Menntun, vísindi og tækni
Almennt um menntamál: Menntun er grundvöllur hagsældar landsmanna. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á fjölbreytt og jöfn tækifæri til menntunar og að auk opinbers rekstrar séu kostir einstaklingsframtaksins nýttir með öflugum sjálfstætt starfandi skólum og nýsköpun á sem flestum sviðum. Fjármagn ætti að fylgja hverjum nemanda, óháð rekstrarformi skóla og endurspegla þannig ólíkar þarfir hvers og eins nemanda og mismunandi námsgreina. Fjarnám hefur sannað gildi sitt á síðustu árum og ætti að nýta reynslu af því vel til að efla það frekar. Meta þarf reglulega færniþörf á vinnumarkaði svo ungmenni geti tímanlega tekið upplýstar ákvarðanir þegar þau velja sér nám.
Leikskóli: Brúa þarf umönnunarbil milli fæðingarlofs og leikskóla með því að sveitarfélög tryggi öllum börnum leikskólapláss, eða annað úrræði, um leið og fæðingarorlofi lýkur. Um er að ræða mikilvægt jafnréttismál enda sýna rannsóknir að það lendi frekar á mæðrum að brúa bilið. Hækka þarf þak fæðingarorlofsgreiðslna. Einnig þarf að auka sveigjanleika foreldra til töku fæðingarorlofs þannig að foreldrar hafi frelsi til að ráðstafa töku fæðingarorlofs sín á milli.
Grunnskóli: Skoða ætti að fækka skólaárum í níu þannig að ungmenni útskrifist að jafnaði úr framhaldsskóla 18 ára, eins og tíðkast í flestum löndum í kringum okkur. Löng sumarfrí hafa slæm áhrif á námsárangur, einkum þeirra sem standa höllum fæti. Skólastarfið þarf að miða meira að þörfum hvers nemanda þannig að hann nái árangri á sínum forsendum. Sérstaklega þarf að huga að börnum með erlent móðurmál og drengjum sem standa höllum fæti samkvæmt rannsóknum og alþjóðlegum samanburði. Endurskoða, skýra og nútímavæða þarf aðalnámskrá ekki síst í ljósi aukins fjölda grunnskólanema með erlent móðurmál. Læsi grunnskólabarna er vaxandi áhyggjuefni sem þarfnast tafarlausra aðgerða. Auka þarf fjölbreytni og afnema ríkiseinokun á útgáfu námsbóka. Huga þarf sérstaklega að útgáfu lesefnis í því samhengi. Efla þarf kyn- og fötlunarfræðslu. Grunnskólar þurfa að leggja aukna áherslu á list- og verkgreinar til að búa nemendum betri grunn fyrir nám á þeim sviðum á framhaldsskólastigi. Brýnt er að horfa til nýrra áherslna í grunnskólum í takt við nýjar kröfur í nútímasamfélagi, t.a.m. kynfræðslu, hinseginfræðslu, forritunarkennslu, fjármálalæsi, nám í stjórnskipan landsins og nám í gagnrýnni hugsun og rökhugsun. Ráðast þarf í verulegar umbætur á launakerfi kennara. Í stað miðlægra kjarasamninga verði skólastjórnendum veitt meira svigrúm til að semja við starfsfólk á einstaklingsgrundvelli. Slíkt kerfi er betur til þess fallið að skapa hvata til nýsköpunar í skólastarfi. Horfa þarf til sveigjanleika í skólastarfi með áherslu á aðgengi að stafrænu námi óháð staðsetningu. Valdeflum sveitarfélög, skóla og kennara til að sækja fram, koma með lausnir og efla gæði skólastarfs, t.d. með fjárframlögum eða sóknarsjóðum sem sveitarfélög, ríki og atvinnulíf geta fjárfest í.
Framhaldsskóli: Stytting framhaldsskólans var rétt skref sem hefur þegar minnkað brotthvarf og mun til lengri tíma hækka ævitekjur landsmanna og auka árangur skólastigsins. Auka þarf sveigjanleika og aðlögunarhæfni framhaldsskólastigsins til að mæta þörfum samfélagsins. Mun færri komast í iðnnám en sækja um á sama tíma og mikil þörf er á iðnmenntuðum í atvinnulífinu. Skólakerfið þarf að vera betur í stakk búið til að taka á móti auknum fjölda nemenda. Einnig er mikilvægt að skólakerfið sé opið fyrir aðkomu einkaaðila að rekstri. Þverfaglega nálgun þarf til að taka á brotthvarfi og skólaforðun. Innleiða þarf stefnu, forvarnar- og aðgerðaráætlun vegna eineltis, kynbundinnar áreitni, kynferðislegrar áreitni og ofbeldi í framhaldsskólum
Háskóli og vísindi: Endurskoða þarf fjármögnun háskólastigsins í heild sinni, þ.e.a.s. fjármögnunarlíkan kennslu og rannsókna og námslánakerfi. Beita þarf fjármögnun háskólanna markvisst til þess að efla gæði náms, kennslu og rannsókna um land allt auk þess að hvetja til aukins samstarfs og sérhæfingu einstakra háskóla og gera þá í stakk búna að aðlaga námsúrval að þörfum samfélagsins. Alþjóðlegt samstarf á háskólastigi eflir íslenska háskóla. Auka ætti námsframboð á ensku til að laða að hæfileikaríkt fólk í nám og kennslu og gera háskólamenntun að útflutningsgrein. Innritunarhlutfall karlmanna í háskólanám er með því lægsta sem mælist í OECD ríkjunum. Fjölga á valkostum og framboði á styttri námsleiðum t.d. á fagháskólastigi. Taka ætti upp aðgangsstýringu að norrænni fyrirmynd til að tryggja að tíma nemenda og skólanna sé betur varið. Ísland er eitt fárra Evrópuríkja án slíkrar stýringar. Skoða ætti skólastigið í heild og kanna hvar tækifæri eru til aukins einkarekstrar, samstarfs og sameiningar nemendum og vísindum til heilla. Ýta ætti verulega undir samstarf háskóla og atvinnulífs. Vísindi eru hornsteinn þróaðra samfélaga. Huga þarf betur að núverandi og framtíðarþörfum atvinnulífsins fyrir starfsfólk þegar kemur að menntamálum. Auka þarf framboð á menntun og fræðslu á háskólastigi fyrir fötluð ungmenni. Efla ætti stórlega aðgengi að stafrænu námi og kennslu enn betur á háskólastiginu. Fólk á að geta menntað sig óháð búsetu, fjölskyldu, fjárhag eða vinnu. Nýsköpun er undirstaða atvinnulífs og framfara. Mikilvægt er að halda áfram dyggum stuðningi við nýsköpunarstarf háskólanna. Hvatt er til eflingar rannsókna með almennum stuðningi við rannsóknir, nýsköpun, hagnýtingu, erlent samstarf og vísindastarf. Standa ber vörð um akademískt frelsi.
Framhaldsfræðsla og tækni: Styrkja þarf framhaldsfræðslu sem fimmtu stoð menntakerfisins. Tæknibreytingar eru að verða til þess að störf hverfa og önnur myndast þar sem reynir fyrst og fremst á stafræna færni. Framhaldsfræðsla og nám á vinnustöðum mun spila lykilhlutverk í að aðstoða fólk, sem hefur þegar lokið skólagöngu, við að öðlast færni sem það þarf á að halda á breyttum vinnumarkaði. Einnig þarf að huga að menntun eldra fólks sem fer fjölgandi á vinnumarkaði. Efla þarf íslenskukennslu fyrir útlendinga. Þar spila atvinnurekendur lykilhlutverk í að styðja við starfsfólk sitt.
Menntasjóður námsmanna: Endurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna mun eiga sér stað á kjörtímabilinu þar sem gefst tækifæri til mikilla umbóta á kerfinu. Endurskoða ætti fjárhæð frítekjumarks og skerðingu vegna tekna. Tengja þarf frítekjumark og grunnframfærslu við vísitölu neysluverðs. Námslánakerfið ætti ekki að hegna þeim sem kjósa að vinna samhliða námi.
Kennarar: Verulega dró úr aðsókn í kennaranám í kjölfar lengingar þess án þess að sýnt hafi verið fram á að það skili sér í betra námi fyrir nemendur. Gera þarf námið fjölbreyttara, hagnýtara og eftirsóknarverðara. Mikilvægt er að nýta hæfni þeirra sem sækjast eftir því að komast í kennaranám og tryggja að hægt sé að fara fjölbreyttar leiðir til þess að ljúka kennaramenntun. Skoða þarf möguleika á að stytta bóklegt nám og auka þarf fjölbreytni í greininni á öllum skólastigum. Aðeins lítið hlutfall starfsfólks við kennslu eru karlar Sjálfstætt starfandi háskólar ættu að fá tækifæri til að bjóða upp á kennaranám. Gera þarf kennslu að eftirsóknarverðari starfsgrein; bæta starfskjör og umhverfi til nýsköpunarþenkjandi kennsluaðferða og efla stuðningsumhverfi kennara.
Fjölmiðlar, menning og tómstundastarf
Fjölmiðlar: Ábyrgir fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki ekki síst nú þegar erfitt er að greina á milli vandaðs fréttaflutnings og falsfrétta. Tryggja verður að rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla verði heilbrigt og raunhæfur kostur fyrir þá sem áhuga hafa á að leggja í slíkan rekstur. Það gerist ekki á meðan ríkið rekur umfangsmesta fjölmiðil landsins með sjö milljarða í rekstrartekjur sem er í engu samræmi við stöðu annarra fyrirtækja á þessu sviði. Framlag á fjárlögum til RÚV skapar ójafnræði og útilokar heiðarlega samkeppni á auglýsingamarkaði. Allar forsendur ríkisrekins fjölmiðils, sem áttu við fyrir tæplega 100 árum, eru brostnar og tilvist slíks fjölmiðils er tímaskekkja. Hætta á fjárhagslegum stuðningi við rekstur RÚV og kanna hvort rekstrinum sé að öllu leyti eða hluta til betur komið í höndum einkaaðila. Þannig verður sterkari stoðum rennt undir tilvist einkarekinna fjölmiðla í stað beinna ríkisstyrkja. Aðgengi almennings að streymisveitum skal ekki vera takmarkað nema efnið gangi gegn lögum. Ekki skal skylda streymisveitur til að sýna efni í meira mæli frá einu ríki eða ríkjasambandi framar öðru.
Menning: Tryggja þarf áframhaldandi grósku í íslensku menningarlífi um allt land sem auðgar lífið og hefur jákvæð hagræn áhrif. Endurskoða þarf starfs-launakerfi listamanna þannig að það sé sanngjarnt, hvetjandi, ýti undir grósku í menningarstarfi og styðji við upprennandi listafólk. Leggja ætti niður heiðurslaun listamanna. Hlúa þarf vel að skapandi greinum sem fela í sér mikil tækifæri. Lækkun á skattlagningu höfundaréttargreiðslna, sem ráðist var í að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins, er liður í að hlúa að skapandi greinum. Vinna þarf að varðveislu íslenskrar tungu í nútímasamfélagi með því að vinna áfram af fullum krafti að máltækni. Auka þarf aðgengi að hljóð- og rafbókum á íslensku fyrir nemendur á grunn- og framhaldsskólastigi. Auka þarf aðgengi að listnámi.
Íþróttir: Viðhalda þarf öflugu íþróttastarfi í landinu með eflingu íþróttahéraða til að auka framboð og efla samþættingu á þjónustu og faglegu starfi í nærumhverfinu. Styðja þarf við íþróttir á öllum stigum og æviskeiðum enda hefur skipulagt íþrótta- og tómstundastarf mikið forvarnagildi og eflir félagsþroska. Veita þarf iðkendum og sjálfboðaliðum hvatningu og stuðning til þátttöku. Auka þarf samfellu og samþættingu í skóla- og tómstundastarfi, bæta þannig gæði skólastarfs og koma betur til móts við þarfir hvers og eins nemanda. Finna þarf leiðir til að nýta tækni til að halda utan um nám sem fer fram óháð staðsetningu. Bæta þarf möguleika almennings til heilsuræktar m.a. með öflugu lýðheilsuátaki á landsvísu. Áhersla verði á lýðheilsu með góðri aðstöðu fyrir almenningsíþróttir. Viðurkenna þarf stöðu jaðaríþrótta, eins og rafíþrótta, meðal annarra íþróttagreina.Fella ætti á brott lög um bann við hnefaleikum. Ljúka þarf uppbyggingu þjóðarleikvangs og þjóðarhallar. Skoða þarf rekstrarfyrirkomulag og samþættingu rekstrar íþróttamannvirkjana með það fyrir augum að bæta þjónustu og auka nýtingu og hagkvæmni. Heilsufarshnignun barna og ungmenna er vaxandi vandamál sem vegur að framtíð þjóðarinnar.
Tómstunda- og félagstarf: Viðhalda þarf öflugu tómstunda- og félagsstarfi í landinu. Skipulagt tómstunda- og félagsstarf hefur mikið forvarnargildi fyrir börn og ungmenni. Veita þarf iðkendum og sjálfboðaliðum hvatningu og stuðning til þátttöku. Auka þarf samfellu í skóla- og tómstundastarfi, til að auðvelda börnum og ungmennum þátttöku. Áhersla verði á að auka lýðheilsu og félagsfærni.
Byggt á ályktun allsherjar- og menntamálanefndar á 44. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2022.