Kæru Seltyrningar,
Ég er 25 ára Seltirningur og bý á Kirkjubraut ásamt kærustunni minni, Hildi Sif Hilmarsdóttur. Við eigum von á okkar fyrsta barni í maí og það breytir því hvernig maður horfir á samfélagið sitt, ábyrgðina og framtíðina.
Ég er að eðlisfari klassískur sjálfstæðismaður. Ég trúi því að hið opinbera eigi að gera fáa hluti, en gera þá vel. Fyrir mér skiptir mestu að tryggja ábyrgan rekstur sveitarfélagsins, lága skatta og að einstaklingar og fjölskyldur fái að blómstra á eigin forsendum.
Leikskólamál skipta mig miklu máli. Sem verðandi faðir finn ég sterkt til með ungu fólki sem hefur áhyggjur af leikskólaplássum og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Þetta er grunnþjónusta sem þarf að virka. Ég vil leggja mitt af mörkum til að Seltjarnarnes verði áfram eitt fjölskylduvænasta sveitarfélag landsins.
Við búum einnig vel að öflugu íþróttastarfi. Sterkt íþróttafélag, góð lýðheilsa og gott samstarf við Gróttu skipta mig miklu máli. Íþróttir snúast ekki aðeins um afrek, heldur samfélag, aga og vellíðan íbúa.
Ég er formaður Baldurs, félag ungra sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi. Ég sit jafnframt í sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju.
Ég er menntaður hagfræðingur með BSc-gráðu í hagfræði og meistarapróf í endurskoðun og reikningsskilum og starfa í dag sem sérfræðingur á endurskoðunarsviði PwC.
Ég óska því eftir stuðningi ykkar í 3. sæti í prófkjöri flokksins.
Facebook: Magnús Benediktsson
Instagram: Magnusben_
