Ég gef hér með kost á mér í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi. Ég er sérfræðingur í uppeldis- og menntamálum með sérstaka áherslu á stjórnun menntastofnana, menntarannskóknir og mat á skólastarfi. Hef á starfsferlinum starfað lengst við kennslu á framhalds- og háskólastigi og við náms- og starfsráðgjöf á grunn- og framhaldsskólastigi. Síðastliðin 25 ár hef ég starfað við Kvennaskólann í Reykjavík.
Á núverandi kjörtímabili hef ég verið varbæjarfulltrúi og gegnt formennsku í fjölskyldunefnd og öldungaráði.
Á kjörtímabilinu vann ég að mótun forvarna- og lýðheilsustefnu ásamt verkefnastjóra frístunda- og forvarnastarfs og hagaðilum. Ljóst er að við þurfum að standa vaktina vel í málefnum ungs fólks. Starf Íþróttaféagsins Gróttu er mikilvægt í forvörnum barna og ungmenna. Haustið 1985 hóf ég að þjálfa fimleika hjá Gróttu og kom að stofnun fimleikadeildarinnar og var fyrsti formaður hennar.
Einnig vann ég á kjörtímabilinu að gerð fyrstu stefnu Seltjarnarnesbæjar í málefnum eldri bæjarbúa ásamt forstöðumanni félagstarfs eldri bæjarbúa, verkefnastjóra frístunda- og forvarnastarfs og hagaðilum. Ég starfa með teymi sem vinnur að því að koma stefnunni og málefnum eldri bæjarbúa í framkvæmd. Aukin virkni eldri bæjrbúa og virðing fyrir löngu ævistarfi þeirra er lykilatriði í þeim málaflokki. Ég hef unnið ötuglega að málefnum þeirra og er stolt af gönguhópnum, stuðningi bæjarins við Frísk í Gróttu og að eldri bæjarbúar hafi aðgengi að hollum mat sem styðst við lýðheilsumarkmið.
Síðastliðið ár hef ég unnið sem sérfræðingur við að skrifa og ritstýra mótun nýrrar menntastefnu fyrir Seltjarnarnesbæ í samvinnu við hagaðila. Fullbúín menntastefna mun líta dagsins ljós á næstu vikum.
Með ofangreint að leiðarljósi býð ég áfram fram starfskrafta mína fyrir bæjarfélagið og Sjálfstæðisflokkinn á Seltjarnarnesi.
