Hilmar Gunnarsson

Ég heiti Hilmar Gunnarsson og býð mig fram til að leiða öflugan lista Sjálfstæðismanna í kosningunum í vor. Ég er Mosfellingur í húð og hár og hef brennandi áhuga á Mosfellsbæ og öllu sem að honum snýr. Ég er giftur Oddnýju Þóru Logadóttur, kennara í Helgafellsskóla, og saman eigum við synina Kristófer, Loga og Kára.

Ég hef verið svo lánsamur að fá að kynnast samfélaginu okkar náið, meðal annars í starfi mínu sem ritstjóri Mosfellings síðastliðin 20 ár. Þá hef ég haldið utan um félagsheimilið okkar Hlégarð og bæjarhátíðina Í túninu heima.

Bærinn er að stækka og það er í mörg horn að líta ef við ætlum að ná að halda í bæjarbraginn sem er okkur svo kær. Við þurfum að tryggja trausta þjónustu við íbúa á öllum aldri, skilvirka stjórnsýslu og ábyrgan rekstur. Það er mikilvægt að styðja við fjölbreytt menningar- og atvinnulíf, byggja upp innviði af metnaði og alúð og tryggja að skólakerfið sé í stakk búið til að hlúa sem best að börnunum okkar.

Ég hlakka til að takast á við nýjar og krefjandi áskoranir - fyrir heimabæinn minn.

Á heimasíðunni 270.is eru allar helstu upplýsingar um framboðið, áherslur og fréttir af því sem fram undan er.