Jafnrétti, mannréttindi og hinsegin málefni

Jafnrétti, mannréttindi og trúmál

Jafnrétti: Öll ættu að búa við jöfn tækifæri óháð kynferði, kynhneigð, uppruna, trú eða öðrum þáttum. Fjölbreytileiki þrífst best í frjálsu samfélagi.

Mannréttindi: Frelsi má ekki taka sem gefnu og það er meginhlutverk Sjálfstæðisflokksins að standa vörð um það. Atvinnufrelsi, ferðafrelsi og athafnafrelsi hefur verið skert verulega á síðustu árum vegna sóttvarna. Standa þarf vörð um félagafrelsið t.d. með að tryggja rétt launafólks til að velja sér stéttafélag. Eignarréttur er einnig grundvallar mannréttindi og einn af hornsteinum samfélagsins og hann þarf að styrkja og vernda. Auka þarf frelsi foreldra til að gefa börnum nafn og fullorðins fólks til að breyta nafni sínu. Gæta þarf að því að löggjöf hindri ekki málfrelsi með óeðlilegum hætti eða sé hindrun fyrir heilbrigða málefnalega umræðu í samfélaginu.

Áfengislög: Afnema á ríkiseinokunarstöðu ÁTVR á sölu áfengis. Áfengiskaupaaldur ætti að vera hinn sami og lögræðisaldur.

Trúmál: Þjóðkirkjan og önnur trú- og lífsskoðunarfélög gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Ríkið á að hætta innheimtu félagsgjalda trúfélaga.

Málefni hinsegin fólks

Almennt: Sjálfstæðisflokkurinn vill áfram vera í fararbroddi þeirra sem vilja tryggja mannréttindi og auka réttindi hinsegin fólks. Þarft er að stíga áfram skref sem tryggja jöfn réttindi og jafna stöðu þeirra. Stjórnvöld þurfa að móta sér heildstæða stefnu í málefnum hinsegin fólks, í samstarfi við samtök þeirra, þar sem sérstaklega verði skoðað að styrkja stöðu hinsegin fjölskyldna, einkum með tilliti til ættleiðinga, skráningar og sjálfkrafa viðurkenningar samkynja foreldra. Setja þarf skýra stefnu um hinsegin fólk í leit að alþjóðlegri vernd. Ísland er, og á ávallt að vera, í fararbroddi þegar kemur að réttindum hinsegin fólks. Fólki á að vera frjálst að skilgreina kyn sitt að vild.

Fræðsla: Brýnt er að fræðsla um málefni hinsegin fólks verði efld og veitt á öllum skólastigum og að umfjöllun um þau verði bætt við menntastefnu. Ennfremur að ríki og sveitarfélög tryggi starfsfólki sínu aðgengi að hinseginfræðslu, þá sérstaklega þeim sem koma að því að veita þjónustu til hinsegin fólks.

Byggt á ályktun allsherjar- og menntamálanefndar á 44. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2022.