Heilbrigðismál
Bæta þarf heilbrigðisþjónustu bæði í almennri grunnstarfsemi svo sem umönnun sem og hjá sérhæfðara heilbrigðisstarfsfólki. Veruleg tækifæri eru til úrbóta í samstarfi og samþættingu milli ríkis og sveitarfélaga svo og milli einstakra þjónustueininga ríkisrekstrar og sjálfstætt starfandi fyrirtækja og heilbrigðisstarfsmanna. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að við skipulag heilbrigðisþjónustu sé réttur einstaklinga til þjónustu tryggður. Efla þarf heimaþjónustu en án hennar kemur fólk sífellt veikara inn á hjúkrunarheimili og sjúkrahús.
Bæta þarf menntun og fjölga nemendum í heilbrigðisgreinum og fylgja eftir möguleikum á t.d. námslínum í einfaldara sjúkraliða- og hjúkrunarfræðinám. Starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks þarf að vera áhugavert og eftirsóknarvert.
Með nýrri heilbrigðis- og velferðarstefnu má auka gæði og skilvirkni þjónustunnar. Sú stefna sem unnin var árið 2019 er að takmörkuðu leyti í takt við stefnu Sjálfstæðisflokksins. Leggja þarf aukna áherslu á nýsköpun og fjölbreytt rekstrarform með sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsemi sem getur létt verulega undir með opinberum heilbrigðisstofnunum, stytt biðlista og aukið hagkvæmni í rekstri.
Móta stefnu í sjúkrahúsþjónustu landsmanna. Landspítali (LSH) þarf sem þjóðarsjúkrahús að geta sinnt sínu skilgreinda hlutverki á sviði lækninga, rannsókna og háskólakennslu. LSH hafi í forgangi stærri og flóknari aðgerðir og meðferð, en verði auk þess leiðandi í viðbrögðum við farsóttum, bráðaþjónustu og öryggismálum. Til að LSH geti gegnt þessu forystuhlutverki þarf að gera honum kleift að draga úr annarri almennri sjúkrahúsþjónustu m.a. með því að efla samstarf við aðrar heilbrigðisstofnanir, sérfræðilækna og fyrirtæki. Stytta þarf þann tíma sem sjúklingar dvelja að óþörfu á bráða- og aðgerðardeildum spítalans og efla þá þjónustu sem tekur við og leysa þar með stóran hluta fráflæðivandans.
Þrátt fyrir uppbyggingu LSH við Hringbraut þarf samtímis að huga að framtíðaraðstöðu fyrir aðra sjúkrahúsþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Farið verði í greiningu á framtíðarþörf og staðarvali fyrir slíka sjúkrahúsþjónustu og byggingu í samstarfi við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstofnanir og fyrirtæki. Eðlilegt er að slíkt sjúkrahús, verði ekki ríkisrekið heldur rekið með þjónustutengdri fjármögnun frá hinu opinbera, á sama hátt og háskólar og ýmsir aðrir þjónustuaðilar fá fjárframlög frá ríkinu þótt þeir séu ekki ríkisreknir.
Efla þarf fjölbreyttara rekstrarform heilbrigðisþjónustu. Það er stefna Sjálfstæðisflokksins að í landinu sé öflugur hópur sjálfstætt starfandi sérfræðilækna, annars heilbrigðisstarfsfólks og heilbrigðisfyrirtækja. Nýta þarf betur möguleika á fjölbreyttum rekstrarformum innan heilbrigðisþjónustunnar með áherslu á skýrar gæðakröfur og skilvirkni samhliða jafnræði í greiðslum óháð rekstrarformi. Flýta þarf innleiðingu gagnsæs greiðslukerfis (DRG kerfi) vegna fjármögnunar sjúkrahússtarfsemi. Halda skal áfram að bjóða út starfsemi heilsugæslunnar og annarrar heilbrigðisþjónustu til að auka hagkvæmni og skilvirkni.
Sjúkratryggingar Íslands. Ein mikilvægasta stofnun á sviði heilbrigðismála er Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) sem sér um innkaup heilbrigðisþjónustu og samninga við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstéttir. Úrbóta er þörf á ýmsum sviðum svo sem varðandi samningagerð og kaup á þjónustu, gjaldskrárgerð og eftirlit. Ekki hefur verið gætt að samræmingu og sanngirni varðandi gjaldskrár og eðlilegum hækkunum og endurskoðun samninga hefur ekki verið fylgt eftir svo sem tannréttingastyrkir barna.
Þjónusta óháð búsetu. Stórbæta þarf þjónustu við íbúa á landsbyggðinni með bættu aðgengi að endurhæfingu, almennri heilbrigðisþjónustu og -starfsfólki, sérstaklega sérfræðilæknum og með fjarþjónustu. Auk þess þarf að bæta tækjabúnað heilsugæslu og sjúkrahúsa til bráðaþjónustu út um land svo sem með bráðagreiningartækjum og bæta stafræna þjónustu. Ríkið tryggi rekstrargrundvöll heilbrigðisstofnana úti á landi á sama tíma og bæta þarf tengingu og samstarf milli LSH og annarra heilbrigðisstofnana um land allt.
Jafna þarf aðstöðu einstaklinga sem búa úti á landi með kostnaðarþátttöku í ferða- og dvalarkostnaði þegar slíkt er nauðsynlegt. Tryggja þarf komu sérfræðinga á stofnanir um allt land svo draga megi úr þörf á ferðalögum fólks til Reykjavíkur. Mikilvægt er að fæðingarþjónusta sé til staðar sem næst heimabyggð vegna öryggis móður og barns. Efla þarf sjúkraflug og tryggja að slík þjónusta sé ætíð til taks í hinum dreifðu byggðum með styttri viðbragðstíma en þekkist í dag.
Endurhæfing. Leggja ber áherslu á endurhæfingu og fjölga endurhæfingarúrræðum fyrir þau sem eru með skerta starfsorku vegna sjúkdóma eða slysa. Öll sem verða fyrir skerðingu á starfsgetu fái tækifæri til starfsendurhæfingar þegar læknisfræðilegri meðferð og endurhæfingu er lokið.
Leitast þarf við að bjóða upp á fjölbreytt úrræði í heimabyggð, en um leið þarf að þróa úrræði þvert á sveitarfélög til að gæta jafnræðis í þjónustu og stuðla að hagkvæmni. Tryggja þarf að þau sem ekki fá endurhæfingu á opinberri stofnun, geti sótt þá þjónustu á almennum markaði með greiðsluframlagi frá ríkinu þegar slíkt á við.
Geðheilbrigðismál. Leggja ber meiri áherslu á forvarnir í geðheilbrigðismálum og snemmtæka íhlutun og efla þarf fyrsta stigs þjónustu heilsugæslunnar á þessu sviði. Um helmingur þeirra sem fara á örorku fyrir 35 ára aldur eru með geðsjúkdóm sem meginástæðu. Huga þarf sérstaklega að málefnum barna og unglinga og þau hafi greiðan aðgang að félagsráðgjöfum, hjúkrunarfræðingum og sálfræðingum í grunnskólum. Endurskoða þarf húsnæðismál geðdeildar LSH og undirbúa nýja byggingu þar sem staðarval og allt umhverfi og aðstaða henti betur skjólstæðingum, aðstandendum þeirra sem og starfsfólki.
Líta þarf á fíkn sem heilbrigðisvanda en ekki löggæsluvanda. Tryggja þarf meðferð og endurhæfingu fíknisjúklinga og auðvelda þeim endurkomu í samfélagið.
Nýsköpun og nýjungar í velferðarþjónustu. Styðja þarf vel við fjárfestingar vegna nýsköpunar í velferðarþjónustu og nýtingu heilbrigðistækni og stafrænna lausna. Slíkt eykur hagkvæmni og bætir þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Opinberir aðilar þurfa að fjárfesta á þessu sviði ekki síður en í húsnæði og til almennra tækjakaupa.
Útflutningstekjur af heilbrigðis- og líftækni. Margvísleg tækifæri eru í auknum útflutningstekjum af þekkingu og sérstöðu Íslands á sviði heilbrigðis- og líftæknivísinda. Á Íslandi eru starfandi nokkur öflug heilbrigðis- og líftæknifyrirtæki í fremstu röð á sínu sviði í heiminum auk þess sem heilbrigðiskerfiskerfið býr yfir vel menntuðu starfsfólki með víðtæka þekkingu.
Með samstarfi heilbrigðisstofnana og hugvitsdrifinna fyrirtækja á sviði heilbrigðis- og líftækni má byggja upp nýja atvinnustarfsemi þar sem hugvit, nýsköpun og vel menntað starfsfólk eykur hagvöxt og útflutningstekjur og stuðlar samhliða að aukinni hagkvæmni og skilvirkni heilbrigðiskerfisins hér á landi.
Byggt á ályktun velferðarnefndar á 44. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2022.