Félags- og tryggingamál
Áskoranir og tækifæri felast í að þjóðin er að eldast. Heilsufar batnar og lengja má starfsaldur og gera starfslok sveigjanlegri. Frítekjumark verði endurskoðað og jaðaráhrif tekjutenginga og tekjuskatts. Það mun efla hagvöxt, bæta velferð og hafa ýmis jákvæð áhrif.
Efla þarf forvarnir og heilsueflingu í félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og skólum. Stuðla ber að lýðheilsuátaki á landsvísu með mælanlegum markmiðum í samvinnu almennings, heilbrigðiskerfisins og frjálsra félagasamtaka. Hvetja þarf almenning og frjáls félagasamtök að koma á teymisvinnu milli félags- og heilbrigðiskerfis til að tryggja aðgengi að stuðningsúrræðum fyrir alla aldurshópa. Leggja ber áherslu á snemmtæka íhlutun frá unga aldri og koma í veg fyrir lífsstílstengda sjúkdóma, örorku og jafnvel sjálfsvíg.
Málefni eldra fólks. Endurskoða þarf þjónustu við eldra fólk varðandi almennt heilsufar þar á meðal tannheilsu. Auka þarf skilvirkni heildarþjónustunnar og samþætta heimahjúkrun, félags- og tómstundaþjónustu auk sálgæslu og annars sem getur dregið úr einsemd aldraðra. Heilsugæslan þarf að nálgast eldra fólk fyrr á lífsleiðinni og miða þjónustu og úrræði við þarfir hvers og eins. Fjölga þarf þjónustuíbúðum og auka fjölbreytileika varðandi búsetuform, en einnig tryggja aðgengi að hjúkrunarheimilum þegar sjálfstæð búseta er ekki lengur möguleg. Boðið verði upp á úrræði við hæfi svo að eldra fólki verði gert kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði. Horfa þarf til nýsköpunar og nýta ber betur sjálfstætt starfandi fyrirtæki á þessu sviði og tryggja betur sjálfsákvörðunarrétt eldra fólks og fjárhagslegt sjálfstæði þess.
Aðstæður eldra fólks og öryrkja fara ekki að öllu leyti saman í almannatryggingakerfinu. Endurskoða þarf lífeyrissjóða- og almannatryggingakerfi m.t.t. hagsmuna eldra fólks. Starfslok verði sveigjanleg og fólki gert kleift að starfa í fullu starfi eða hlutastarfi miðað við áhuga og færni en ekki eingöngu miðað við aldur og tímasett starfslok. Margir hópar ljúka ekki starfsævinni með rík lífeyrisréttindi og nýta þarf skattkerfið annars vegar til að styðja við þessa hópa og auka svigrúm til atvinnuþátttöku án umtalsverðra skerðinga. Draga þarf úr skerðingu ellilífeyris vegna lífeyristekna og annarra tekna, hvaðan sem þær koma.
Málefni fólks með skerta starfsorku. Sjálfstæðisflokkurinn vill endurskoða tryggingakerfi öryrkja frá grunni og horfa til þess að öryrkjar hafi ávinning af því að afla sér tekna. Þeim verði auðvelduð þátttaka á almennum vinnumarkaði með tilliti til starfsgetu án þess að þeir verði fyrir umtalsverðri skerðingu á örorkulífeyri. Afnema þarf krónu á móti krónu skerðingu og hækka viðmiðið til að tryggja lágmarkstekjur og auka hvata til sjálfsbjargar.
Endurskoða þarf starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins (TR) með ofangreint í huga og hægt sé að gera samninga við öryrkja sem gefi þeim hvata til vinnu sem tekur mið af starfsgetu hvers og eins Hið opinbera, ríki og sveitarfélög, leiði slíka vinnu í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.
Málefni fatlaðs fólks á vegum sveitarfélaga. Tilflutningur málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga hefur skapað margvíslega erfiðleika m.a. í tengslum við fjármögnun þjónustunnar. Endurskoða þarf frá grunni fjármögnun sveitarfélaga/þjónustusvæða á þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Finna þarf leiðir til þess að sveitarfélög/þjónustusvæði geti sinnt þjónustu sinni eins og lög kveða á um. Mikilvægt er að endurskoða í því samhengi framlög til málaflokksins þar sem þau standa ekki undir þjónustuþörf.
Auka ber sjálfstæði fatlaðra einstaklinga og þau sem búa við mikla skerðingu þannig að þau hafi val um að stýra sinni þjónustu sjálf m.a. með notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA).
Byggt á sjá ályktun velferðarnefndar á 44. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2022.