Þökk sé aga og festu í ríkisfjármálum síðustu ár var Ísland í hópi þeirra ríkja sem best gátu brugðist við efnahagsáföllum vegna heimsfaraldurs COVID-19. Nú stendur ríkissjóður frammi fyrir nýjum áskorunum vegna hárrar verðbólgu og viðkvæmri stöðu í heimsbúskapnum. Koma þarf böndum á ríkisreksturinn sem fyrst svo ríkissjóður verði betur í stakk búinn að takast á við þessar áskoranir sem og óvænt áföll í framtíðinni.
Verðbólga
Eitt helsta viðfangsefni ríkisfjármála er að styðja peningamálastefnuna og hagstjórn í baráttunni við verðbólgu. Áhrif verðbólgu bitna verst á þeim sem minnst hafa milli handanna auk þess að draga úr verðmætasköpun til lengri tíma litið. Því er mikilvægt að ná tökum á verðbólgunni og tryggja þannig í sessi þann kaupmátt sem áunnist hefur á undanförnum árum.
Í ljósi þess hversu húsnæðismarkaður vegur þungt í mælingum á verðbólgu er mikilvægt að skipulagsyfirvöld, einkum sveitafélögin, tryggi gott framboð byggingarlands og þar með að framboð af nýju húsnæði sé í samræmi við eftirspurn.
Mikilvægt er að í þeim kjarasamningum sem framundan eru semji aðilar vinnumarkaðarins sín á milli án þess að seilst sé um of í vasa skattgreiðenda.
Laun eru stærsti útgjaldaliður ríkisins. Mikilvægt er að ríkið tryggi að kjarasamningar við opinbera starfsmenn séu í takti við þróun kaups og kjara á almennum markaði. Almennur markaður á að leiða launahækkanir en ekki ríkið.
Endurskoða skal reglulega grunn verðbólgumælinga.
Ríkisútgjöld
Langtíma jafnvægi í ríkisfjármálum og sterk staða ríkissjóðs er ein megin forsenda öflugs efnahagslífs, lágra vaxta og stöðugleika í gjaldeyrismálum. Nú sem endranær þarf því að gæta aðhalds í ríkisútgjöldum og halda aftur af skuldasöfnun ríkissjóðs. Óásættanlegt er að byrðum verði velt yfir á herðar komandi kynslóða. Við þá vinnu þarf að skerpa á stefnumótun í ríkisfjármálum þannig að tryggt sé að fjármunir skattgreiðenda séu nýttir með hagkvæmasta hætti og renni fyrst og fremst í nauðsynlega þjónustu, til þeirra sem sannarlega þurfa á henni að halda.
Þróa þarf betur árangursmælingar þannig að horfið sé frá því að mæla aðeins árangur í útgjöldum en í þess stað teknir upp árangursmælikvarðar sem endurspegla gæði þeirrar þjónustu og ánægju þeirra sem hana þiggja.
Auka þarf á næstu árum fjármagn til uppbyggingar ýmissa innviða í íslensku samfélagi. Nauðsynlegt er í þeirri uppbyggingu að nýta kosti einkaframtaks í samstarfi við ríkisvaldið. Lífeyrissjóðir landsmanna þurfa nauðsynlega að eiga möguleika á fjárfestingum í samfélagslega arðbærum langtíma verkefnum. Mikilvægt er að skapa traustan ramma utan um slíkt samstarf og tryggja þjóðfélagslega sátt um tekjuforsendur slíkra verkefna.
Lækkun skatta
Samkeppnishæfi ríkisins á alþjóða vettvangi er grundvallarforsenda fyrir bættum lífskjörum. Eitt af lykilatriðum til þess að efla samkeppnishæfi Íslands er að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki.
Skattkerfið hefur tekið jákvæðum breytingum og fagna ber þeim áföngum sem þegar hafa náðst: Tekjuskattur hefur lækkað, hvað mest hjá þeim tekjulægri, stimpilgjald afnumið við endurfjármögnun lána, frítekjumark fjármagnstekjuskatts hækkað og tryggingagjald og virðisaukaskattshlutfall lækkað. Mikilvægt er að halda áfram á þessari braut.
Lækka þarf virðisaukaskattshlutfallið og einfalda virðisaukaskattkerfið t.d. með sameiningu skattþrepanna og niðurfellingu virðisaukaskatts á afmarkaða vöruflokka og þjónustu. Lækka þarf tekjuskatt á einstaklinga og íþyngjandi gjöld eins og tryggingagjaldið enn frekar á fyrirtæki. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri vegferð að örva atvinnulífið með sérstökum skattalegum hvötum.
Mikilvægt er að endurmeta reglulega leiðir og aðferðir til að koma í veg fyrir skattaundanskot.
Í ljósi tæknibreytinga er nauðsynlegt að endurskoða hvernig staðið er að innheimtu gjalda á bifreiðar. Sérstaklega þarf að skoða hvort rétt sé að leggja af innheimtu eldsneytisgjalds þegar tekið er gjald sem ætlað er að standa undir sameiginlegum kostnaði af samgönguinnviðum.
Útvistun verkefna
Í stað þess að fjölga opinberum störfum eiga ríki og sveitafélög að rýmka til fyrir einkaaðilum þannig að þeir geti tekið að sér verkefni og stuðlað að nýsköpun í opinberri þjónustu með auknu kostnaðarhagræði og bættu þjónustuframboði.
Koma þarf í veg fyrir að útgjöld vegna tímabundinna verkefna verði að varanlegum útgjöldum ríkisins og þar með hærri álögum á einstaklinga og fyrirtæki til lengri tíma.
Fyrirtæki á vegum ríkisins eiga að hafa að meginreglu að bjóða út verkefni. Ríkisfyrirtæki og stofnanir eiga ávallt að velja það sem fyrsta kost að bjóða út verkefni og ætíð að kanna hvort þjónustunni sé betur farið í höndum einkaaðila.
Í ljósi öldrunar íslensku þjóðarinnar og aukins kostnaðar í heilbrigðisþjónustu er mjög mikilvægt að nýta fjölbreytt rekstrarform til að fjármunir skattgreiðenda skili sem bestri þjónustu. Í þessu samhengi er lagt til að fjármunir vegna þjónustu við hvern sjúkling verði látnir fylgja viðkomandi einstaklingi óháð rekstrarformi þess sem veitir þjónustuna.
Stjórn ríkisfjármála
Mikilvægt er að unnið verði eftir þeim markmiðum, sem fram koma í lögum um opinber fjármál, um hvenær stefnt skuli að sjálfbærni rekstrar og skulda ríkissjóðs.
Ísland á að vera áfram í hópi þeirra ríkja sem hafa lægst hlutafall opinberra skulda af þjóðarframleiðslu.
Mikilvægt er að í ríkisreikningi komi skýrt fram hverjar heildar skuldbindingar og ábyrgðir ríkisins eru á hverjum tíma og þær færðar til núvirðis. Að sama skapi ættu allar skuldbindingar að koma fram í efnahagsreikningi og teljast meðal skulda ríkissjóðs. Nauðsynlegt er að fram fari stöðug endurskoðun á útgjöldum hins opinbera og kerfisbundið farið yfir hvað af þeim verkefnum sem nú eru á hendi ríkisins væri betur fyrir komið hjá öðrum aðilum en ríkinu. Ríkið hefur fjölmörg tækifæri til að færa þjónustu yfir til einkaaðila og tryggja um leið betri þjónustu og jafnræði borgaranna óháð efnahag eða búsetu. Leggja þarf áherslu á að forgangsraða verkefnum og gera þarf notendum opinberrar þjónustu kleift að velja veitanda þjónustunnar óháð rekstrarformi, þar sem því verður viðkomið.
Jafnframt þarf að fara fram gagnger endurskoðun á því hvaða verkefnum ríkisvaldið á að sinna. Á undanförnum árum og áratugum hefur ríkisstarfsmönnum fjölgað og umfang hins opinbera hefur vaxið úr hófi. Hætta er á að þessi umsvif dragi úr þrótti efnahagslífsins og leiði, þegar fram líða stundir, til skertra lífskjara Íslendinga. Til lengri tíma verður að horfa til þess að hlutfall opinberra starfsmanna á vinnumarkaði aukist ekki umfram það sem nú er.
Tækni- og samfélagsbreytingar ásamt þróun efnahagsmála ýta undir nauðsyn þess að endurskoðun sem þessi fari reglulega fram.
Endurskoða þarf verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Efla þarf kostnaðarmat sveitafélaga vegna þeirrar þjónustu sem þau veita og tryggja sem best að við lagasetningu er snýr að verkefnum sveitafélagana hafi raunhæft og ýtarlegt kostnaðarmat verið unnið.
Setja þarf markmið um hversu stórum hluta mennta- og heilbrigðiskerfisins sé betur komið í höndum einkaaðila. Lagt er til að horft verði til annarra Norðurlanda hvað þessi hlutföll varðar. Með því verði leitast við að auka gæði menntakerfisins á sama tíma og tryggt verði að börn og ungmenni njóti sambærilegrar menntunar óháð efnahag eða félagslegri stöðu foreldra þeirra.
Innleiða ætti útgjaldareglu í lög um opinber fjármál til þess að hemja útgjaldavöxt hins opinbera svo það ýti ekki undir þenslu í hagkerfinu.
Sala ríkiseigna
Áfram verði haldið við sölu ríkiseigna þar sem því verður við komið. Tryggja þarf að sala ríkiseigna sé þannig að öllum kröfum um gagnsæi og jafnræði sé fullnægt á sama tíma og ríkissjóður fái sanngjarnt verð fyrir eignir sínar. Slíkar sölur afla ekki einungis ríkissjóði tekna, þær eru til þess fallnar að leysa úr læðingi nýsköpun og bætta þjónustu fyrir neytendur.
Eftirfarandi rekstur á ríkið að setja í forgang að koma í söluferli eða leggja af:
- Íslandsbanka og Landsbankann: Ríkið á ekki að vera í áhættutöku og samkeppnisrekstri á fjármálamarkaði.
- Áfengis og tóbaksverslun ríkisins: Það er tímaskekkja að ríkið sé með einokun á áfengisverslun.
- Íslandspóstur: Umhverfi póstþjónustu hefur breyst mjög mikið síðustu áratugi og tími til að endurskoða hlutverk ríksins á þessum vettvangi.
- Ríkisútvarpið: Tilgangur og hlutverk Ríkissútvarpsins hefur breyst. Mikilvægt er að endurskoða forsendur og umfang núverandi rekstrarfyrirkomulags með það að markmiði að kanna hvort rekstrinum sé að öllu leyti eða hluta til betur komið í höndum einkaaðila.
- Eignarhaldsfélag Suðurnesja hf.: Endurskoða þær fjárfestingar sem tilheyra félaginu og eru betur komnar í höndum einkaaðila.
- Rekstri og eignarhaldi flugstöðva og flugvalla
- Sala á jörðum og lóðum í eigu ríkisins þar sem því verður viðkomið
Byggt á ályktun fjárlaganefndar 44. landsfundar Sjálfstæðisflokksins 2022.