Júlíana Guðmundsdóttir

Júlíana Guðmundsdóttir sækist eftir 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ

Júlíana Guðmundsdóttir, lögmaður hjá Visku – stéttarfélagi, gefur kost á sér í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ. Júlíana býr yfir víðtækri reynslu og mikilli þekkingu á sviði samninga- og vinnuréttar ásamt vinnumarkaðsmálum, en hún hefur starfað í stéttarfélagsmálum í áratug.

Hún er menntaður lögfræðingur með héraðsdómsréttindi. Á kjörtímabilinu hefur Júlíana tekið þátt í samfélagsmálum bæjarins. Hún hefur setið í yfirkjörstjórn og er aðalmaður í Notendaráði fatlaðs fólks þar sem hún hefur kynnst fjölbreyttum sjónarmiðum og þörfum íbúa. Þessi reynsla hefur styrkt hana í þeirri trú að góð sveitarstjórn er byggð á hlustun, samvinnu og vilja til að bæta daglegt líf fólks.

Um framboð sitt segir Júlíana: „Eftir að ég flutti í Mosfellsbæ ákvað ég að bjóða mig fram og taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og starfi flokksins. Á þessum tíma hef ég fundið að mig langar til þess að halda áfram að leggja mitt af mörkum til bæjarins, styðja samfélagið, þjóna bæjarbúum og vinna að því að gera Mosfellsbæ enn betri og eftirsóknarverðari stað til að búa á“.

Júlíana er gift Sigurði Árna Reynissyni, kennara í Lágafellsskóla, og eiga þau tvö börn og fjögur barnabörn.