braut að grænn iðnaðaruppbyggingu og orkuskiptum. Hryggjarstykkið í því að ná markmiðum í loftslagsmálum er öflugt flutningskerfi raforku.

Unnuð upp úr ályktun umhverfis- og samgöngunefndar á 44. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2022.

 

Ýtarefni um stefnu Sjálfstæðisflokksins í umhverfismálum

Sókn í grænum orkumálum – orkusjálfstæði Íslands

Þegar fjallað er um orkumál þjóðarinnar er ljóst að hugmyndafræðilegur ágreiningur er um það milli stjórnmálaflokka hvernig Ísland geti náð markmiðum sínum um efnahagslega sókn, tryggt samkeppnishæfni þjóðarinnar, tryggt nægt framboð af grænni orku, náð  orkusjálfstæði, tryggt orkuöryggi þjóðarinnar og á sama tíma náð samdrætti í losun koltvísýrings.

Efnahagur þjóðarinnar byggir m.a. á sterkri stöðu okkar varðandi grænar orkuauðlindir. Virkjun fallvatna og jarðhita hafa verið hornsteinar í þeim efnahagslega árangri sem við sem þjóð njótum. Í dag þegar Evrópa býr við orkuskort vegna stríðsins í Úkraínu erum við örugg hér í okkar lokaða kerfi og nýtum okkar eigin grænu orkugjafa til að byggja upp blómlega atvinnustarfsemi um land allt. Sjálfstæðisflokkurinn vill styðja enn frekar við þessa styrkleika okkar og byggja á sterku grænu orkukerfi til framtíðar.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að Ísland stefni að fullum orkuskiptum og orkusjálfstæði. Það verður aðeins gert með því að hætta notkun innflutts jarðefnaeldsneytis og nýta í staðin innlenda græna orku sem unnin er með sjálfbærum og ábyrgum hætti. Tryggja þarf að þau orkuskipti dragi ekki úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og að lágt orkuverð til heimila verði áfram tryggt. Verkefnið fram undan er því að tryggja að næg græn orka sé til staðar á Íslandi á samkeppnishæfu verði. Að sama skapi þarf að vera hægt að byggja upp nýjan iðnað, styrkja þær stoðir atvinnulífsins sem fyrir er og skapa tækifæri fyrir land og þjóð til að eflast enn frekar og auka lífsgæði landsmanna.

Til þess að þessi sýn um full orkuskipti og græna atvinnuuppbyggingu geti raungerst þarf að fjárfesta gríðarlega í orkutengdum framkvæmdum á næstu árum. Styrking flutningskerfis raforku og frekari uppbygging þess er þar lykilþáttur og ánægjulegt er að sjá metnaðarfullar áætlanir Landsnets þar að lútandi. Dreifiveiturnar þurfa einnig á frekari styrkingu að halda.

Á kjörtímabilinu hefur Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra unnið að fjölmörgum gríðarlega mikilvægum málum sem sýna fram á þá yfirgripsmiklu vinnu sem lagt hefur verið í á kjörtímabilinu með það að markmiði að einfalda kerfið, rjúfa kyrrstöðuna í orkumálum og flýta fyrir grænni atvinnuuppbyggingu og styrkingu innviða (sjá lista).

Ísland býr að náttúruauðlindum sem okkur ber að nýta á skynsaman og ábyrgan hátt til að leggja grunn að orkusjálfstæði, orkuöryggi og samkeppnishæfu orkuframboði til orkuskipta og grænnar uppbyggingar. Við erum einnig rík af mannauði sem hefur þekkingu á sviði orkumála, hér á landi starfa öflug orku- og veitufyrirtæki sem vinna að því hörðum höndum að tryggja áfram grænt orkukerfi framtíðarinnar.

Framtíðin er í okkar höndum og hún mun byggja á grænni sókn í orkumálum.

 

Loftslagsmál

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á markaðshyggju, samkeppnishæft atvinnulíf og lítil ríkisafskipti. Til að draga úr kolefnislosun er farsælast að nýta markaðslausnir og tækni í stað þess að setja fram kröfu um kolefnishlutleysi með íþyngjandi boðum og bönnum á fyrirtæki og einstaklinga. Atvinnulífið hafi þannig frelsi, sveigjanleika og hvata til að þróa og innleiða nýja tækni og aðferðir til að minnka kolefnislosun á hagkvæman hátt. Til að halda losun kolefnis í lágmarki í allri starfsemi hagkerfisins er rétta leiðin að leggja áherslu á lágkolefnishagkerfi.

Það liggur hins vegar fyrir að við munum ekki ná markmiðum okkar í loftslagsmálum án þess að stórauka grænorkuframleiðslu. Það er krafa hér á landi sem og annars staðar í heiminum að einfalda ferla t.d. hvað varðar leyfisveitingar og tryggja að opinberar stofnanir séu skilvirkar. Þess vegna höfum við samhliða unnið að einföldun á öllum sviðum ráðuneytisins, unnið að einföldun leyfisveitingaferla og að sameiningu stofnana.

Helstu verkfærin sem ríkisvaldið beitir til að stuðla að lágkolefnishagkerfi eru:

  • Skattalegir hvatar fyrir atvinnulífið sem leggja áherslu á græna tækni og minni kolefnislosun.
  • Að virkja markaðskerfi eins og viðskiptamarkaði með kolefniseiningar.
  • Með áherslu á nýsköpun í grænni tæki sem miðar að minni losun kolefnis.

Eina leiðin til að ná árangri í loftslagsmálum er samvinna atvinnulífs og stjórnvalda. Slík samvinna samhliða einföldun regluverks og aukin skilvirkni er lykill að árangri. Jafnframt þarf að vera tryggt að ákvarðanir séu byggðar á bestu mögulegu upplýsingum.

Þannig skapast hvati fyrir fyrirtækin til að taka frumkvæði í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Dæmi um slíkt samstarf stjórnvalda og atvinnulífs er vegvísir um vistvæna mannvirkjagerð sem gefinn var út árið 2022 þar sem byggingariðnaðurinn setti sér markmið um samdrátt í kolefnislosun bygginga á Íslandi um 43% fyrir árið 2030.

Undir stjórn Sjálfstæðisflokksins hefur verið unnið að landsáætlun um aðlögun sem er þarft verkefni vegna hlýnunar loftslags og súrnunar sjávar á þessari öld. Í þeirri vinnu þarf að líta til loftslagsþols byggða, innviða, atvinnuvega og seiglu mismunandi hópa fólks og lífríkis frammi fyrir loftslagsbreytingum. Á næsta ári mun Loftslagsatlas Veðurstofunnar líta dagsins ljós sem er myndræn framsetning helstu upplýsinga varðandi breytingar á hita, úrkomu og sjávarflóða en vöktun slíkra þátta er forsenda þess að hægt sé að meta áhrif breytinga á loftslagi við Ísland.

Hringrásarmál

Mikilvægt er að innleiðing hringrásarhagkerfis hér á landi gangi sem hraðast fyrir sig og þannig verði leitast við að allar auðlindir verði að verðmætum í stað úrgangs. Íslendingar hafa náð forystu á þessu sviði m.a. í nýtingu sjávarafurða en á mörgum öðrum sviðum er þörf á markvissum aðgerðum sem bæta úrgangsstjórnun og hvetja til hugarfarsbreytingar og nýsköpunar í sambandi við endurnýtingu og áframvinnslu hérlendis. Helstu atriðin sem vert er að hafa í huga við þá vinnu er:

 

  • Til að koma á hringrásarhagkerfi þarf nýja hugsun – ekki bara gera eins alltaf hefur verið gert. Í því skyni er m.a. mikilvægt að úrgangsstjórnun verði bætt verulega, hún styðji við nýsköpun og bjóði upp á heildstæðar lausnir.
  • Stuðningur við nýsköpun er lykilatriði – besta lausnin ekki ennþá orðin til
  • Nýsköpun er ekki bara hjá sprotafyrirtækjum – nýsköpun þarf að vera alls staðar, hjá ríki og sveitarfélögum jafnt sem fyrirtækjum
  • Úrgangur er hráefni – hráefnum á ekki að moka ofan í holu (urðun). Við þurfum markvisst að finna nýjar lausnir við nýtingu úrgangs – virkja íslenska hugvitið og búa til aukin verðmæti
  • Lífúrgangur – þurfum að hætta að urða hann og nýta með betri hætti, t.d. áburður. Sameinumst um að hætta að urða lífúrgang og finnum nýjar lausnir sem skapa verðmæti
  • Sjávarklasinn er gott dæmi um það sem er vel er gert – ný vantar okkur hringrásarklasann
  • Við þurfum að breyta núverandi úrgangsstjórnun – gera betur en á undanförnum árum. Við erum ekki best í heimi í dag – getum auðvitað verið það ef við viljum
  • Megum ekki loka á nýjar lausnir við nýtingu úrgangs – 30 ára samningur um úrgang fyrir brennslustöð takmarkar nýtingu þess úrgangs til annars – getur komið í veg fyrir verðmætasköpun
  • Opin og frjáls markaður með úrgang – aðili með bestu lausnina borgar hæst verð

Náttúruvernd

Náttúruvernd hefur ávallt verið einn af hornsteinum stefnu Sjálfstæðisflokksins. Á undanförnum árum fengið stóraukið vægi í samfélagsumræðu bæði hér heima og erlendis. Sífellt fleiri hafa áttað sig á að vernd náttúrulegra landsvæða, bæði lífríkis svæða og landslags, er gríðarlega mikilvæg. Mikilvægið felst í því að við viljum tryggja líffræðilega fjölbreytni og þá mikilvægu vistkerfaþjónustu sem náttúran innir af hendi. En mikilvægið felst líka í því að tryggja að við og komandi kynslóðir getum notið þess að eiga stund í ósnortinni náttúru. Slíkar stundir geta ekki síður stuðlað að því að styrkja okkur mannfólkið andlega og líkamlega.

Sú breytta áhersla á aukna aðkomu heimamanna við stjórnun þjóðgarða, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á á kjörtímabilinu, hefur skilað því að heimamenn víða um land hafa sýnt frumkvæði að því að skoða möguleika þess að stofna fleiri þjóðgarða á Íslandi. Má þar nefna hugmyndir varðandi Langanes, Vestfirði, Dalabyggð og Þórsmörk. Þessi stefnubreyting er mikilvæg og farsæl til framtíðar.

Verndun náttúrunnar útilokar ekki nýtingu enda er innan okkar friðlýstu svæða víða að finna fjölmörg dæmi þess. Að sama skapi er mjög mikilvægt að standa vörð um frelsi landsmanna til að ferðast um landið og njóta náttúrunnar. Hvort heldur sem er á friðlýstum svæðum eða öðrum landsvæðum þá erum við sífellt að vinna að því að finna jafnvægið á milli verndar og nýtingar. Það finnum við ekki nema með því að leggja stund á rannsóknir og eiga samtal.

Samstarf stjórnvalda við landeigendur um náttúruvernd á viðkvæmum og fjölsóttum svæðum er lykillinn að því að vel takist til líkt og lögð hefur verið áhersla á á kjörtímabilinu t.d. varðandi Fjaðrárgljúfur.

 

Græn svæði víkja í Reykjavík undir stjórn vinstri manna

Helsta kosningamál Sjálfstæðismanna í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningum fyrir hartnær 50 árum var Græna byltingin þar sem lofað var grænum svæðum innan borgarinnar og blárri byltingu til að vernda lax og silungaveiði. Sem betur fer hefur borgin haldið í flest þessi svæði en á síðari árum hefur orðið stefnubreyting hjá borgaryfirvöldum,  grænu svæðin eiga að víka fyrir byggð. Þar má nefna Elliðaárdalinn, Laugardalinn, áætlanir í Grafarvogi og áform um stórfellt byggingarmagn og landfyllingu í Skerjafirði. Árið 1999 ætlaði vinstri meirihlutinn í Reykjavíkurborg að byggja 37.000 fm. af húsnæði í Laugardal og fórna þar með einu mikilvægasta græna svæðinu í borginni. Það var stoppað eftir mikil mótmæli íbúa og Sjálfstæðismanna. Sagan kennir okkur að Sjálfstæðisstefnan er sterkasta vopnið í náttúruvernd.

Líffræðileg fjölbreytni skiptir máli

Okkur sem búum á Íslandi hættir til að taka líffræðilegri fjölbreytni sem gefnum hlut. Mikið af þeim aðgerðum sem við verðum að ráðast í vegna loftslagsbreytinga geta, ef við höfum ekki varann á, valdið óafturkræfum skaða á líffræðilega fjölbreytni. Óábyrg skógrækt sem mótvægisaðgerð vegna loftslagsbreytinga gæti því eyðilagt vistkerfi spóa sem og annara vaðfugla. Þetta er eitt dæmi af mörgum þar sem við verðum að huga að líffræðilegri fjölbreytni í aðgerðum okkar.

Undir stjórn Sjálfstæðisflokksins var hefur sett af stað endurskoðun á stefnu um líffræðilega fjölbreytni í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Þeirri vinnu til grundvallar liggur svokölluð grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa sem gefin var út vorið 2022.

Í grænbókinni kemur fram að Ísland standi frammi fyrir sömu áskorunum varðandi hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og heimurinn allur. Beint og óbeint hafi samspil umhverfisbreytinga og nýtingar, fjölbreytt og oft illfyrirsjáanleg áhrif á lífríkið. Helstu áskoranirnar eru loftslagsbreytingar, mengun, ágengar tegundir, eyðing búsvæða og bein nýting mannsins.

Helstu breytingar sem orðið hafa hér á landi síðustu ár eru breytingar á landnotkun vegna skógræktar og aukinnar byggðar. Þá hefur fiskeldi í sjókvíum stóraukist og þar með hættan á erfðablöndun íslenskra laxastofna við eldislax, en erfðablöndun við íslenska laxastofna og áhrif laxalúsar á afkomu villtra laxastofna eru þættir sem geta haft veruleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Áhættumat hefur verið unnið vegna erfðablöndunar frá laxeldi í sjókvíum á Vestfjörðum og Austfjörðum og var frumforsenda greiningarinnar að náttúrulegir laxastofnar skaðist ekki.

Undir stjórn Sjálfstæðisflokksins hefur verið sett af stað vinna við hvítbók sem verður stefna sem inniheldur framtíðarsýn fyrir málaflokkinn og markmið sem marka leiðina fram á við. Stefnunni mun fylgja aðgerðaáætlun.

Í síbreytilegum heimi þurfum við sífellt að takast á við erfiðar áskoranir. Samspil loftslagsbreytinga og atvinnusköpunar við líffræðilegra fjölbreytni er sannarlega nýjung í verkefnalista samfélagsins alls. Það er engu að síður gríðarlega mikilvægt að við höfum augun ávallt á líffræðilegri fjölbreytni. Hvort sem um ræðir skógrækt, sjókvíaeldi í fjörðunum eða óspillta strandlengju í borginni.

 

Árangur Sjálfstæðisflokksins í umhverfis-, orku- og loftslagsmálum á kjörtímabilinu

Einföldun regluverks og aðgerðir til að greiða fyrir öflun grænnar orku hefur verið meginviðfangsefni kjörtímabilsins

  • Þriðji áfangi rammaáætlunar samþykktur eftir níu ára kyrrstöðu í orkumálum.
  • Leyfisveitingar stóreinfaldaðar; frumvarp sem heimilaði stækkun virkjana í rekstri var samþykkt á síðasta ári, um er að ræða mestu einföldunaraðgerð sem gerð hefur verið í grænni orkuöflun. Stækkanir á virkjunum þurfa ekki lengur að fara í gegnum rammaáætlun og eru 260 MW í pípunum vegna frumvarpsins.
  • Fyrsta jarðhitaleitarátak aldarinnar skilaði miklum árangri!
  • Suðurnesjalína 2 verður tilbúin á næsta ári eftir áratugalanga deilu.
  • Sameining stofnana á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála. Stofnunum fækkað úr 10 í 5.
  • Höfuðstöðvar stofnana fluttar út á land. Nýjar stofnanir taka til starfa á Akureyri, Vesturlandi og á Hvolsvelli. Vatnajökulsþjóðgarður var fluttur á Höfn í Hornafirði.
  • Skattaívilnanir í kaup á vistvæna samgöngumáta.
  • Stærsta fjárfesting frá upphafi í flutningskerfi raforku er á áætlun hjá Landsneti. 88 milljarðar eru á fjárfestingaráætlun næstu 5 ára!
  • Landsvirkjun hefur boðið út 100 milljarða kr. verkefni og hefur hafist handa við að byggja upp Búrfellslund og Hvammsvirkjun í Þjórsá. Stækkun stendur yfir í Sigöldu og á Þeistareykjum. Næst stærsta ár sögunnar hjá Landsvirkjun!
  • Orkuveita Reykjavíkur hefur boðið út 35 borholur.
  • Orkusjóður hefur styrkt myndarlega við uppbyggingu hleðsluinnviða um land allt. Á næstu misserum verður hraðhleðslustöð á 100 km fresti um land allt. Okkur hefur tekist að loka hringveginum.
  • Notum hvata gegnum orkusjóð til að stuðla að orkuskiptum. Einfölduðum kerfið með því að sameina Orkusjóð og Loftslagssjóð. Styrkjum til opinberra fyrirtækja hætt.
  • Formlegt samstarf við Bandaríkin á sviði orkumála undirritað. Samstarfið er þegar hafið og felur í sér risa stór tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki
  • Samstarfssamningur undirritaður við þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna.
  • Varmadælufrumvarpið samþykkt sem þýðir einföldun styrkjakerfis, skilvirk leið til að fara betur með orku og hefur þegar skilað miklum árangri.
  • Átaksverkefni í einföldun leyfisveitinga á málefnasviði ráðuneytisins. Tveggja ára vinna þar sem unnið er að „one stop shop“ leið í leyfisveitingum.
  • Ný áhersla varðandi vinsæla ferðamannastaði – þeir þurfa ekki að vera í eigu ríkisins! Höfum hafnað forkaupsrétti á slíkum náttúruperlum og þannig sparað skattgreiðendum hundruði milljóna, en gert í stað þess samninga við landeigendur um vernd svæðisins með friðlýsingum. Dæmi: Fjaðrárgljúfur, Kerið og Þverá í Laxárdal.
  • Gullhúðun innan ráðuneytisins rakin vegna beiðni Diljár Mistar Einarsdóttur um skýrslu um málefnið. Fyrsta frumvarpið til að vinda ofan af því hefur litið dagsins ljós. Fyrsta „afhúðunarfrumvarpið“ snýr að einföldun leyfisveitinga í grænni orkuöflun.
  • Átak í smávirkjunum sett af stað og möguleikar kannaðir um allt land. Risa stór tækifæri í litlum virkjunum.
  • Starfshópur Ásmundar Friðrikssonar lagði fram 50 tillögur um leiðir til bættrar orkunýtingar og orkuöflunar.
  • Úttekt var gerð á stöðu hitaveitna á Íslandi en þörf er á að stórefla viðhald þeirra. Jarðhitaleitarátakið er bein afleiðing skýrslunnar.
  • Skýrsla unnin um stöðu, áskoranir og tækifæri í minjavernd.
  • Frumvarp og stefna um vindorku lagt fram á Alþingi eftir tveggja ára vinnu.
  • Einföldun regluverks sem snýr að atvinnulífinu - skráningarskylda í stað leyfisskyldu. Afgreiðslutíminn styttur í 5 daga í stað 4-8 vikna. Reglugerðin gildir um 47 atvinnugreinar. Dæmi um starfsemi sem fellur hér undir eru bifreiða- og vélaverkstæði, bón- og bílaþvottastöðvar, hársnyrtistofur, hestahald, meindýravarnir, nuddstofur, sólbaðstofur, steypueiningarverksmiðjur, niðurrif mannvirkja og efnalaugar.
  • Einföldun regluverks í þágu smávirkjana.
  • Skýrsla um stöðu og áskoranir í orkumálum.
  • Flýting innleiðingar hringrásarhagkerfis – 200.000 tonn af tækifærum. Tillögur starfshóps um hvernig má breyta sorpi í verðmæti.

Svæðisbundin verkefni í umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:

 

Norðausturkjördæmi:

  • Aðsetur nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar verður á Akureyri.
  • Akureyri styrkt sem höfuðstaður norðurslóða með hækkun framlaga til CAFF og PAME um 50%.
  • Unnið að eflingu samfélagsins á Langanesi – skýrsla starfshóps.
  • Matvælakjarni á Vopnafirði – samstarf ráðuneytisins, Vopnafjarðarhrepps og Austurbrúar.
  • Formaður Hreindýraráðs, frá Austfjörðum.
  • Nýsköpunarhraðallinn „Austanátt“ settur af stað í samstarfi við Samband sveitarfélaga á Austurlandi.
  • Samstarfsverkefnið Eygló á Austurlandi, um orkuskipti og orkutengda nýsköpun, sett á fót.
  • Samstarf um starfsstöð í náttúrurannsóknum á Bakkafirði.
  • Stuðningur við Hringrás nýsköpunar á Norðurlandi, samstarfsverkefni Norðanáttar.
  • Jarðhitaleit á Djúpavogi þar sem horfur eru jákvæðar.
  • Aðgerðir til að koma í veg fyrir olíumengun frá El Grillo.
  • Friðlýsing hraunhella í Þeistareykjahrauni.

Suðurkjördæmi:

  • Aðsetur nýrrar Náttúruverndarstofnunar verður á Hvolsvelli
  • Lögheimili Vatnajökulsþjóðgarðs flutt á Höfn í Hornafirði.
  • Græn atvinnuuppbygging í Ölfusi undirbúin með samningi við þekkingarsetrið Ölfus Cluster.
  • Græna eyjan – Vestmannaeyjar. Skýrsla starfshóps um eflingu samfélagsins í Vestmannaeyjum.
  • Viljayfirlýsing um orkuskipti og aukið afhendingaröryggi í Vestmannaeyjum.
  • Ráðuneytið styrkir viðskiptahraðalinn Sunnanátt sem er á vegum Sambands sunnlenskra sveitarfélaga.
  • Suðurnesjalína 2 var samþykkt eftir áratugalanga deilu.
  • Hitaveita á Reykjanesi, neyðarviðbragð – áskoranir og árangur í nýtingu jarðvarma. Hætta á heitavatnsleysi á Suðurnesjum afstýrt.
  • Viðskiptahraðallinn „Sóknarfæri í nýsköpun“ á vegum Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi styrktur.
  • Efling Kvískerjasjóðs – þriggja ára átaksverkefni.
  • Ráðuneytið aðili að Orkedíu samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi.
  • Samningur við Skaftárhrepp um tilraunaverkefni um snjallar úrgangslausnir.
  • Samningur um varðveislu minja frá Kvískerjum við sveitarfélagið Hornafjörð.
  • Friðlýsing Fjaðrárgljúfurs.
  • Tímamótasamningur um samstarf ríkis og landeiganda um uppbyggingu og verndun Fjaðrárgljúfurs.
  • Ný og stórbætt umgjörð um rústir skálans á Stöng í Þjórsárdal.

Norðvesturkjördæmi:

  • Aðsetur nýrrar Náttúrufræðistofnunar verður á Vesturlandi.
  • Skýrsla starfshóps um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum.
  • Samstarfsverkefnið Blámi styrkt til að styðja við orkuskipti og verðmætasköpun á Vestfjörðum.
  • Vestfirðir í sókn – samstarf um innviðauppbyggingu, Blámi og Innviðafélag Vestfjarða.
  • Nýting glatvarma í Húnabyggð, viljayfirlýsing undirrituð. Glatvarmi nýttur í græna atvinnuuppbyggingu á svæðinu.
  • Þjóðgarðsmiðstöð opnuð á Hellissandi.
  • Efling samfélagsins í Dalabyggð, skýrsla starfshóps.
  • Gleipnir, nýsköpunar og þróunarsetur á Vesturlandi, ráðuneytið stofnaðili.
  • Ráðuneytið einn bakhjarla Eims á Norðurlandi eystra, sem ætlað er að bæta nýtingu auðlinda.
  • Ný starfstöð umhverfisstofnunar á Hvanneyri opnuð.
  • Glatvarmi nýttur á Grundartanga með styrk úr orkusjóði.
  • Samstarf við Reykhólahrepp um kolefnishlutleysi.
  • Jarðhitaleit á Ísafirði styrkt þar sem eru mjög jákvæðar niðurstöður.
  • Jarðhitaleit á Patreksfirði þar sem unnið er að varmadæluverkefnum.
  • Jarðhitaleit í Kaldrananeshreppi sem hefur skilað miklum árangri.
  • Rannsóknaráætlun um vernd og nýtingu auðlinda í Breiðafirði unnin.
  • Tilraunaverkefni um aukna landvörslu við Breiðafjörð sett af stað.
  • Friðlýsing Skrúðs.
  • Neðstakaupstaður og Skutulsfjarðareyri lýst verndarsvæði í byggð.
  • Friðlýsing Borgarneskirkju.

Höfuðborgarsvæðið:

  • Kortlagning loftgæða innandyra í skólum og leikskólum.
  • Græn orkuframleiðsla með birtuorku í Borgartúni 26, ríkið ríður á vaðið.
  • Friðlýsing Bessastaðaness.
  • Friðlýsing Blikastaðakróar – Leiruvogs í Grafarvogi.
  • Urriðakotshraun friðlýst sem fólkvangur.
  • Samningur um hringrásarhraðalinn Hringiðu.