Hilmar Ingimundarson

Ég heiti Hilmar Ingimundarson og gef kost á mér í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Ég hef búið í Hafnarfirði síðan 2005, eða í rúm 20 ár, ásamt fjölskyldu minni og tenging mín við bæinn byggir á daglegu lífi, uppeldi barna og virkri þátttöku í samfélaginu.

Undanfarin ár hef ég starfað sem framkvæmdastjóri Fimleikafélagsins Björk, þar sem ég hef leitt öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf í nánu samstarfi við foreldra, starfsfólk og bæjaryfirvöld. Ég hef jafnframt setið í fræðsluráði Hafnarfjarðar sem aðalmaður og tekið sæti sem varamaður í bæjarstjórn á yfirstandandi kjörtímabili. Sú reynsla hefur veitt mér dýrmæta innsýn í rekstur sveitarfélagsins, stefnumótun og ábyrgð gagnvart íbúum.

Ég hef starfað virkt innan Sjálfstæðisflokksins, setið í fulltrúaráði Hafnarfjarðar, kjördæmisráði Suðvesturkjördæmis og stjórnum flokksfélaga og málefnanefnda, þar á meðal umhverfis- og samgöngunefnd. Þar hef ég lagt áherslu á skynsamlega uppbyggingu, öfluga innviði, ábyrg fjármál og gott samstarf.

Ég vil leggja mitt af mörkum til að Hafnarfjörður haldi áfram að vaxa af festu, með traustum rekstri og framtíðarsýn sem þjónar íbúum á öllum aldri. Ég leita eftir stuðningi ykkar til að fá það tækifæri.
Hilmar Ingimundarson

Vefsíða : www.hilmari.is