Jana Katrín Knútsdóttir

Ég er hjúkrunarfræðingur að mennt með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands ásamt því að vera hestafræðingur og leiðbeinandi frá Háskólanum á Hólum. Ég starfa sem deildarstjóri smitsjúkdómadeildar Landspítala. Ég hef verið á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í síðustu tveimur Alþingiskosningum og skipaði annað sæti á lista flokksins í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Ég hef því sinnt hlutverki bæjarfulltrúa sl. þrjú ár og setið í bæjarráði og velferðarnefnd hluta þess tíma.

Ég er fædd og uppalin í Mosfellsbæ og er svo lánsöm að búa á æskuheimilinu mínu. Ég er gift Magnúsi Pálssyni, aðalvarðstjóra hjá Ríkislögreglustjóra og eigum við tvö börn, Anítu Líf og Loga Pál.

Mitt helsta áhugamál er náttúran í öllum skilningi. Ég er áhugakona um fugla, plöntur og dýr, útivist og hreyfingu, tónlist, bækur, fjölskyldu og vini og stunda hestamennsku af kappi.

Mig langar að vera þátttakandi í áframhaldandi uppbyggingu í Mosfellsbæ. Ég vil búa í samfélagi sem hlúir að börnunum okkar, tryggir góða aðstöðu til náms og leiks og skapar jöfn tækifæri. Ég vil búa í samfélagi sem gefur eldra fólki val og sjálfræði í búsetumálum og leggur áherslu á öryggi og lífsgæði ungra sem aldna. Þá vil ég halda í sérkenni Mosfellsbæjar sem sveit í borg.

Ég óska eftir áframhaldandi stuðningi í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.